711. fundur

20.01.2026 17:00

711. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn að Grænásbraut 910, 20. janúar 2026, kl. 17:00

 
Viðstaddir: Alexander Ragnarsson, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga María Finnbjörnsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon. Í forsæti var Guðný Birna Guðmundsdóttir.
 
Að auki sat fundinn Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
 

1. Fundargerðir bæjarráðs 8. og 15. janúar 2026 (2026010008)

 
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Alexander Ragnarsson og Sigurrós Antonsdóttir.
 
Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir (S) og lagði fram eftirfarandi bókun:
 
Þriðja mál frá fundargerð bæjarráðs frá 8. janúar 2026 - Rökstuðningur vegna ráðningar sviðsstjóra menningar- og þjónustusviðs (2025120383)
 
„Meirihluti bæjarstjórnar hafnar því að rökstuðningur vegna ráðningar sviðsstjóra menningar- og þjónustusviðs hafi verið ófullnægjandi og áréttar að ráðningarferlið var unnið af fagmennsku og í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Bæjarstjórn telur rétt að brýna að rökstuðningur tekur ekki til umfjöllunar aðra umsækjendur, þar sem upplýsingar um hæfni, mat og persónulega hagi þeirra falla undir persónuvernd og vandaða stjórnsýsluhætti. Með þeim hætti er gætt að trúnaði, mannorði umsækjenda og því að rökstuðningur sé málefnalegur og í samræmi við lög.
 
Við ákvörðun um ráðningu var byggt á fyrirfram skilgreindum og hlutlægum hæfniviðmiðum sem fram komu í auglýsingu um starfið. Í rökstuðningi var gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lágu til grundvallar ákvörðuninni og hvernig sá umsækjandi sem ráðinn var uppfyllti hæfniskröfur starfsins best.
 
Meirihluti bæjarstjórnar telur því að rökstuðningur hafi verið í samræmi við lög og að málið hafi verið unnið af fagmennsku, með gagnsæi og vandaða stjórnsýsluhætti að leiðarljósi.“
 
Guðný Birna Guðmundsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon Samfylkingu, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir Framsókn og Helga María Finnbjörnsdóttir Beinni leið.
 
Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:
 
Annað mál frá fundargerð bæjarráðs frá 15. janúar 2026 - Akademíureitur (2025010481)
 
„Sjálfstæðisflokkurinn og Umbót vilja ítreka áhyggjur sínar á áherslu meirihluta Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar um að draga úr umferð einkabíls. Í tillögu um Akademíureitinn sem nú liggur fyrir og hefur verið kynnt eru eftirfarandi breytingar:
 
1. Bílastæði fyrir framan Reykjaneshöll eru ekki lengur til staðar og sagt að þau verði við hliðina á höllinni, ekki er hægt að sjá hvort það gangi upp og ekki verið útfært
2. Veghluti Sunnubrautar á milli Reykjaneshallar og Fimleikahúss lokar, og verður tekinn undir byggingar
3. Áætlað er að þrengja veginn um Krossmóa til að draga úr umferð þar
4. Þrengja á Þjóðbraut milli Hafnargötu og Hringbrautar með trjágróðri
5. Hluti bílastæða sem nú eru við Landsbankann Krossmóa verða tekin í burtu
 
Með þessum áætlunum og án þess að tillaga er um lausnir um bílaumferð, teljum við að verið sé að bæta enn á þann samgönguvanda sem þegar er til staðar í sveitarfélaginu.
 
Þrátt fyrir að hugmyndir um Akademíureitinn séu um margt áhugaverðar teljum við mikilvægt að áður en lengra er haldið liggi fyrir heildstæð og raunhæf umferðarlausn sem tekur mið af þeirri umfangsmiklu uppbyggingu sem fyrirhuguð er á svæðinu, þar á meðal íbúða-, verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem og samgöngumiðstöð. Að öðrum kosti teljum við hættu á að áformin geti aukið á þann samgönguvanda sem þegar er til staðar í sveitarfélaginu.“
 
Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson Sjálfstæðisflokki, Margrét Þórarinsdóttir Umbót.
 
Fundargerðirnar samþykktar 11-0.
 
Fylgigögn:
 
 

2. Fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs 9. og 16. janúar 2026 (2026010016)

 
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 16. janúar til sérstakrar samþykktar:
 
Annað mál fundargerðarinnar Helguvíkurhöfn - breyting á aðal- og deiliskipulagi (2025120206) samþykkt 11-0 án umræðu.
Þriðja mál fundargerðarinnar Dalshverfi 2. áfangi - breyting á deiliskipulagi (2023080307) samþykkt 10-0. Margrét Þórarinsdóttir (U) situr hjá.
 
Fjórða mál fundargerðarinnar Hlíðarhverfi 3. áfangi – deiliskipulag (2019120007).
Til máls tók Guðbergur Reynisson (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:
 
„Við ítrekum bókun Guðbergs Reynissonar Sjálfstæðisflokki og Gunnars Rúnarssonar Umbót frá Umhverfis- og skipulagsráðs fundi 16. janúar og óskum eftir að fá að sjá sundurliðað yfirlit yfir viðskipti Reykjanesbæjar og Miðlands ehf. vegna Leikskólans Asparlautar.“
 
Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson Sjálfstæðisflokki, Margrét Þórarinsdóttir Umbót.
 
Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét A. Sanders og Guðbergur Reynisson.
 
Forseti gerir fundarhlé kl. 17:54
Fundur aftur settur kl. 18:01
 
Forseti gaf orðið laust.
Til máls tók Helga María Finnbjörnsdóttir (Y) og lagði fram eftirfarandi bókun:
 
„Meirihluti bæjarstjórnar hafnar því alfarið að verið sé að láta undan þrýstingi byggingaraðila. Við auglýsingu barst athugasemd frá HES um mögulega mengaðan jarðveg vestan svæðisins. Meirihlutinn samþykkti að senda málið áfram til Skipulagsstofnunar með skýrum fyrirvara: að engin byggingar- eða framkvæmdaleyfi verði veitt fyrr en fyrir liggur könnun á jarðvegi og viðbragðs- og aðgerðaáætlun ef þess gerist þörf. Þar að auki kemur skýrt fram í afgreiðslu málsins að ef til þess kemur að hreinsa þurfi landið þá sé það sveitarfélaginu að kostnaðarlausu. Fullyrðingar minnihlutans um að verið sé að leika sér að heilsu fólks og stefna henni í hættu vegna þrýstings eru ekki studdar neinum rökum.“
 
Guðný Birna Guðmundsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon Samfylkingu, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir Framsókn og Helga María Finnbjörnsdóttir Beinni leið.
 
Til máls tóku Guðbergur Reynisson og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fjórða mál fundargerðarinnar Hlíðarhverfi 3. áfangi – deiliskipulag (2019120007) samþykkt 7-0.

Níunda mál fundargerðarinnar Dalshverfi 3. áfangi - Álfadalur - breyting á deiliskipulagi (2025010343) samþykkt 11-0 án umræðu.
Tíunda mál fundargerðarinnar Lághitaholur við Vogshól og á Njarðvíkurheiði (2024040516) samþykkt 11-0 án umræðu.
Ellefta mál fundargerðarinnar Keflavíkurborgir – breyting á aðalskipulagi (2019060056) samþykkt 11-0 án umræðu.
Þrettánda mál fundargerðarinnar Hólagata 20 – LED skilti bensínstöð (2025090463) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fjórtánda mál fundargerðarinnar Selvík 9 – breytt lóðamörk (2026010232) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fimmtánda mál fundargerðarinnar Grófin og Bergið – deiliskipulagsbreyting (2021090502) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sextánda mál fundargerðarinnar Klapparstígur 5 (2025110012) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sautjánda mál fundargerðarinnar Hafnagata 27 – fyrirspurn (2025110014) samþykkt 11-0 án umræðu.
Átjánda mál fundargerðarinnar Njarðvíkurbraut 26 (2025120247) samþykkt 11-0 án umræðu.
 
Forseti gaf orðið laust.
 
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun:
 
Þriðja mál frá fundargerð umhverfis-og skipulagsráðs frá 16. janúar - Dalshverfi 2. áfangi - breyting á deiliskipulagi (2023080307)
 
„Umbót telur rétt að bregðast sérstaklega við mótbókun meirihluta Umhverfis- og skipulagsráðs vegna breytingar á deiliskipulagi Dalshverfis, 2. áfanga.
 
Umbót hafnar þeirri fullyrðingu, sem sett er fram í mótbókuninni, að hér sé um réttlætanlegt eða tímabært undantekningartilvik að ræða vegna aukinnar eftirspurnar eftir einbýlis- og parhúsalóðum í kjölfar jarðhræringa í Grindavík. Jarðhræringar og eldgos þar urðu fyrir um þremur árum og því stenst ekki að vísa nú, löngu síðar, til þeirra sem rökstuðnings fyrir því að ganga á græn og opin svæði.
 
Hefði raunverulegur vilji staðið til að bregðast við þeirri stöðu með markvissum hætti, með úthlutun einbýlis- og parhúsalóða, hefði slíkt átt að gerast strax í upphafi. Þá hefði jafnframt verið eðlilegt að slíkar lóðir hefðu fyrst og fremst verið úthlutaðar íbúum Grindavíkur. Sú leið var ekki farin og því er ekki hægt að nota þessar aðstæður nú sem rök.
 
Umbót lagði þá leið til á sínum tíma, en sú leið náði ekki fram að ganga. Í framhaldinu var farin önnur leið, sem felur í sér skerðingu grænna og opinna svæða, sem Umbót getur ekki tekið undir.
 
Umbót telur jafnframt ekki fullnægjandi rök að engar athugasemdir hafi borist við auglýst deiliskipulag. Skortur á athugasemdum jafngildir ekki samþykki fyrir skerðingu grænna og opinna svæða, né leysir það skipulagsyfirvöld undan ábyrgð sinni á að fylgja eigin yfirlýstum markmiðum um vernd slíkra svæða.
 
Græn svæði í skipulagi Reykjanesbæjar eru ekki tilfallandi né sett inn sem varasjóður sem ganga megi á þegar þrýstingur skapast á uppbyggingu. Þau eru meðvitaður hluti af heildarsýn um búsetugæði, lýðheilsu og sjálfbæra þróun. Með þessari ákvörðun er verið að veikja þá grundvallarhugmynd skipulags að tryggja jafnvægi milli byggðar og opinna svæða, sem Umbót telur ranga og í ósamræmi við markmið skipulags.“
 
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
 
Til máls tóku Helga María Finnbjörnsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
 
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram andsvar:
 
Þriðja mál frá fundargerð umhverfis-og skipulagsráðs frá 16. janúar - Dalshverfi 2. áfangi - breyting á deiliskipulagi (2023080307)
 
„Ég tel rétt að bregðast við þeim rökum sem bæjarfulltrúi Helga María Finnbjörnsdóttir fulltrúi Beinnar Leiðar í umhverfis- og skipulagsráði seti fram. Það er rétt að deiliskipulagið var auglýst, íbúafundur haldinn og að athugasemdir bárust. Það eitt og sér breytir þó ekki þeirri staðreynd að ábyrgð á vernd grænna og opinna svæða hvílir áfram á skipulagsyfirvöldum, óháð því hvernig kynningarferli gengur.
 
Að tekið hafi verið tillit til einstakra athugasemda jafngildir ekki sjálfkrafa samþykki fyrir því að ganga á græn svæði, né heldur að slík skerðing sé réttlætanleg til lengri tíma.
 
Þá er vísað til þess að breytingin auki gæði svæðisins og sé undantekning. Umbót deilir ekki þeirri niðurstöðu. Þegar farið er að skilgreina skerðingu á grænum svæðum sem undantekningu, skapast hættulegt fordæmi, sérstaklega þegar slíkar undantekningar eru ekki studdar af brýnum og tímabundnum aðstæðum.
 
Græn svæði eru ekki sett inn í skipulag sem varasjóður heldur sem meðvitaður hluti af heildarsýn um búsetugæði, lýðheilsu og sjálfbærni. Það er sú meginforsenda sem bókun Umbótar byggir á.“
 
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
 
Til máls tók Helga María Finnbjörnsdóttir
 
Margrét Þórarinsdóttir Umbót situr hjá við afgreiðslu í máli þrjú í fundargerð frá 16. janúar 2026 Dalshverfi 2. áfangi - breyting á deiliskipulagi (2023080307).
 
Fjórða mál fundargerðar frá 16. janúar 2026 Hlíðarhverfi 3. áfangi – deiliskipulag (2019120007) samþykkt með 7 atkvæðum meirihluta bæjarstjórnar, Guðnýjar Birnu Guðmundsdóttur, Sigurrósar Antonsdóttur og Sverris Bergmanns Magnússonar Samfylkingu, Bjarna Páls Tryggvasonar, Díönu Hilmarsdóttur og Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur Framsókn og Helgu Maríu Finnbjörnsdóttur Beinnar leiðar. Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson Sjálfstæðisflokki og Margrét Þórarinsdóttir Umbót sitja hjá.
 
Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.
 
Fylgigögn:
 
 

3. Fundargerð menntaráðs 9. janúar 2026 (2026010013)

 
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
 
Fundargerðin samþykkt 11-0.
 
Fylgigögn:
 
 

4. Fundargerð velferðarráðs 15. janúar 2026 (2026010017)

 
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sigurrós Antonsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Margrét Þórarinsdóttir.
 
Forseti gerir fundarhlé kl. 18:42.
Fundur aftur settur kl. 18:49
 
Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir (S) og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar:
 
Þriðja mál frá fundargerð velferðarráðs frá 15. janúar 2026 – Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd – áhrif uppsagnar samnings (2024100122)
 
„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tekur undir vonbrigði Velferðarráðs gagnvart vinnubrögðum Vinnumálastofnunar.
 
Reykjanesbær hefur í 21 ár sinnt þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, lengi vel aðeins eitt af þremur sveitarfélögum á Íslandi. Nýlega sleit Vinnumálastofnun samningum við Reykjanesbæ með þriggja mánaða fyrirvara og ætlar hér eftir að sjá um málaflokk umsækjenda sjálf.
 
Eftir stendur uppgjör verkefnisins; húsaleiga, viðgerðir og þrif eftir uppsögn á íbúðunum ásamt uppgjöri launa starfsfólks. Þetta er sanngirniskrafa, þar sem ráðningasamningar og leigusamningar eru með lengri uppsagnarfrest en þrjá mánuði. Um er að ræða í heildina tæpar 23 milljónir sem Vinnumálastofnun ætlast til að Reykjanesbær greiði sem eftirstöðvar af þjónustu í 21 ár með þriggja mánaða uppsagnarfrest.
 
Þessi vinnubrögð eru til háborinnar skammar. Bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar munu fara fram á fund með Vinnumálastofnun vegna málsins. Framkoma ríkisstofnunar gagnvart áratugalangri þjónustu Reykjanesbæjar er með ólíkindum, eru óásættanleg og hreinlega móðgandi.“
 
Guðný Birna Guðmundsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon Samfylkingu, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir Framsókn, Helga María Finnbjörnsdóttir Beinni leið, Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson Sjálfstæðisflokki og Margrét Þórarinsdóttir Umbót.
 
Fundargerðin samþykkt 11-0.
 
Fylgigögn:
 
 

5. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 15. janúar 2026 (2026010010)

 
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir, Alexander Ragnarsson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Margrét A. Sanders.
 
Fundargerðin samþykkt 11-0.
 
Fylgigögn:
 
 

6. Breyting á skipan fulltrúa í stjórn eignasjóðs (2024010091)

 
Guðmundur Björnsson fer út sem aðalmaður í stjórn Eignasjóðs, Friðjón Einarsson kemur inn sem aðalmaður.
 

7. Húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar 2026 – fyrri umræða (2025100081)

 
Forseti fylgdi Húsnæðisáætlun 2026 úr hlaði.
 
Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:
 
„Framtíðarhúsnæðisáætlun Reykjanesbæjar 2026–2035 er hér til fyrri umræðu. Hún sýnir svart á hvítu að meirihluti Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar hefur engan hug á því að hlusta á íbúa bæjarins, og heldur áfram á sömu einstrengingslegu braut og hingað til.
 
Meirihlutinn boðar enn einhæfa uppbyggingu, þar sem 86% allrar uppbyggingar næstu tíu ára er fjölbýli, eða um 2.700 íbúðir. Á sama tíma eru einungis um 450 íbúðir í sérbýli, þ.e. einbýli, parhús, raðhús og tvíbýli, áætlaðar fyrir bæ með rúmlega 22.500 íbúa. Þetta er ekki húsnæðisstefna, þetta eru pólitískar kreddur sem þjóna ekki fjölbreyttum þörfum fólksins sem hér býr.
 
Samanburður við sams konar sveitarfélög undirstrikar þetta:
 
• Árborg, með helmingi færri íbúa, áætlar rúmlega 1.000 sérbýli.
• Ölfus, með aðeins 2.800 íbúa, áætlar um 650 sérbýli.
 
Meirihlutinn í Reykjanesbæ velur hins vegar að þrengja valmöguleika íbúa og keyra áfram nálgun sem er mótuð ofan frá og niður (e. top-down), án þess að taka mið af raunverulegum þörfum þeirra sem hér búa.
 
Niðurstöður könnunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ríkisins frá því í desember 2025 segja sína sögu:
 
• 42% íbúa kjósa sérbýli (einbýli, par-, raðhús),
• 22% kjósa tví-, þrí- eða fjórbýli,
• Aðeins 34% vilja búa í fjölbýli.
 
Þrátt fyrir þessar óyggjandi staðreyndir kýs meirihlutinn að hunsa vilja íbúa og halda sig við stefnu sem gengur þvert á óskir og þarfir bæjarbúa.
 
Í fundargerð Umhverfis- og skipulagsráðs sem nú liggur fyrir viðurkennir meirihlutinn þetta sjálfur, en þar segir: „Eftirspurn eftir einbýlis- og parhúsalóðum í Reykjanesbæ hefur aukist á undanförnum árum…“
 
Ef eftirspurn eftir sérbýli er þetta mikil; hvers vegna eru þá 86% framtíðaráætlunar meirihlutans fjölbýli?
 
Svarið er því miður einfalt: Þetta er pólitísk þvermóðska, ekki þjónusta við íbúa.
 
Reykjanesbær á að þróast á forsendum fólksins sem hér býr — ekki á kreddum meirihlutans. Það er löngu tímabært að meirihlutinn hætti að tala við sjálfan sig og fari að hlusta á vilja íbúanna. Er það virkilega til of mikils mælst?
 
Sjálfstæðisflokkur og Umbót leggjast gegn húsnæðisáætlun meirihlutans og greiða atkvæði á móti.“
 
Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson Sjálfstæðisflokki og Margrét Þórarinsdóttir Umbót.
 
Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét A. Sanders og Helga María Finnbjörnsdóttir.
 
Húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar 2026 vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn 3. febrúar 2026.
 
 
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:55.