709. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, , haldinn að Grænásbraut 910, 16. desember 2025, kl. 17:00
Viðstaddir: Alexander Ragnarsson, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga María Finnbjörnsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon. Í forsæti var Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
1. Fundargerðir bæjarráðs 4. og 11. desember 2025 (2025010003)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Margrét A. Sanders, Kjartan Már Kjartansson og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðirnar samþykktar 11-0.
Fylgigögn:
2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 5. desember 2025 (2025010011)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 7. nóvember til sérstakrar samþykktar:
Áttunda mál fundargerðarinnar Dalshverfi III - deiliskipulagsbreyting (2025110509) samþykkt 11-0 án umræðu.
Níunda mál fundargerðarinnar Greniteigur 41 - grenndarkynning (2025090306) samþykkt 11-0 án umræðu.
Tíunda mál fundargerðarinnar Sjónarhóll 6 - breyting á lóð (2025110054) samþykkt 11-0 án umræðu.
Ellefta mál fundargerðarinnar Suðurgata 1 - bílskúr (2025110405) samþykkt 11-0 án umræðu.
Tólfta mál fundargerðarinnar Holtsgata 31 (2025110360) samþykkt 11-0 án umræðu.
Þrettánda mál fundargerðarinnar Fuglavík 27 - breyting á byggingarreit (2025110266) samþykkt 11-0 án umræðu.
Forseti gaf orðið laust.
Til máls tók Guðbergur Reynisson (D) og lagði fram bókun allra bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar:
Mál 1 frá fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 5. desember 2025 – Reykjanesbraut – breyting á aðalskipulagi (2019060056)
„Um leið og við bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar óskum íbúum Reykjanesbæjar og Suðurnesjum öllum til hamingju með þá samgöngubót sem opnun tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni til Rauðhellu er, að ógleymdu hversu stór kafli þetta er í baráttu okkar Suðurnesjamanna og auðvitað landsmanna allra fyrir öruggum samgöngum, viljum við lýsa yfir óánægju okkar með þá ákvörðun samgönguráðherra að seinka tvöföldun Reykjanesbrautar frá Rósaselstorgi til Fitja.
Um Reykjanesbrautina aka að meðaltali 22-25 þúsund bílar á sólarhring og það er ekki boðlegt að slíkur umferðarþungi aki um einfaldan vegkafla frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og að tvöföldun við Fitjar, í gegnum Reykjanesbæ.
Bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar vilja því ítreka fyrri bókun sína frá 2. september síðastliðnum:
„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lýsir ánægju yfir hve vel gengur að hanna og forvinna tvöföldun Reykjanesbrautar ofan Reykjanesbæjar.
Bæjarstjórn vill hvetja ríkisstjórn og alþingismenn sem og samgönguráð og samgöngunefnd Alþingis til að flýta tvöföldun Reykjanesbrautar enda er vinna við samgönguáætlun að hefjast á næstu dögum.
Það er ólíðandi að við þurfum að bíða í 10 ár héðan í frá og í allt að 40 ár eftir að 40 kílómetra vegkafli sem ber yfir 25.000 bíla á sólarhring verði tvöfaldaður.
Kaflinn frá Fitjum upp að Flugstöð Leifs Eiríkssonar er eini kaflinn sem er eftir og er á Samgönguáætlun 2029 til 2035.
Við leggjum til að þeirri framkvæmd verði flýtt.“
Bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ trúa því ekki að alþingismenn, hvort sem þeir eru úr Suðurkjördæmi, eigi sæti í umhverfis- og samgöngunefnd eða frá öðrum kjördæmum landsins muni samþykkja að tvöföldun Reykjanesbrautar sé ekki mikilvægari en svo að framkvæmdinni sé ítrekað ýtt aftur í samgönguáætlun.
Við minnum á að þetta er einn fjölfarnasti vegur á landinu og við leggjum til að kaflanum Rósaselstorg – Fitjar verði fremur flýtt um tvö ár fremur en seinkað!“
Alexander Ragnarsson (D), Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B), Guðbergur Reynisson (D), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Helga María Finnbjörnsdóttir (Y), Margrét A. Sanders (D), Margrét Þórarinsdóttir (U), Sigurrós Antonsdóttir (S) og Sverrir Bergmann Magnússon (S).
Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Helga María Finnbjörnsdóttir.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
3. Fundargerð stjórnar eignasjóðs 3. desember 2025 (2025010010)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Fundargerðin samþykkt 11-0 án umræðu.
Fylgigögn:
4. Fundargerð sjálfbærniráðs 5. desember 2025 (2025010009)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Forseti bar upp tillögu um að vísa máli tvö – Lýðræðisleg þátttaka innflytjenda (2023030124) til frekari umræðu í bæjarráði. Samþykkt 11-0.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
5. Fundargerð velferðarráðs 11. desember 2025 (2025010012)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Sigurrós Antonsdóttir.
Forseti gerði fundarhlé kl. 17:34
Fundur aftur settur kl. 18:11
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram bókun allra bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar:
Mál 2 frá fundargerð velferðarráðs 11. desember 2025– Samræmd móttaka flóttafólks - viðauki við samning (2022020555)
„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar getur ekki samþykkt fyrirliggjandi viðauka við þjónustusamning um samræmda móttöku flóttafólks, þar sem um er að ræða framlengingu og efnisbreytingar á samningi sem var samþykktur af bæjarstjórn Reykjanesbæjar 1. júlí 2025, án þess að forsendur hans liggi lengur fyrir með fullnægjandi hætti. Jafnframt telja fulltrúar að gildistími samningsins sé of langur og að hann ætti að vera að hámarki til 30. júní 2026, enda ríkir mikil óvissa um framkvæmd málsins í tengslum við brottfararstöð, sem á að taka til starfa 12. júní 2026. Samkvæmt upplýsingum þá er Vinnumálastofnun með stærsta karlaúrræði í Reykjanesbæ á landinu, tölfræðin segir okkur að samsetning sé svohljóðandi:
-
- Hafnarfjörður er með samtals fjölda 136 þar af 90% fjölskyldur, stakir karlar 10% og stakar konur 0%
- Reykjavik er með samtals fjölda 182 þar af 52% fjölskyldur, stakir karlar 30% og stakar konur 18%
- Kópavogur er með samtals fjölda 136 þar af 90% fjölskyldur, stakir karlar 10% og stakar konur 0%
- Reykjanesbær er með samtals fjölda 252 þar af 31% fjölskyldur, stakir karlar 69% og stakar konur 0%
Bæjarstjórn telur það samráðsleysi sem verið hefur í málaflokknum óásættanlegt og er brýnt að bæta þar úr.
Bent er á að fyrir Alþingi Íslands liggi frumvarp sem varðar fyrirkomulag móttökumiðstöðva flóttafólks, sem ekki hefur hlotið afgreiðslu. Samkvæmt áætlunum eiga ný lög að taka gildi 1. mars 2026, og jafnframt liggur fyrir að brottfararstöð eigi að taka til starfa 12. júní 2026. Við þessar aðstæður ríkir veruleg óvissa um framtíðarfyrirkomulag móttöku, hlutverk sveitarfélaga, fjármögnun og ábyrgðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.
Að því leyti taka allir bæjarfulltrúar undir með Velferðarráði að það samráðsleysi stjórnvalda sem verið hefur í málaflokknum sé óásættanlegt og brýnt sé að bæta þar úr. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar krefst samtals við ríkið áður en að Reykjanesbær getur samþykkt þennan viðauka III við samræmda móttöku flóttafólks.“
Alexander Ragnarsson (D), Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B), Guðbergur Reynisson (D), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Helga María Finnbjörnsdóttir (Y), Margrét A. Sanders (D), Margrét Þórarinsdóttir (U), Sigurrós Antonsdóttir (S) og Sverrir Bergmann Magnússon (S).
Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir og lagði til að fresta afgreiðslu máls 2 frá fundargerðinni. Samþykkt 11-0.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
6. Fundargerð atvinnu- og hafnarráðs 11. desember 2025 (2025010004)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Til máls tók Alexander Ragnarsson (D) og lagði fram eftirfarandi bókun atvinnu- og hafnarráðs sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar tekur undir í heild sinni.
Mál 9 frá fundargerð atvinnu- og hafnarráðs frá 11. desember 2025 - Samgönguáætlun 2026-2040 (2025120114)
„Almennt byggir atvinnulífið á greiðum og öruggum samgöngum og tryggja þarf að atvinnulífið í Reykjanesbæ búi við slíka grunninnviði. Ein af stærri fjárfestingum í nýjum atvinnutækifærum er nú í gangi úti á Reykjanesi þar sem nú er unnið að stórauknum framleiðsluiðnaði sem krefst mikilla þungaflutninga. Innan sveitarfélagsmarka er Nesvegurinn sem tengir fjölþætta og vaxandi atvinnustarfsemi á Reykjanesi við Hafnarveg og þaðan inn í bæjarfélagið. Fyrirsjáanlegt er að vegurinn mun ekki bera verulega aukinn umferðarþunga og nauðsynlegt að huga strax að framkvæmdum við veginn svo hann teljist öruggur innviður. Vegurinn er jafnframt mikilvæg tenging við Grindavík og þaðan yfir á Suðurstrandarveg. Þar er um að ræða öxulás atvinnuuppbyggingar og tækifæra í ferðaþjónustu á Reykjanesi en ekki síst almannavarnainnvið fyrir íbúa Reykjaness. Vetrarþjónusta á þessari mikilvægu innviðatengingu er óásættanleg en vegurinn er takmarkað þjónustaður í 3 daga í viku, þrátt fyrir að á athafnasvæðinu sé starfsemi alla daga ársins, allan sólarhringinn.
Í ljósi þessa skorar atvinnu- og hafnarráð Reykjanesbæjar á Vegagerðina að koma Nesvegi strax í fulla vetrarþjónustu og að Vegagerðin tryggi að þessi mikilvæga samgöngutenging geti borið þá miklu umferð sem iðnaður, ferðaþjónusta og almannavarnarhlutverk krefst. Fyrirséð er að umferð um veginn mun halda áfram að stóraukast og þar af leiðandi mikilvægi hans á komandi misserum og er Vegagerðin hvött til að huga strax að frekari uppbyggingu þessa mikilvæga innviðar.
Atvinnu- og hafnarráð lýsir einnig vonbrigðum sínum með að óskum Reykjaneshafnar varðandi stuðning við hafnarframkvæmdir í framlagðri samgönguáætlun séu ekki í samræmi við fyrirhugaðan uppbyggingartíma. Þó ber að fagna að gert er ráð fyrir stuðningi í áætluninni við uppbyggingu í Helguvíkurhöfn og Njarðvíkurhöfn þó svo sá stuðningur sé áætlaður seinna en fyrirhuguð uppbygging. Mikil atvinnuuppbygging á sér nú stað á iðnaðarsvæðinu í Helguvík sem mun kalla á stóraukna starfsemi í Helguvíkurhöfn á næstu þremur árum. Til þess að geta þjónað þessari uppbyggingu þarf Reykjaneshöfn að lengja viðlegukant Norðurbakka Helguvíkurhafnar um 100 metra á þessu tímabili, að öðrum kosti takmarkast þjónustugeta hafnarinnar verulega sem hamlar fyrirhugaðri atvinnuuppbyggingu. Leggja þarf áherslu á að stuðningur við uppbyggingu Helguvíkurhafnar færist framar í framlagðri samgönguáætlun til að fyrirbyggja slíkt og skorar atvinnu- og hafnarráð Reykjanesbæjar á umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis að tryggja þá breytingu.“
Alexander Ragnarsson (D), Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B), Guðbergur Reynisson (D), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Helga María Finnbjörnsdóttir (Y), Margrét A. Sanders (D), Margrét Þórarinsdóttir (U), Sigurrós Antonsdóttir (S) og Sverrir Bergmann Magnússon (S).
Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Sverrir Bergmann Magnússon.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
7. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 11. desember 2025 (2025010005)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
8. Fundargerð menntaráðs 12. desember 2025 (2025010008)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:32.