277. fundur

25.01.2021 08:15

277. fundur barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar var haldinn að Skólavegi 1 þann 25. janúar 2021 kl. 08:15

Viðstaddir: Halldór Rósmundur Guðjónsson, Þuríður Berglind Ægisdóttir, Díana Hilmarsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir, Davíð Brár Unnarsson, María Gunnarsdóttir forstöðumaður, Sandra Jónsdóttir félagsráðgjafi, Katrín Pétursdóttir ráðgjafi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. 4 trúnaðarmál á dagskrá.

2. Umhverfis- og loftslagsstefna Reykjanesbæjar - beiðni um umsögn (2020021391)

Drög að umhverfis- og loftslagsstefnu Reykjanesbæjar lögð fram. Framtíðarnefnd og umhverfis- og skipulagsráð óska eftir umsögn um stefnuna.

Barnaverndarnefnd lýsir yfir ánægju með umhverfis- og loftslagsstefnuna en telur mikilvægt að Reykjanesbær verði leiðandi í flokkun sorps m.a. með því að samræma sorpflokkun hjá stofnunum sveitarfélagsins. Einnig leggur nefndin til að í kaflanum um mengun, hljóðvist og loftgæði verði bætt við í mælanlegum undirmarkmiðum að dregið verði markvisst úr hljóðmengun vegna flugumferðar yfir byggð og gerðar verði stöðugar hljóðmælingar á nokkrum stöðum í bænum.

3. Menningarstefna Reykjanesbæjar – beiðni um umsögn (2019051729)

Drög að menningarstefnu Reykjanesbæjar 2020-2025 lögð fram. Menningar- og atvinnuráð óskar eftir umsögn um stefnuna.

Barnaverndarnefnd telur að vel sé staðið að menningarmálum í sveitarfélaginu og að menningarstefnan endurspegli það. Mikilvægt er að áfram verði hugað að menningarstarfi fyrir börn.

4. Mælaborð barnaverndar og tölulegar upplýsingar (2020040310)

María Gunnarsdóttir forstöðumaður barnaverndar lagði fram mælaborð og tölulegar upplýsingar.

Barnaverndartilkynningar til barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar

Í desember 2020 bárust 42 tilkynningar vegna 37 barna og vegna einnar ófrískrar konu. Fjöldi nýrra mála í könnun voru 26 mál en á sama tíma í fyrra voru tilkynningarnar 46 vegna 42 barna og fjöldi nýrra mála í könnun voru 15. Í lok desember 2020 var heildarfjöldi barnaverndarmála 422 en 374 mál á sama tíma í fyrra.

Í desember 2020 bárust flestar tilkynningar frá lögreglu, heilbrigðisstofnun, skóla og foreldrum.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:30. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 2. febrúar 2021.