58. fundur lýðheilsuráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Grænásbraut 910 þann 15. maí 2025, kl. 14:00
Viðstödd: Bjarney Rut Jensdóttir formaður, Anna Lydía Helgadóttir, Karítas Lára Rafnkelsdóttir, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir og Magnús Einþór Áskelsson.
Að auki sat fundinn Hafþór Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi og Íris Eysteinsdóttir ritari.
Lýðheilsuráð samþykkir að taka á dagskrá tvö mál. Símalausir grunnskólar (2025080231) sem fjallað verður um undir dagskrárlið 7 og Áskorun til íþróttafélaga í Reykjanesbæ (2025010360) sem fjallað verður um undir dagskrárlið 8.
1. Samþætting þjónustu í þágu farsældar barna (2025050116)
Eydís Rós Ármannsdóttir verkefnastjóri skrifstofu velferðarsviðs mætti á fundinn og kynnti stöðu innleiðingar laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna hjá Reykjanesbæ.
Lýðheilsuráð þakkar fyrir góða kynningu á þessu mikilvæga málefni. Ráðið leggur áherslu á mikilvægi þess að allir hagaðilar taki virkan þátt í verkefninu og vinni saman að því að tryggja farsæld barna í Reykjanesbæ. Jafnframt hvetur ráðið til þess að reglulegar mælingar á árangri og ávinningi verkefnisins fari fram, þannig að unnt sé að fylgjast með þróuninni og bera saman árangur milli ára.
2. Barna- og ungmennaþing í Reykjanesbæ - verum örugg (2025050117)
Ólafur Bergur Ólafsson frístundaráðgjafi Fjörheima mætti á fundinn og kynnti barna- og ungmennaþingið sem haldið var í Stapanum 3. apríl sl. Þemað var Öryggi út frá öllum hliðum þess orðs.
Lýðheilsuráð þakkar Ólafi Bergi fyrir flotta kynningu. Að auki eru ungmennaráði Reykjanesbæjar og starfsfólki ráðsins færðar þakkir fyrir þingið og fagleg störf í þágu barna og ungmenna.
3. Fræðslustefna Reykjanesbæjar (2025030588)
Bæjarráð óskar eftir umsögn um drög að fræðslustefnu Reykjanesbæjar 2025-2028. Fræðslustefnan gildir fyrir allt starfsfólk á öllum sviðum og starfsstöðum sveitarfélagsins.
Lýðheilsuráð hefur engar athugasemdir við stefnuna og telur að fræðslustefnan styðji vel við markmið um heilsueflandi samfélag. Ráðið vill hrósa Reykjanesbæ fyrir framúrskarandi endurmenntunarmöguleika fyrir starfsfólk sveitarfélagsins.
4. Hjólað í vinnuna 2025 (2025050118)
Lýðheilsuráð hvetur íbúa Reykjanesbæjar til þátttöku í verkefninu Hjólað í vinnuna.
Með þátttöku í verkefninu er stuðlað að bættri heilsu, umhverfisvernd og aukinni samveru á vinnustöðum.
5. Öruggari Suðurnes - samráðsfundur (2025050120)
Hafþór Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi sagði frá samráðsfundinum Öruggari Suðurnes sem haldinn var miðvikudaginn 7. maí sl. í samkomuhúsinu í Suðurnesjabæ.
Lýðheilsuráð fagnar samráðsfundi verkefnisins Öruggari Suðurnes sem haldinn var nýverið. Ráðið styður áframhaldandi samstarf milli sveitarfélaga, lögreglu og annarra lykilaðila í þágu forvarna gegn ofbeldi og afbrotum á Suðurnesjum.
6. Sumar í Reykjanesbæ 2025 (2025050121)
Hafþór Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi fór yfir það framboð sem stendur íbúum Reykjanesbæjar til boða og er kynnt á vefnum fristundir.is
Lýðheilsuráð hvetur til fjölbreyttrar og aðgengilegrar sumarstarfsemi fyrir börn, ungmenni og fullorðna í Reykjanesbæ. Ráðið leggur áherslu á mikilvægi þess að íbúar hafi greiðan aðgang að upplýsingum um viðburði og tómstundastarf í gegnum miðla eins og fristundir.is og samfélagsmiðla og hvetur fólk til þátttöku.
7. Símalausir grunnskólar (2025080231)
Lýðheilsuráð leggur áherslu á mikilvægi þess að draga úr skjánotkun barna og ungmenna innan skólasamfélagsins. Í ljósi þessa hvetur lýðheilsuráð til þess að sett verði skýr og sameiginleg stefna um símalaust skólaumhverfi í öllum grunnskólum Reykjanesbæjar. Slík stefna styður við markmið um bættan námsárangur, aukið félagslegt samspil og heilbrigðari daglega rútínu nemenda. Ráðið leggur því til að bæjarstjórn feli menntasviði að vinna að mótun og innleiðingu sameiginlegrar stefnu um símalausa skóla í áframhaldandi samstarfi við skólasamfélagið. Stefna þessi ætti að taka gildi eigi síðar en við upphaf næsta skólaárs. Reykjanesbær hefur tækifæri til að sýna frumkvæði og ábyrgð í þessu mikilvæga lýðheilsumáli.
8. Áskorun til íþróttafélaga í Reykjanesbæ (2025010360)
Lýðheilsuráð barst ályktun frá FÍÆT vegna áhyggja um sölu áfengis á íþróttaviðburðum. Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar leggur áherslu á að skipulagning íþróttaviðburða og umhverfi þeirra taki mið af öryggi, forvörnum og vellíðan allra. Í ljósi þess mun lýðheilsuráð óska eftir upplýsingum frá íþróttafélögum í sveitarfélaginu um hvort þau selji áfengi á íþróttaviðburðum, og ef svo er, hvort til staðar séu verklagsreglur eða viðmið sem stýra slíkri starfsemi.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.59. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 20. maí 2025.