105. fundur

06.12.2016 00:00

105. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar 6. desember 2016  var haldinn að Tjarnargötu 12 kl. 16:30.

Viðstaddir: Jón Haukur Hafsteinsson, Lovísa N. Hafsteinsdóttir formaður, Rúnar V. Arnarson, Steinunn Una Sigurðardóttir, Alexander Ragnarsson, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs og Hafþór Barði Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi sem jafnframt ritaði fundargerð. Jón Haukur Hafsteinsson vék af fundi undir lið 2.
Gestir fundarins voru: Sævar Leifsson vallarstjóri knattspyrnuvallarins hjá Keflavík og Leifur Gunnlaugsson vallarstjóri hjá Njarðvík.

1. Verkáætlun vegna grasvalla Keflavíkur og Njarðvíkur 2016 (2016040181)
Sævar Leifsson vallarstjóri knattspyrnusvæða Keflavíkur og Leifur Gunnlaugsson vallarstjóri knattspyrnusvæða Njarðvíkur mættu á fundinn og fylgdu úr hlaði skýrslum sem gerir grein fyrir hvernig vinnu var háttað við svæðin á árinu sem er að líða.
Vallarstjórarnir eru sammála um að vellirnir hafi verið í góðu standi í sumar þrátt fyrir að Nettóvöllurinn hafi tekið seint við sér. Vegna mikils álags seinni hluta september 2015, bæði vegna landsliðsverkefna, meistaraflokks karla og úrslitaleikja yngri flokka. EM hléið var notað til sanda og sá í völlinn með frábærum árangri og komst völlurinn toppstand.
Íþrótta- og tómstundaráð þakkar vallarstjórunum fyrir greinargóðar skýrslur og fyrir vel unnin störf á árinu.

2. Umsókn í forvarnarsjóð Reykjanesbæjar (2015120240)
Háaleitisskóli sækir um í forvarnarsjóð Reykjanesbæjar vegna fyrirhugaðrar fræðslu frá forsvarskonunum í Hugarfrelsi um kvíða og vanlíðan nemenda.
Jón Haukur Hafsteinsson vék af fundi undir þessum lið.
Samþykkt að styrkja erindið. Íþrótta- og tómstundafulltrúa falið að ganga frá málinu.

3. Samningur um umhirðu á púttvellinum við Mánaflöt 2016 (2016020320)
Skýrsla vallarstjóra Golfklúbbs Suðurnesja móttekin.
ÍT ráðið vill þakka starfsfólki Golfklúbbs Suðurnesja fyrir vandaða vinnu nú sem endranær. Völlurinn var í frábæru ástandi síðastliðið sumar og hýsti m.a. Íslandsmót eldri borgara í pútti sem hrósuðu vellinum afar mikið.

4. Staða sjóða íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar 2016 (2016120002)
Rekstur sjóða ÍT eru í jafnvægi og ráðið er afar stolt af því að geta styrkt margvísleg verkefni tengd íþróttum, tómstundum og forvörnum.
Ráðið styrkir meðal annars Íþróttabandalag Reykjanesbæjar með svonefndum þjálfarastyrkjum sem er með það að aðalmarkmiði að stuðla að því að börn og ungmenni njóti leiðsagnar menntaðra þjálfara. Að auki heldur ráðið utan um hvatagreiðslur sem léttir undir fjárhagslega með foreldrum barna á grunnskólaaldri sem taka þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Um það bil 1.000 fjölskyldur hafa nýtt sér hvatagreiðslurnar árið 2016. Stefnt er að því að hækka hvatagreiðslurnar úr 15.000 kr. í 21.000 kr. á næsta fjárhagsári.

5. Stefnumótun Íþróttabandalags Reykjanesbæjar (2016120004)
Íþrótta- og tómstundaráð óskar eftir því að Íþróttabandalag Reykjanesbæjar kalli eftir hjá sínum
aðildarfélögum hver séu brýnustu verkefnin í náinni framtíð og hver forgangsröðin sé hjá ÍRB sem og
að aðildarfélög bandalagsins hugi að stefnumótun í starfi sínu. Fulltrúum ÍRB gefst svo kostur á nýju
ári að fylgja eftir stefnu bandalagsins í málaflokknum.

6. Önnur mál
a) Tillaga að gjaldskrárhækkun í sundlaugar Reykjanesbæjar.
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar leggur til að stakt gjald fullorðinna verði hækkað úr 700
kr. í 800 kr. frá og með 1. janúar 2017.Gjaldið verður óbreytt fyrir börn í laugarnar þ.e. 150 kr.
Áfram verður hagstæðast að kaupa 30 miða kort sem mun kosta 9.235 sem gerir 307 krónur fyrir sundferðina. Árskortið mun hækka um 3% og fara úr 25.570 kr. í 26.525 kr.

b) Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar er afar stolt af verkefnum undanfarinna mánaða en ráðið hefur nýverið bætt aðstöðu Skotdeildar Keflavíkur, stækkað rými í aðstöðu bardagaíþrótta við Iðavelli, endurnýjað samkomulag við Landsbankann um afnot af gömlu sundhöllinni fyrir hnefaleikafélagið, skipt út gúmmíkurli við Akurskóla og tekið í notkun nýja inniaðstöðu fyrir Golfklúbb Suðurnesja og Púttklúbb Suðurnesja svo eitthvað sé nefnt.
Þó er ljóst að verk er að vinna á nýju ári og mun ráðið takast á við þau í samvinnu við hagsmunaaðila og það fjármagn sem ráðinu er úthlutað samkvæmt fjárhagsáætlun hverju sinni.

c) Ráðið minnir á kjörið um íþróttamenn ársins í Reykjanesbæ. Þar verður kunngjört um val á íþróttakonu og íþróttakarli Reykjanesbæjar.
Kjörið fer fram að venju í íþróttahúsinu í Njarðvík á gamlársdag kl. 13.00. Á sama tíma verða iðkendur sem urðu Íslandsmeistarar á árinu heiðraðir. Bæjarbúar eru boðnir hjartanlega velkomnir á þessa hátíðlegu stund á síðasta degi ársins.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 20. desember 2016.