Fundargerð 14. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 21. október 2020, kl. 08:30
Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Trausti Arngrímsson, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.
1. Framtíðarsýn DUUS safnahúsa (2019110002)
Málinu frestað.
2. Jólagarður (2020100172)
Á fundinn mætti Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi og kynnti hugmyndir að Jólagarðinum. Ráðið lýsir mikilli ánægju með hugmyndina og hvetur íbúa, félög og fyrirtæki til að taka virkan þátt í uppbyggingu jólagarðsins.
Fylgigögn:
Jólagarðurinn
3. Uppbygging á tjaldsvæði í Reykjanesbæ (2020100171)
Á fundinn mætti Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir, verkefnastjóri ferðamála og fór yfir minnisblað um uppbyggingu tjaldsvæðis í Reykjanesbæ.
„Þegar horft er til þeirra markhópa sem líklegir væru til að sækja í tjaldsvæði í Reykjanesbæ er um tvennskonar hópa að ræða, annars vegar erlendir ferðamenn sem væru líklegir til að gista fyrstu og/eða síðustu nóttina sína í Reykjanesbæ og hins vegar Íslendingar og ferðamenn sem leita í fjölskylduvænni aðstöðu. Langflestir Íslendingar ferðast á eigin vegum og gista annað hvort á tjaldsvæðum eða í sumarbústöðum. Í dag svarar Reykjanesbær hvorugum hópnum.
Þessir hópar eru í eðli sínu mjög ólíkir og kalla á mjög ólíka þjónustu og ferðahegðun þó grunnþörfin sé sú sama. Þegar sú vá sem herjað hefur á okkur á þessu herrans ári ásamt þeim afleiðingum sem fylgdu í kjölfarið fundu ferðaþjónar í Reykjanesbæ tilfinnanlega til þess að Íslendingar voru einfaldlega ekki að sækja bæinn heim og margir höfðu orð á því að þarna væru fólgin tækifæri (skv. samtölum við ferðaþjóna í maí/júní 2020), jafnvel hótelin sáu tækifæri í þessum markhópi t.d. í leigu á sölum, matsölu ásamt fleiru.
Í framtíðarsýn tjaldsvæðis verður leitast við að skipuleggja svæði með möguleika á útboði til reksturs. Þar með er ekki einungis verið að svara þeim hópi ferðamanna sem líklegir væru til þess að stoppa í lengri tíma á viðkomandi svæði, heldur er verið að skapa rými fyrir samfélagið, með því að setja kvaðir byggðar á ferðamálastefnu er stuðlað að ferðamennsku sem byggir á þörfum heimamanna, er sjálfbær, stuðlar að aukinni atvinnu, fjölbreyttri ferðaþjónustu og stuðlar að aukinni þjónustu og hærra þjónustu stigi.
Þó svo tiltekið svæði sé tekið fyrir í tillögu og önnur rædd í minnisblaði þá er á engan hátt lokað á önnur svæði sem komið geta til álita. Óskað hefur verið eftir umsögn frá USK. Gróf áætlun um kostnað við uppbyggingu er um 125m kr. Verkefnastjóri ferðamála mælir með því að rekstur verði boðin út á svæðinu.“
Menningar- og atvinnuráð þakkar fyrir gott minnisblað.
Ráðið óskar eftir að verkefnastjóri viðskiptaþróunar og verkefnastjóri ferðamála vinni nánari greiningu á staðsetningu, rekstri og kostnaði fyrir næsta fund ráðsins.
Fylgigögn:
Tjaldsvæði í Reykjanesbæ
4. Beiðni um umsögn til bæjarráðs vegna erindis Happy Campers (2020100218)
Á fundinn mætti Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir, verkefnastjóri ferðamála og svaraði spurningum varðandi erindi Happy Campers.
Verkefnastjóra viðskiptaþróunar og verkefnastjóra ferðamála er falið að taka upp viðræður við Happy Campers um aðkomu Reykjanesbæjar að uppbyggingu og rekstri tjaldsvæðis.
Í kjölfarið er óskað eftir greiningu á áhrifum aðkomu Reykjanesbæjar með tilliti til samkeppni og jafnræðisreglu. Umsögn verður skilað til bæjarráðs.
Fylgigögn:
Erindi frá Happy Campers ehf.
5. Atvinnumál innan Súlunnar (2020090192)
Á fundinn mætti Sigurgestur Guðlaugsson verkefnisstjóri viðskiptaþróunar og fór yfir verkefni í atvinnumálum.
6. Atvinnuþróunarstefna (2020010477)
Á fundinn mætti Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri viðskiptaþróunar og kynnti undirbúning við gerð atvinnuþróunarstefnu. Menningar- og atvinnuráð felur verkefnastjóra viðskiptaþróunar að halda áfram að undirbúningi. Nýr tímabundinn starfsmaður hefur verið ráðinn til verkefnisins sem gefur fyrirheit um öfluga stefnumótun á komandi mánuðum.
7. Atvinnuleysistölur (2020010478)
Á fundinn mætti Sigurgestur Guðlaugsson verkefnisstjóri viðskiptaþróunar og fór yfir atvinnuleysistölur.
Atvinnuleysi jókst um 1,1% á milli ágúst og september samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Samanlagður fjöldi atvinnulausra auk þeirra sem eru á hlutabótaleið var 2.682 eða 20,8% í lok september.
Sérstaka athygli vekur hlutfallslega hærra atvinnuleysi á meðal kvenna 23,3% á móti 19% á meðal karla.
Jafnframt er fjöldi þeirra sem nú hafa verið atvinnulausir í 6 mánuði eða lengur áhyggjuefni. Af þeim 2.682 sem voru í þjónustu Vinnumálastofnunar við mánaðarlok, hafa 1.219 þeirra verið í þeirri stöðu í 6 mánuði eða lengur. Þar af hafa 419 verið meira en eitt ár á atvinnuleysisskrá.
Menningar- og atvinnuráð Reykjanesbæjar mælist eindregið til þess að bótatímabil atvinnuleysisbóta verði lengt sem nemur einu ári. Forstöðumanni Súlunnar verkefnastofu falið að koma þessum tilmælum til þingmanna kjördæmisins.
8. Menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2020 (2020090177)
Á fundinn mætti Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi. Ráðið ræddi tilnefningar og ákvað verðugan fulltrúa til að hljóta menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2020. Nafn verðlaunahafa verður tilkynnt við afhendingu verðlaunanna við formlega athöfn í Duus Safnahúsum 12. nóvember nk. kl. 18.00.
9. Menningarsjóður (2020010100)
Á fundinn mætti Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi. Í mars s.l. var úthlutað úr menningarsjóði til ákveðinna menningarverkefna sem til stóð að framkvæma á árinu. Nú hefur komið í ljós að vegna Covid 19 verður ekki unnt að framkvæma nema hluta verkefnanna og því munu styrkir vegna óunninna verkefna falla niður. Ráðið samþykkir að fela forstöðumanni Súlunnar að auglýsa verkefnastyrki til umsóknar sem nýst geta til viðburðahalds eða menningartengdra verkefna í aðdraganda jóla.
10. Betri Reykjanesbær (2020060548)
a. Tjaldsvæði
Menningar- og atvinnuráð þakkar fram komna hugmynd. Hugmyndin er þegar í vinnslu.
b. Nýting álversbygginga
Menningar- og atvinnuráð þakkar fram komna hugmynd. Hugmyndir varðandi bygginguna eru þegar í skoðun.
c. Álverið í Helguvík
Menningar- og atvinnuráð þakkar fram komna hugmynd. Hugmyndir varðandi bygginguna eru þegar í skoðun.
11. Fundargerðir neyðarstjórnar (2020030192)
Fundargerðirnar lagðar fram. Með því að smella hér opnast fundargerðir neyðastjórnar
12. Mælaborð Súlunnar (2020040101)
Mælaborð Súlunnar fyrir ágúst lagt fram.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.40. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 3. nóvember 2020.