707. fundur

18.11.2025 17:00

707. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Stapa, Hljómahöll, 18. nóvember 2025, kl. 17:00

Viðstaddir: Alexander Ragnarsson, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Helga María Finnbjörnsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Róbert Jóhann Guðmundsson, Sigurrós Antonsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon. Í forsæti var Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir boðaði forföll, Róbert Jóhann Guðmundsson sat fyrir hana.

1. Fundargerðir bæjarráðs 6. og 13. nóvember 2025 (2025010003)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun Umbótar og Sjálfstæðisflokks:

Mál 1 frá fundargerð bæjarráðs 13. nóvember 2025 - Fjárhagsáætlun 2026-2029 (2025060320)

„Umbót og Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýna þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð við gerð fjárhagsáætlunar, samráð við minnihlutann hefur verið afar takmarkað þrátt fyrir að vinna við áætlunina hafi staðið yfir um nokkurt skeið. Þó að drög að fjárhagsáætlun hafi nú verið lögð fram í bæjarráði til kynningar, hefur engin raunveruleg samráðsvinna eða sameiginleg umræða átt sér stað áður en málinu er vísað áfram til umræðu í bæjarstjórn.

Umbót og Sjálfstæðisflokkurinn leggja áherslu á að gerð verði óháð úttekt á fjármálum Reykjanesbæjar, þar sem vinnubrögð við gerð fjárhagsáætlana hafa breyst síðustu misseri og samráð við minnihlutann dregist verulega saman frá því sem áður var. Þetta á sérstaklega við nú þegar meirihluti Samfylkingar Framsóknar og Beinnar Leiðar hefur ákveðið að vinna megnið af undirbúningi fjárhagsáætlunar án aðkomu minnihlutans. Slík úttekt myndi styrkja ferlið, stuðla að réttari forsendum og auka gagnsæi í áætlanagerð.

Ljóst er að núverandi framsetning á launatölum og tekjum vegna fasteignagjalda, þar sem upphæðum er deilt jafnt niður á tólf mánuði, skapar skekkju í raunverulegu sjóðstreymi bæjarins. Sú framsetning veldur ójafnvægi í fjárflæði yfir árið, einkum í upphafi árs þegar tekjur eru lægri. Þetta hefur þegar leitt til þess á yfirstandandi ári að grípa hefur þurft til skammtímalána með skömmum fyrirvara til að halda uppi rekstri bæjarsjóðs.

Að okkar mati er tímabært að taka upp raunhæfari og faglegri aðferðir við sjóðstreymisáætlanir til að tryggja stöðugleika í fjárflæði, bæta áætlanagerð og koma í veg fyrir óþarfa lántökur.“

Margrét Þórarinsdóttir Umbót, Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson Sjálfstæðisflokki.

Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir, Margrét A. Sanders, Guðbergur Reynisson, Bjarni Páll Tryggvason,
Margrét Þórarinsdóttir og Alexander Ragnarsson.

Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1537. fundar bæjarráðs 6. nóvember 2025
Fundargerð 1538. fundar bæjarráðs 13. nóvember 2025

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 3. og 7. nóvember 2025 (2025010011)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 7. nóvember til sérstakrar samþykktar:

Þriðja mál fundargerðarinnar Spítalareitur – nýtt deiliskipulag (2023030010) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fjórða mál fundargerðarinnar Bolafótur - deiliskipulag (2019051640). Til máls tóku Margrét A. Sanders og Róbert Jóhann Guðmundsson. Samþykkt 11-0.
Fimmta mál fundargerðarinnar Hólagata - Holtsgata - deiliskipulag (2022100137) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sjötta mál fundargerðarinnar Nesvegur 50 - deiliskipulag (2020080234) samþykkt 11-0 án umræðu.
Níunda mál fundargerðarinnar Dagmæður - húsnæði (2024060191) samþykkt 11-0 án umræðu.
Tíunda mál fundargerðarinnar Hólmbergsbraut 2 (2025020483) samþykkt 11-0 án umræðu.
Þrettánda mál fundargerðarinnar Hafnargata 77 (2025100372) samþykkt 11-0 án umræðu.

Forseti gaf orðið laust.

Til máls tók Alexander Ragnarsson (D) og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:

Mál 1 frá fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 3. nóvember 2025 - Fitjabraut og Fitjabakki – gangandi og hjólandi umferð (2025090263)

„Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram bókun á 705. fundi bæjarstjórnar þann 21. október þar sem segir meðal annars: “Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að staldrað verði við þegar afgreiðsla er á nýjum deiliskipulagsáætlunum og breytingu á umferðaræðum. Mikilvægt er að gerð verði heildargreining áhrifum þeirra á samgöngukerfi sveitarfélagsins.“

Því leggjum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins enn og aftur áherslu á að tafarlaust verið farið í heildarumferðargreiningu í sveitarfélaginu með hagsmuni allra í huga, gangandi, hjólandi og akandi. Þetta er brýnt svo ekki verði óafturkræft slys í skipulagsmálum.“

Alexander Ragnarsson, Margrét Sanders og Guðbergur Reynisson Sjálfstæðisflokki.

Til máls tóku Róbert Jóhann Guðmundsson, Helga María Finnbjörnsdóttir, Margrét A. Sanders og Guðbergur Reynisson.

Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 375. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 3. nóvember 2025 - aukafundur
Fundargerð 376. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 7. nóvember 2025

3. Fundargerð stjórnar Eignasjóðs 30. október 2025 (2025010010)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun Umbótar og Sjálfstæðisflokks:

Mál 1 frá fundargerð stjórnar Eignasjóðs frá 30. október 2025 - Fjárfestingarverkefni 2026 (2025080340)

„Fulltrúar Umbótar og Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir verulegum áhyggjum af fjármálastjórn meirihluta Reykjanesbæjar, Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar og þeirri óstjórn sem birtist við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2026.

Samkvæmt fundargögnum stjórnar Eignasjóðs og upplýsingum fjármálastjóra er gert ráð fyrir að fjárfestingargeta sveitarfélagsins á næsta ári verði 1,8 milljarðar króna, með fyrirvara um að sú fjárhæð kunni að taka breytingum í meðförum meirihlutans. Þrátt fyrir það er ljóst að þessi fjárhæð er langt undir því sem sést hjá sambærilegum sveitarfélögum og setur mark á getu bæjarins til að standa undir nauðsynlegum fjárfestingum.

Af fjárhæðinni eru 1,350 milljarðar ætlaðir í endurbætur grunnskólanna, sem þýðir að minna en 500 milljónir standa eftir til annarra brýnna verkefna. Þetta endurspeglar þann veruleika að rekstrarkostnaður sveitarfélagsins er allt of hár miðað við tekjur.

Minnihlutinn ítrekar einnig áhyggjur af því að ekki skyldi hafa verið tryggt fjármagn til framkvæmda á yfirstandandi ári þegar á reyndi. Það leiddi til tafa á greiðslum til verktaka og þess að taka þurfti lán fyrir stórum hluta fjárfestinga til að standa við skuldbindingar. Einnig voru framkvæmdir sem hafnar voru stöðvaðar með tilheyrandi óhagkvæmni og kostnaði fyrir alla.

Umbót og Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýna einnig að vinnubrögð þau sem viðhöfð hafa verið við gerð fjárhagsáætlunar hafi verið ófullnægjandi, þar sem aðeins hefur verið haldinn einn fundur með fulltrúum bæjarstjórnar. Í fundargerðum Eignasjóðs kemur fram að haldnir hafi verið vikulegir fundir um fjármál og fjárfestingarverkefni, en að á þeim hafi eingöngu setið fulltrúar meirihlutans, fjármálastjóri og lykilstjórnendur, án aðkomu minnihlutans.

Fulltrúar Umbótar og Sjálfstæðisflokksins vísa til 43. gr. bæjarmálasamþykktar Reykjanesbæjar, þar sem fjallað er um kosningar og kjörgengi í nefndir og ráð, og óska eftir svörum við eftirfarandi:

1. Hvenær var fjármálanefndin stofnuð?
2. Hvers vegna hafa fulltrúar minnihlutans ekki fengið boð um þátttöku í störfum nefndarinnar?
3. Í ljósi þess að bæjarráð hefur samkvæmt sveitarstjórnarlögum umsjón með stjórnsýslu sveitarfélags, undirbúningi og gerð árlegrar fjárhagsáætlunar, og samningu ársreikninga, er þá rétt að skipan fjármálanefndar og starfshættir hennar skerði eða breyti lögbundnu hlutverki bæjarráðs samkvæmt 48. gr. bæjarmálasamþykktar?“

Margrét Þórarinsdóttir Umbót, Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson Sjálfstæðisflokki.

Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason og Margrét A. Sanders.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun Umbótar og Sjálfstæðisflokks:

Fundargerð stjórnar Eignasjóðs Reykjanesbæjar frá 30. október 2025 – (2025010010)

„Stóra málið núna eru fjármál sveitarfélagsins. Við höfum hingað til unnið saman að fjárhagsáætlunargerðinni. Það er allt annað uppi á teningnum í dag.

Við erum að tala um opinber gögn, þetta er í fundargerð Eignasjóðs. Þarna er verið að ræða um nefnd sem kallast fjármál.

Lýðræðislegt ferli í sveitarfélögum krefst þess að meirihlutinn uppfylli upplýsingaskyldu sína gagnvart öllum kjörnum fulltrúum. Þegar upplýsingar eru einungis lagðar fyrir einn hóp, eins og verið er að gera, mun það skapa ójafnræði í aðkomu að ákvarðanatöku og rýra aðhald, sem er grundvallarhlutverk minnihlutans.

Óljóst er hvað tefur afgreiðslu láns frá Lánasjóði sveitarfélaga, en tafir af þessu tagi geta haft áhrif á stöðu rekstrar og áætlanagerðar. Ef ekki liggja fyrir skýrar upplýsingar um stöðu málsins eða hvort sérstök nefnd fari með umsjón þess, verður erfitt að meta áhrifin á fjárhag og ábyrgðarskiptingu.

Fulltrúar minnihlutans, Umbót og Sjálfstæðisflokkurinn, hafa ítrekað að gagnsæi og jöfn aðkoma að lykilupplýsingum sé forsenda traustrar og faglegrar vinnu og hafna þeim ásökunum sem fram hafa komið frá meirihlutanum. Við í minnihlutanum minnum á að kjörnir fulltrúar bera sameiginlega ábyrgð á gerð og eftirfylgni fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins. Til að sinna þeirri ábyrgð af fagmennsku og í samræmi við góðar stjórnsýslureglur er nauðsynlegt að aðgangur að upplýsingum sé jafnrétthár, að ferlið sé gagnsætt og að allar forsendur liggi skýrt fyrir. Ábyrg fjármálastjórn getur ekki byggst á upplýsingamun eða óljósum verkferlum, hún krefst fullkominnar samábyrgðar allra sem að málinu koma.“

Margrét Þórarinsdóttir Umbót, Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson Sjálfstæðisflokki.

Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Margrét A. Sanders og Guðbergur Reynisson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 21. fundar stjórnar eignasjóðs 30. október 2025

4. Fundargerð velferðarráðs 13. nóvember 2025 (2025010012)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sigurrós Antonsdóttir, Margrét A. Sanders, Bjarni Páll Tryggvason og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 448. fundar velferðarráðs 13. nóvember 2025

5. Fundargerð menntaráðs 14. nóvember 2025 (2025010008)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon og Margrét A. Sanders.

Til máls tók Sverrir Bergmann Magnússon (S) og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar:

Máli 2 frá fundargerð menntaráðs 14. nóvember 2025 - Leikskólar Reykjanesbæjar – staða biðlista (2025110229)

„Meirihlutinn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar vill árétta stöðu og framgang leikskólamála í Reykjanesbæ.

Staða biðlista í leikskólum Reykjanesbæjar telur nú 134 börn, þar af eru 59 sem eru 18 mánaða og eldri og falla þannig undir það viðmið sem meirihlutinn setti sér fyrir núverandi kjörtímabil.

Á árinu hafa verið stigin stór skref til að fjölga leikskólaplássum.

Leikskólinn Drekadalur opnaði í gær og bætir við 43 nýjum plássum, auk þess sem 30 pláss til viðbótar verða til á árinu 2026 og verður þá Drekadalur orðinn 120 barna leikskóli. Þá hafa einnig opnað á árinu leikskólarnir Asparlaut og Skólavegur, þannig að þrír nýir leikskólar hafa tekið til starfa á árinu sem er að líða.

Að sama skapi hefur verið til skoðunar að stækka leikskólana Heiðarsel og Skógarás úr 80 barna leikskólum í 120 barna leikskóla, sem myndi bæta við um 80 plássum og bæta rekstrargetu þeirra.

Helstu áskoranir sveitarfélagsins síðustu tvö kjörtímabil hafa snúið að mikilli íbúafjölgun og rakavandamálum í eldri skólabyggingum. Þá er rétt að nefna einnig að Reykjanesbær hefur um 13% lægri tekjur en meðaltal 7 stærstu sveitarfélaganna að Reykjanesbæ undanskildum fyrir árið 2024 samkvæmt Árbók sveitarfélaga, sem samsvarar ígildi kostnaðar við að byggja þrjá nýja leikskóla.

Meirihlutinn tekur undir bókun meirihluta menntaráðs sem leggur til að gerð verði heildarúttekt á stöðu leikskólamála í Reykjanesbæ, þar sem sveitarfélagið er borið saman við sambærileg sveitarfélög með það að markmiði að kanna möguleikann á því að taka inn börn við 18 mánaða aldur, en í dag er miðað við að börn séu tekin inn á því ári sem þau verða tveggja ára.

Þrátt fyrir þessar ýmsu áskoranir telur meirihlutinn það áfram raunhæfan möguleika að taka inn börn við 18 mánaða aldur árið 2026.“

Guðný Birna Guðmundsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon Samfylkingunni, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir og Róbert Jóhann Guðmundsson Framsóknarflokki og Helga María Finnbjörnsdóttir Beinni leið.

Til máls tók Margrét A. Sanders.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 390. fundar menntaráðs 14. nóvember 2025

6. Fræðslustefna innri fræðslu og endurmenntunar starfsfólks 2025-2028 – fyrri umræða (2025030588)

Guðný Birna Guðmundsdóttir fylgdi fræðslustefnu innri fræðslu og endurmenntunar starfsfólks 2025-2028 úr hlaði.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Margrét A. Sanders.

Fræðslustefnunni vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn 2. desember 2025.

7. Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2026-2029 – fyrri umræða (2025060320)

Forseti gaf orðið laust um fjárhagsáætlunina. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri sem fylgdi áætluninni úr hlaði og fór yfir helstu áhersluatriði.

Forseti gaf orðið laust.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun Umbótar og Sjálfstæðisflokks:

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2026-2029 – fyrri umræða (2025060320)

„Fulltrúar Umbótar og Sjálfstæðisflokksins vilja í fyrstu umræðu benda á nokkur lykilatriði sem fram koma í drögum að fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árin 2026–2029.

Ljóst er af gögnum að rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins er jákvæð en veikist á árinu 2026, þar sem áætluð niðurstaða lækkar í 1,7 milljarða. Á sama tíma eru rekstrargjöld, sérstaklega laun, að aukast langt umfram tekjur sveitarfélagsins. Þá hækka vaxtagjöld og verðbætur áfram næstu ár og hafa veruleg áhrif á rekstur.

Einnig kemur skýrt fram í sjóðstreymi að handbært fé lækkar um 2,1 milljarð árið 2026, sem sýnir að fjárfestingar og skuldbindingar eru meiri en það svigrúm sem reksturinn skapar.

Þá er umtalsvert að fjárfestingar nema 7,6 milljörðum í A- og B-hluta árið 2026 og eru fjármagnaðar með nýjum lánum og lækkun handbærs fjár. Þetta staðfestir mikilvægi þess að heildstæð rýni fari fram í forgangsröðun verkefna og greiðsluáætlana.

Minnihlutinn minnir á að gagnsæi, aðkoma kjörinna fulltrúa og trúverðugar sjóðstreymisforsendur eru forsenda traustrar áætlanagerðar. Þegar tekjur — svo sem fasteignagjöld — eru jöfnuð niður á mánuði án þess að endurspegla raunflæði, skapast hætta á skekkjum í rekstri og óþarfa skammtímalántökum. Þetta sést glöggt í sjóðstreymi ársins 2025 og 2026.

Það er mat minnihlutans að nauðsynlegt sé að láta fara fram óháða úttekt á rekstrarforsendum, sjóðstreymi og áætluðum fjárfestingum. Slík úttekt myndi styrkja ferlið og auka traust á forsendum fjárhagsáætlunar.

Að lokum viljum við ítreka að minnihlutinn ber fulla ábyrgð á því að rýna, gagnspyrja og leggja fram athugasemdir um fjárhagsáætlun. Aðhald er ekki hindrun heldur grundvallarhluti af lýðræðislegri fjármálastjórn sveitarfélagsins.“

Margrét Þórarinsdóttir Umbót og Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson Sjálfstæðisflokki.

Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun Umbótar og Sjálfstæðisflokks:

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2026-2029 – fyrri umræða (2025060320)

„Sú staðreynd blasir nú við í Reykjanesbæ, þar sem ótti okkar Sjálfstæðismanna og Umbótar er að raungerast. Á tímum þrálátrar verðbólgu, hárra stýrivaxta og hækkandi atvinnuleysis á Suðurnesjum hyggst meirihluti Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar hækka fasteignaskatta á fyrirtæki um tæplega 11% – og það er mjög íhaldssamt mat.

Þetta er lítið annað en blaut tuska í andlitið á þeim atvinnurekendum og starfsmönnum sem halda uppi lífvænlegu samfélagi í Reykjanesbæ. Hér starfa öflug iðnfyrirtæki, hárgreiðslustofur, hótel, verslanir, blaðaútgáfa og fjölbreytt nýsköpunarfyrirtæki svo eitthvað sé nefnt – allt fólk sem vinnur hörðum höndum að því að skapa verðmæti, þjónustu og störf. Nú blasir við að öll þessi fyrirtæki þurfa að greiða mun hærri skatta á næsta ári. Það er skref í ranga átt.

Það er þó ekki allt svart. Í upphafi fjárhagsáætlunargerðar var fyrirhugað að láta fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði hækka um vel yfir 10 prósentustig. Þau áform hafa nú verið dregin til baka eftir harðar athugasemdir frá Sjálfstæðisflokknum, Umbót, bæjarbúum og verkalýðsfélögum. Meirihlutinn ákveður því að lækka álagningarhlutfallið þannig að skattahækkunin fari ekki umfram verðbólgu. Það er skref í rétta átt og við hrósum meirihlutanum fyrir. Það breytir ekki heildarmyndinni.

Staðreyndin er sú að fasteignaskattar hafa hækkað verulega að raunvirði frá upphafi kjörtímabilsins 2022: um 12,8% í Keflavík, 13,6% í Njarðvík og 23,1% í Höfnum. Sé litið lengra aftur er myndin enn skýrari; frá árinu 2015 hafa fasteignaskattar t.d. í Keflavík hækkað um nær 30% að raunvirði. Það er því ljóst að þessi þróun er ekki tilviljun heldur kerfisbundin stefna.“

Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson Sjálfstæðisflokki og Margrét Þórarinsdóttir Umbót.

Forseti gerði fundarhlé kl. 19:45.
Fundur aftur settur kl. 19:52.

Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir (S) og lagði fram eftirfarandi bókun Samfylkingar, Framsóknarflokks og Beinnar leiðar:

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2026-2029 – fyrri umræða (2025060320)

„Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hefur í vinnu við fjárhagsáætlun rýnt í tækifæri til lækkunar á álagningarhlutfalli fasteignaskatts samhliða rekstri sveitarfélagsins. Meirihlutinn telur mikilvægt að koma til móts við íbúa Reykjanesbæjar vegna þeirrar miklu hækkunar sem er á fasteignaskatti milli ára og hefur því tekið ákvörðun um að lækka álagningarhlutfall A-skatts sem snýr að íbúðarhúsnæði úr 0,25% í 0,23%. Gert er ráð fyrir að C skattur atvinnuhúsnæðis haldist óbreyttur í 1,45%.

Sveitarfélögum er heimilt að rukka allt að 0,625% í fasteignaskatt A og 1,65% í fasteignaskatt C.

Á undanförnum átta árum hefur meirihluti Reykjanesbæjar lækkað álagningarhlutfall A-skatts úr 0,36% í 0,25%. Álagningarhlutfall á atvinnuhúsnæði hefur einnig lækkað úr 1,65% í 1,45%.

Til samanburðar ef við horfum til annarra sveitarfélaga er staðan þannig fyrir árið 2025:

Sveitarfélag

A-skattur

C-skattur

Reykjanesbær

0,25% - verður 0,23%

1,45% - verður óbreytt

Suðurnesjabær

0,28%

1,65%

Vogar

0,42%

1,65%

Akureyri

0,31%

1,63%

Akranes

0,27%

1,61%

Hafnarfjörður

0,22%

1,39%

Mosfellsbær

0,2%

1,49%

 
Það er athyglisvert að í ljósi þeirra góðu frétta að mögulegt er að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts, að Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur farið víða í fjölmiðlum um málið, eignar sér nú að við sjáum tækifæri til lækkunar en gagnrýnir á sama tíma C-skattinn sem er lágur í samræmi við sambærileg sveitarfélög.

Meirihluti Reykjanesbæjar fagnar því að við getum rekstrarlega lækkað álagningarhlutfallið til að koma til móts við hækkanir til íbúa en taka skal fram að hækkun á fasteignamati er árleg hækkun sem kemur frá HMS vegna fjölda nýrra íbúða og hækkun á virði fasteigna.“

Guðný Birna Guðmundsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon Samfylkingunni, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir og Róbert Jóhann Guðmundsson Framsóknarflokki og Helga María Finnbjörnsdóttir Beinni leið.

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2026-2029 vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn 2. desember 2025. Samþykkt 11-0.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:56.