12. fundur

21.10.2020 14:00

Fundargerð 12. fundur lýðheilsuráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn21. október 2020, kl. 14:00

Viðstaddir: Jóhann Friðrik Friðriksson formaður, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Guðrún Ösp Theodórsdóttir, Guðrún Pálsdóttir, Kristín Gyða Njálsdóttir, Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufræðingur og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.

1. Lýðheilsustefna (2019100079)

Guðrún Magnúsdóttir fór yfir framkvæmdaáætlun fyrir árið 2021. Áhersla verður á geðheilbrigði íbúa.
Lýðheilsustefnan fer til fyrri umræðu bæjarstjórnar 3. nóvember nk.

2. Lýðheilsuvísar (2019060174)

Barátta lýðheilsuráðs hefur skilað árangri og vill ráðið fagna átaki Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í tengslum við skimun fyrir krabbameini hjá konum og leggur áherslu á að aðgengi að slíkri þjónustu sé til staðar.

3. Heilsueflandi samfélag – Göngustígar (2019110318)

Lýðheilsuráð fagnar endurbótum á göngustígum í bænum í sumar og haust. Stígarnir eru vel nýttir.

4. Heilsu- og forvarnarvikan (2020080544)

Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufræðingur fór yfir Heilsu- og forvarnavikuna sem var í byrjun október. Dagskrá vikunnar var umfangsminni í ár vegna Covid 19. Lýðheilsuráð óskar eftir greinagerð frá íþrótta- og tómstundafulltrúa um hvernig heilsu- og forvarnarvikan gekk í ár með það að markmiði að efla viðburðinn að ári.

5. Lýðheilsa og geðheilsa ungmenna í Reykjanesbæ á tímum COVID 19 (2020030167)

Ljóst er að COVID 19 hefur veruleg áhrif á geðheilsu allra íbúa. Mikilvægt er að nýta öll tækifæri sem gefast til samveru fjölskyldunnar þar sem fjöldatakmarkanir eru í gildi. Skorður eru settar á félagsstarf í ljósi aðstæðna og því mikilvægt að hvetja til útiveru eftir fremsta megni. Frítt er í sund fyrir börn 18 ára og yngri og er lýðheilsufulltrúa falið að móta markaðsefni sem miðað er að þeim markhópi sérstaklega og eiga samstarf við Súluna um leiðir til miðlunar.
Lýðheilsuráð óskar eftir því að gerð verði könnun á þátttöku barna í íþrótta -og tómstundastarfi í grunnskólum með það að markmiði að greina stöðuna á tímum COVID 19.

6. Lýðheilsusjóður (2019100080)

Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufræðingur kynnti tvær umsóknir sem sótt var um í Lýðheilsusjóð. Annars vegar var um að ræða styrk vegna verkefnis varðandi smáforrit (App) vegna heilsustíga í Reykjanesbæ. Verkefnið er unnið í samstarfi við Keili og hin sveitarfélögin á Suðurnesjum. Hins vegar er um að ræða umsókn vegna verkefnis varðandi valdeflingu fyrir foreldra sem eru utan vinnumarkaðar. Unnið í samstarfi við „Allir með“ verkefnið.

7. Samráðshópur heilsueflandi samfélaga á Suðurnesjum (2019110318)

Hópurinn er með ýmis verkefni í undirbúningi, sum verkefni komin langt en önnur styttra. Á næsta ári verður áherslan á að hlúa að geðheilbrigði.
Guðrúnu Magnúsdóttur lýðheilsufræðing falið að leita upplýsinga um hvernig staðan er á tengingum á göngustígum á milli sveitarfélaganna.

8. Barnavernd (2020100217)

Reykjanesbær er aðili að verkefninu Barnvænt samfélag og því verður aukin áhersla lögð á málaflokkinn á næstu misserum. Lýðheilsuráð lýsir yfir áhyggjum af þróun tilkynninga til barnaverndar og vegna heimilisofbeldis í Reykjanesbæ. Mikilvægt er að umbótarvinna og aukin stuðningur við málaflokkinn verði til þess að hægt sé að bregðast við auknu álagi. Lýðheilsuráð felur lýðheilsufulltrúa að taka saman efni um 1. og 2. stigs forvarnir sem nýta má til þess að bregðast við með fyrirbyggjandi aðgerðum. Má þar m.a. nefna netspjall 112, hjálparsíma Rauða krossins 1717, efni frá Barnaverndastofu og lögreglu. Einnig að koma með tillögu um miðlun þess efnis til íbúa auk efnis sem þegar er til staðar.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:55. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 3. nóvember 2020.