46. fundur

12.03.2024 14:00

46. fundur lýðheilsuráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 12. mars 2024, kl. 14:00

Viðstödd: Bjarney Rut Jensdóttir formaður, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, Anna Lydía Helgadóttir, Karítas Lára Rafnkelsdóttir og Magnús Einþór Áskelsson.

Að auki sátu fundinn Hafþór Birgisson íþrótta- og tómstundarfulltrúi, Perla Dís Gunnarsdóttir fulltrúi ungmennaráðs og Íris Eysteinsdóttir ritari.

1. Heilsueflandi samfélag (2024030096)

Gunnar Ellert Geirsson deildarstjóri umhverfismála mætti á fundinn og kynnti umferðar- og samgönguáætlun og gönguleiðir skólabarna.

Lýðheilsuráð þakkar Gunnari Ellerti fyrir góða kynningu og minnir á að eitt af verkefnum sem tengjast heilsueflandi samfélagi er öruggar gönguleiðir fyrir íbúana okkar.

Lýðheilsuráð lýsir áhyggjum sínum yfir vöntun á öryggismyndavélum í sveitarfélaginu. Ráðið óskar eftir þarfagreiningu og kostnaðaráætlun við að setja öryggismyndavélar á Reykjanesið. Yrði það gert í samráði við nærliggjandi sveitarfélög, viðbragðsaðila og aðra viðeigandi fagaðila.

2. Snjallsímalausir grunnskólar (2023030312)

Þormóður Logi Björnsson aðstoðarskólastjóri Akurskóla mætti á fundinn og fór yfir könnun sem gerð var meðal starfsfólks í grunnskólum Reykjanesbæjar varðandi símanotkun nemenda.

Lýðheilsuráð þakkar Þormóði Loga fyrir góða kynningu og hvetur til áframhaldandi vinnu.

Fylgigögn:

Símar í skólum 

3. Mottumars - viðburður lýðheilsuráðs 21. mars 2024 (2024020095)

Í tilefni af Mottumars býður lýðheilsuráð bæjarbúum í sundmiðstöð Reykjanesbæjar þann 21. mars frá kl. 16:00-18:00. Einkunnarorð viðburðarins eru Mottumars - Upp með sokkana! Baráttan byrjar hér!

Mottumarshlaupið verður haldið sama dag af Krabbameinsfélagi Suðurnesja kl. 18:00.

Mottumars er árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum í körlum. Meginmarkmið átaksins Mottumars: Karlmenn og krabbamein er að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameinum hjá karlmönnum, hvetja alla menn og fjölskyldur þeirra til að vera meðvitaðir um einkenni krabbameina og sinna forvörnum, sem og að afla fjár sem gerir félaginu kleift að sinna fræðslu, forvörnum, rannsóknum og ráðgjöf fyrir karlmenn.

Fylgigögn:

Lýðheilsuráð býður uppá viðburðinn Mottumars - Upp með sokkana!

4. Forvarnardagur ungra ökumanna vor 2024 (2024030097)

Forvarnardagur ungra ökumanna verður haldinn 14. mars í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Markmiðið með verkefninu er að auka umferðaröryggi ungs fólks.

Lýðheilsuráð hrósar þeim sem standa að þessum glæsilega viðburði.

Fylgigögn:

Forvarnardagur ungra ökumanna - vor 2024

Dagskrá

5. BAUN 2.-12. maí 2024 (2024030098)

Lagt fram erindi frá Guðlaugu Maríu Lewis menningarfulltrúa.

BAUN, barna- og ungmennahátíð í Reykjanesbæ er á dagskrá dagana 2. til 12. maí 2024. Á hátíðinni eru börn, ungmenni og fjölskyldur sett í forgang með margvíslegum hætti. Markmið hátíðarinnar eru m.a. að:

• auka lífsgæði og vellíðan barna og íbúa Reykjanesbæjar.

• skapa vettvang fyrir börn og fjölskyldur til virkrar þátttöku í samfélaginu.

BAUN er tækifæri eða verkfæri fyrir okkur sem samfélag til að beina sjónum að okkar mikilvægasta fólki, börnum og ungmennum, með skemmtilegri og jákvæðri umgjörð.

Allar stofnanir og svið Reykjanesbæjar, félög, hópar og fyrirtæki eru hvött til að setja BAUNina á dagskrá og taka þátt í hátíðinni með okkur.

Lýðheilsuráð tekur undir hvatningu menningarfulltrúa og fagnar þessu framtaki.

Fylgigögn:

Baun 2024

6. Hvatagreiðslur 2023 - nýtingartölur (2023010038)

Hafþór Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi fór yfir nýtingu á hvatagreiðslum í Reykjanesbæ fyrir árið 2023. Alls nýttu 2.435 börn sér hvatagreiðslurnar sem er 60% af heildarfjölda barna 4–18 ára í Reykjanesbæ. Nýtingin hefur aukist um 9,2% frá 2019. Bæjaryfirvöld ákváðu fyrir skemmstu að bæta við hvatagreiðslum fyrir eldri borgara frá 67 ára aldri sem hafa svo sannarlega slegið í gegn.

Lýðheilsuráð hvetur alla til að stunda íþróttir og tómstundir í skipulögðu starfi og hvetur foreldra til að nýta hvatagreiðslur sveitarfélagsins. Óumdeilt er að gildi forvarna og lýðheilsu er mikið þegar litið er til þátttöku barna í kröftugu íþrótta- og tómstundastarfi í Reykjanesbæ.

Svör við spurningum og aðstoð vegna hvatagreiðslna er veitt á netfanginu hvatagreidslur@reykjanesbaer.is.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.05. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 19. mars 2024.