91. fundur

02.06.2015 00:00

91. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar haldinn 2. júní 2015 að Tjarnargötu 12, kl: 16:30

Mættir :  Lovísa Hafsteinsdóttir formaður, Alexander Ragnarsson aðalmaður, Jón Haukur Hafsteinsson aðalmaður, Rúnar Arnarson aðalmaður, Guðbergur Reynisson varamaður, Bjarney Snævarsdóttir fulltrúi ÍRB, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs og Ragnar Örn Pétursson íþróttafulltrúi sem ritar fundargerð.

ÍT ráð óskar Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur til hamingju með Evrópumeistaratitilinn í crossfit.

1. Vinabæjamót í Kristiansand 22. júní 2015 (2015060063)
Vinabæjamótið verður að þessu sinni haldið í Kristiansand í Noregi 22. júní n.k. og keppt verður í sundi.  Aldursflokkameistaramót Íslands í sundi fer fram á Akureyri í sömu viku. Sundfólk Reykjanesbæjar  hefur verið afar sigursælt á því móti undanfarin ár.  AMÍ á Akureyri stendur yfir í fjóra daga og ekki var hægt að færa vinabæjamótið til vegna þess. Sundráð ÍRB getur því ekki sent keppendur til Noregs. Tveir fulltrúar frá Reykjanesbæ munu taka þátt í vinabæjamótinu, en Reykjanesbær er gestgjafi á næsta ári.

2. Erindi frá Keflavík, íþrótta-og ungmennafélag  (2015060064)
Aðalstjórn Keflavíkur tilkynnir að félagið muni ekki standa fyrir íþrótta- og leikjanámskeiði í sumar og er aðalástæðan sú að auglýst var eftir leiðbeinendum en enginn sótti um, auk þess sem Reykjanesbær hefur fellt niður þann styrk sem fylgt hefur slíku námskeiðahaldi.
Erindið móttekið.

3. Erindi frá foreldrafélagi Myllubakkaskóla um styrk úr Forvarnarsjóði (2015060066)
Félagið sækir um styrk til að standa fyrir fyrirlestri frá Guðrúnu Dóru geðlækni um kannabisefni. Guðrún Dóra hefur sérhæft sig í ávana-og fíkn og starfar á geðdeild. Fyrirlesturinn er fyrir nemendur í 9. og 10. bekk.
ÍT ráð samþykkir styrk að upphæð 20.000 krónur úr Forvarnarsjóði.

4. Erindi frá Félagi eldri borgara um styrk úr Tómstundasjóði  (2015060067)
Félag eldri borgara óskar eftir styrk vegna þátttöku í Landsmóti 50+ sem haldið verður á Blönduósi í sumar.
ÍT ráð samþykkir styrk að upphæð 40.000 krónur úr Tómstundasjóði.

Fleira ekki gert og fundi slitið.
__________

Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. júní 2015.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina 11-0.