15. fundur

15.01.2021 13:00

15. fundur lýðheilsuráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 15. janúar 2021, kl. 13:00

Viðstaddir: Jóhann Friðrik Friðriksson formaður, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Guðrún Ösp Theodórsdóttir, Guðrún Pálsdóttir, Kristín Gyða Njálsdóttir og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.

1. Geðrækt í Reykjanesbæ 2021 (2021010267)

Lýðheilsuráð felur lýðheilsufulltrúa að móta verkefni er snýr að eflingu geðheilsu eldri borgara í Reykjanesbæ með þátttöku allra helstu hagsmunaaðila bæjarfélagsins. Markmiðið er að bæta geðheilsu, draga úr félagslegri einangrun og efla samstarf.
Dæmi um samstarfsaðila væru félag eldri borgara á Suðurnesjum, kirkjurnar, félagsþjónustan, félagsstarf á Nesvöllum, íþrótta- og tómstundafulltrúi, Rauði krossinn, Öldungaráð Reykjanesbæjar og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Verkefnið fellur undir aðgerðaráætlun í lýðheilsumálum 2021.

2. Lýðheilsustefna Reykjanesbæjar (2019100079)

Lýðheilsustefnan var samþykkt í bæjarstjórn 15. desember 2020.
Lýðheilsuráð leggur áherslu á að fram fari góð kynning á lýðheilsustefnunni og hún sett upp á lifandi hátt. Lýðheilsuráð hefur ákveðið að kynna stefnuna með kynningarmyndbandi sem dreift verður á samfélagsmiðla og fjölmiðla þannig að bæjarbúar séu meðvitaðir um stefnuna og markmið hennar.

3. Loftgæði (2021010268)

Tillaga frá Guðrúnu Pálsdóttir (Á):
„Þegar spænska veikin gekk fyrir 100 árum höfðu menn ekki skilning á því hvernig smit dreifðust. Í dag höfum við hins vegar þekkingu á því. Farartæki veirusmita og raunar flestra bakteríusmita eru þrjú. Úðasmit, snertismit og dropasmit. Ég held að við þekkjum öll hvað við getum gert til að draga úr líkum á smiti eftir síðustu mánuði. Í þeim Covid bylgjum sem gengið hafa yfir hafa komið upp hópsmit á þremur leikskólum í Reykjanesbæ. Þessir þrír leikskólar eiga það sameiginlegt að vera eldri hús, börn síns tíma bæði hvað varðar skipulag, starfsmannaaðstöðu og loftræstingu. Talið er að góð loftskipti og loftgæði dragi úr því að úðasmit berist á milli manna. Góð loftskipti draga úr þéttni veirunnar í rými og minnka þannig smithættu. Lítil, illa loftræst rými bjóða því upp á aðstæður sem veirum líkar vel til smitunar. Til að takmarka útbreiðslu Covid hafa verið settar reglur um sóttvarnarhólf.
Í reglugerð heilbrigðisráðherra segir: Enginn samgangur er heimilaður á milli rýma. Hvert skilgreint rými þarf helst að hafa eigin inngang og útgang. Hægt er að nota sama inn- og útgang ef aðilar í hverju rými fara inn og út á aðskilinn hátt (á mismunandi tímum) þannig að engin blöndun sé á milli hópa. Lofta ætti út á milli hópa ef hægt er og þrífa snertifleti ef kostur. Salerni þurfa að vera aðskilin fyrir hvert rými. Ekki má samnýta salerni milli rýma á neinn hátt.
Spurningar:
Bjóða þessir leikskólar upp á hólfaskiptingar og eru rými loftræst með fullnægjandi hætti?“

Lýðheilsuráð felur lýðheilsufulltrúa að óska eftir samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið varðandi tillöguna og leita svara við þeim spurningum sem fram koma.

4. Starfsmannaaðstaða í leikskólum í Reykjanesbæ (2021010269)

Lýðheilsuráð ræddi loftgæði í stofnunum á vegum Reykjanesbæjar og mikilvægi þess í tengslum við framkomna tillögu í máli 3.

5. Forvarnir í Reykjanesbæ (2021010270)

Tillaga frá Önnu Sigríði Jóhannesdóttur (D):
„Samkvæmt niðurstöðum úr könnun (Ungt fólk) frá Rannsóknum og greiningu sem gerð var í 8-10.bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar kom fram að óvenju hátt hlutfall nemenda hafa prófað eða nota nikótín púða. Með því að smella hér opnast niðurstöður rannsóknar.
 Púðarnir eru bannaðir börnum undir 18 ára aldri og varað er við notkun þeirra þar sem púðarnir geta verið banvænir. Of stór skammtur getur verið banvænn.
Með því að smella hér opnast frétt rúv.is.
Ég legg til að tekið verði saman forvarnarefni um skaðsemi nikótínpúða og sent til allra skóla og foreldra barna á unglingastigi í Reykjanesbæ.“
Lýðheilsuráð tekur undir tillöguna og felur lýðheilsufulltrúa að móta verkefnið. Þar til löggjöf verður breytt og aðgengi takmarkað hvetur lýðheilsuráð söluaðila til þess að takmarka sýnileika nikótínpúða eftir fremsta megni.

6. Menningarstefna Reykjanesbæjar - beiðni um umsögn (2019051729)

Lýðheilsuráð fagnar fram kominni Menningarstefnu Reykjanesbæjar og vill minna á að öflug menning er stór þáttur í góðri lýðheilsu bæjarbúa.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14.15. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 19. janúar 2021.