111. fundur

06.06.2017 00:00

111. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar var haldinn 6. júní 2017  að Tjarnargötu 12 kl. 16:30.

Viðstaddir: Jón Haukur Hafsteinsson, Lovísa N. Hafsteinsdóttir formaður, Rúnar V. Arnarson, Steinunn Una Sigurðardóttir, Alexander Ragnarsson og Hafþór Barði Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi sem jafnframt ritaði fundargerð. Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs boðaði forföll.

Gestir fundarins voru: Einar Haraldsson formaður Keflavíkur, Erna Ósk Steinarsdóttir varaformaður og Halldóra Guðmundsdóttir formaður Fimleikadeildar Keflavíkur.

1. Erindi Fimleikadeildar Keflavíkur (2017050323)
Fulltrúar frá Fimleikadeild Keflavíkur komu á fundinn og kynntu óskir deildarinnar um kaup á búnaði sem deildin þarfnast.
ÍT ráð þakkar gestunum fyrir góða kynningu en getur ekki orðið við beiðninni. Erindinu vísað til fjárhagsáætlunar ÍT ráðsins í haust.

2. Samkomulag Vinnuskólans vegna afreksmanna í körfuknattleik sumarið 2017 (2017060005)
Samkomulag Vinnuskólans vegna afreksmanna í körfuknattleik sumarið 2017 lagt fram til kynningar.

3. Hagir og líðan nemenda í 5. – 7. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar (2017010120)
Niðurstöður könnunarinnar lagðar fram. Íþrótta- og tómstundafulltrúi skýrði frá að búið væri að kynna niðurstöðurnar fyrir Samtakahópnum sem er þverfaglegur aðgerðarhópur í forvarnarmálum hjá Reykjanesbæ. Að auki voru niðurstöðurnar sendar skólastjórum og þeir beðnir um að kynna rannsóknina fyrir sínu starfsfólki og að senda hana á foreldra. Stefnt er að kynningu fyrir foreldra, fagfólk og stjórnmálafólk í haust.

4. Hvatagreiðslur – drög að reglugerðarbreytingu (2017010120)
Ábendingar hafa borist ráðinu um að reglugerð um Hvatagreiðslur séu of strangar þannig að foreldrar geti ekki nýtt sér þær fyrir sumarnámskeiðin sem eru í boði í Reykjanesbæ. Ráðið samþykkir að fellt verði úr gildi tímalengd yfir námskeið sem haldin eru.

Önnur mál
a) Vefurinn sumar í Reykjanesbæ fór í loftið fyrir skemmstu. ÍT ráð hvetur bæjarbúa til að kynna sér það fjölbreytta framboð sem boðið er upp á fyrir börn og unglinga í sumar. Vefurinn er á slóðinni sumar.rnb.is
b) ÍT ráð óskar 10. flokki stúlkna hjá UMFN í körfu til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn sem þær unnu fyrir stuttu síðan.
c) ÍT ráð óskar Kötlu Ketilsdóttur til hamingju með Íslandsmetin sem hún setti í Ólympískum lyftingum í Tælandi fyrir skemmstu.
d) Vinabæjarmót í golfi verður haldið í Reykjanesbæ dagana 26. – 30. júní nk. Íþrótta- og tómstundafulltrúi skýrði frá undirbúningi og kynnti dagskrá sem að ungmennin munu taka þátt í á meðan á dvöl þeirra stendur.

Fleira ekki gert og fundi slitið. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 20. júní 2017.