120. fundur

13.05.2018 00:00

120. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar var haldinn  að Sunnubraut 31 þann 11. maí 2018 kl. 16:30.

Viðstaddir: Jón Haukur Hafsteinsson, Lovísa N. Hafsteinsdóttir formaður, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Alexander Ragnarsson, Guðbergur Reynisson, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs og Hafþór Barði Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi sem jafnframt ritaði fundargerð.

1. Vígsla á sal undir landæfingar fyrir sundráð ÍRB (2016060064)
Íþrótta- og tómstundaráð óskar sundráði ÍRB til hamingju með nýja aðstöðu sem mun nýtast vel fyrir sundmenn deildarinnar í margskonar styrktarþjálfun. ÍT ráð þakkar starfsmönnum umhverfis- og skipulagssviðs kærlega fyrir samvinnuna.

2. Bréf til formanna UMFN og Keflavíkur (2018050076)
Íþrótta- og tómstundafulltrúi gerði grein fyrir bréfi til formanna UMFN og Keflavíkur þar sem óskað er eftir að undirdeildir félaganna beri alltaf undir formenn félaganna áður en send eru erindi til bæjaryfirvalda.

3. Beiðni um endurnýjun á búnaði fimleikadeildar (2018050038)
Fulltrúar fimleikadeildarinnar komu á fund ráðsins í júní 2017 og óskuðu eftir fjárstuðningi til kaupa á fimleikagólfi og endurnýjunar búnaðar. ÍT ráð gat ekki orðið við erindinu en vísaði því til fjárhagsáætlunar.
ÍT ráð samþykkir að veita styrk til nauðsynlegra kaupa á búnaði og er íþrótta- og tómstundafulltrúa falið að vinna að málinu í samráði við formann fimleikadeildarinnar og innkaupastjóra Reykjanesbæjar.

4. Umsóknir í forvarnarsjóð (2018010081)
a) Umsókn Tjarnarsels í forvarnarsjóð. Í kjölfar þess að stýrihópur fyllti út gátlista varðandi heilsueflingu kom m.a. í ljós að auka þurfi aðgengi að vatni fyrir börnin á leikskólanum. Áætlað er að kaupa vatnsfont sem kostar 120.000 kr. Foreldrafélag skólans styrkir kaupin um 40.000 kr. og óska stjórnendur skólans eftir 40.000 kr. styrk úr forvarnarsjóði til að láta drauminn verða að veruleika.
ÍT ráð getur ekki orðið við erindinu.
b) Umsókn Garðasels í forvarnarsjóð. Á Garðaseli er lögð áhersla á snemmtæka íhlutun í hreyfingu leikskólabarna. Þess vegna er notast við aðferðina leikur að læra og erum við formlega orðin LAL-skóli. Við vinnum í samstarfi við höfund aðferðarinnar og greiðum árgjald upp á 150.000 kr. Við sækjum þ.a.l. um 300.000 kr. fyrir árin 2018 og 2019.
Erindinu frestað. ÍT ráð óskar eftir nánari upplýsingum um styrkbeiðnina.

5. Erindi körfuknattleiksdeilda KKD og UMFN (2018050090)
Beiðni um fjárstuðning við körfuknattleiksdeildir KKD og UMFN.
Erindinu frestað. ÍT fulltrúa falið að boða forsvarsmenn körfuknattleiksdeilda KKD og UMFN ásamt formönnum aðalstjórna UMFN og Keflavíkur ungmennafélags til fundar við ráðið eins skjótt og auðið er.

Önnur mál
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar óskar Heiðarskóla innilega til hamingju með sigurinn í skólahreysti 2018.
Íþrótta- og tómstundaráð óskar körfuknattleiksdeild Keflavíkur til hamingju með þrjá Íslandsmeistaratitla sem hafa unnist að undanförnu í yngri flokkum kvenna.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl 18.00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 15. maí 2018.