36. fundur

21.03.2023 14:00

36. fundur lýðheilsuráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 21. mars 2023 kl. 14:00

Viðstaddir: Bjarney Rut Jensdóttir formaður, Anna Lydía Helgadóttir, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, Karítas Lára Rafnkelsdóttir og Magnús Einþór Áskelsson.
Að auki sátu fundinn Hafþór Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi, Íris Andrea Guðmundsdóttir og Jakob Snævar Ólafsson ritarar.

1. Kynning á sálfélagslegri þjónustu HSS (2023030314)

Guðfinna Eðvarðsdóttir og Ragnhildur Magnúsdóttir frá HSS mættu á fundinn og kynntu starfsemi og áherslur Forvarnar- og meðferðarteymi barna (FMTB). Lögð er áhersla á eflingu sálfélagslegrar þjónustu á heilsugæslustöðvum í aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum. Rætt var um úrræði og hverjir geta vísað til FMTB.

Lýðheilsuráð þakkar fyrir góða kynningu.

2. Lýðheilsumál starfsmanna Reykjanesbæjar (2023030309)

Kristinn Óskarsson mannauðsstjóri Reykjanesbæjar mætti á fundinn og fór yfir lýðheilsumál starfsmanna Reykjanesbæjar.

Lýðheilsuráð þakkar fyrir góða kynningu.

3. Frítt í sund í Vatnaveröld 30. mars og viðburður í tilefni Mottumars 2023 (2023020371)

Frítt verður í sund í Vatnaveröld 30. mars nk. í tilefni af Mottumars. Sund er holl hreyfing, styrkjandi fyrir líkama og sál og fyrirbyggjandi gegn margvíslegum kvillum.

Fylgigögn: 

Mottumars - auglýsing
Mottumars - tilkynning
Frítt í sund - auglýsing
Viðburður lýðheilsuráðs

4. Umsögn lýðheilsuráðs vegna þingsályktunartillögu (2023020682)

Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar fagnar tillögu til þingsályktunar um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf. Mat lýðheilsuráðsins er að þetta sé mikilvægt skref í þeirri vegferð sem samfélagið á fyrir höndum á næstu áratugum. Það hefur sýnt sig síðustu áratugi að lífslíkur fólks hafa aukist og samhliða því hafa langvinnir sjúkdómar einnig aukist.
Með því að hafa lýðheilsumat til hliðsjónar við setningu laga í sínum víðasta skilningi er auðveldara að koma í veg fyrir þessa þróun. Lýðheilsumál eru mikilvæg og tillagan á þátt í því að gera þau sýnileg í íslensku samfélagi. Reykjanesbær hefur unnið markvisst að því síðustu ár að efla lýðheilsu í bæjarfélaginu með því að efla og viðhalda heilsu og vellíðan íbúa á öllum aldursskeiðum.

Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar.

5. Fundargerð Samtakahópsins 16. mars 2023 (2023010161)

Fundargerð Samtakahópsins lögð fram.

Lýðheilsuráð vekur sérstaka athygli á SOS fræðslunni sem Fjörheimar eru að fara af stað með um samskipti, orkudrykki og samfélagsmiðla og verkefnið forvarnardagur ungra ökumanna sem fagnar 20 ára afmæli á næsta ári. Lýðheilsuráð hvetur bæjarbúa til að mæta á fræðslukvöld fyrir foreldra og aðra áhugasama um sámfélagsmiðla mánudaginn 27. mars kl. 19.30 – 20.30 sem haldinn verður í Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ.

Fylgigögn: 

Fundargerð Samtakahópsins 16. mars 2023
Evrópuvika gegn rasisma - upplýsingar
SOS - fræðslukvöld fyrir foreldra

6. Stopp einelti - umsókn í forvarnarsjóð Reykjanesbæjar (2023010046)

Umsókn Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum í forvarnarsjóð Reykjanesbæjar vegna verkefnisins Stopp einelti.

Lýðheilsuráð fagnar þessu verðuga verkefni og samþykkir styrkbeiðnina.

Fylgigögn:

Stopp einelti - kynning

7. Einstakur apríl (2023030328)

Lýðheilsuráð minnir á Einstakan apríl – skipulagning viðburðar stendur yfir.

Að auki er vert að minna á áhugaverðan viðburð sem Velferðarnet Suðurnesja býður upp á fimmtudaginn 23. mars kl. 17.00 – 19.30 um fræðslu um einhverfu á fullorðinsárum sem haldinn er á Bókasafni Reykjanesbæjar. Á fræðslunni ætla Guðlaug Svala, Hildur Valgerður og Sigrún frá Einhverfusamtökunum að fræða um einhverfu á fullorðinsárum.

Þær fara meðal annars yfir það hvernig það er að fá greiningu á fullorðinsárum, segja frá reynslu og upplifun einhverfra af því að fullorðnast ásamt því að gefa okkur góð ráð.

Námskeiðið er opið öllum og er ókeypis.

Námskeiðið er haldið af Einhverfusamtökunum í samstarfi við verkefnið Velferðarnet Suðurnesja.

Fylgigögn:

Einstakur apríl -fræðsla

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:38. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 4. apríl 2023.