20. fundur

20.04.2021 10:30

20. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 20. apríl 2021, kl. 10:30

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Trausti Arngrímsson, Birgitta Rún Birgisdóttir sat fundinn með leyfi ráðsins, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Atvinnumál (2021010176)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og fór yfir úrræði í atvinnuátaki.

2. Atvinnuleysistölur (2021010175)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og fór yfir atvinnuleysistölur.

Heldur er tekið að draga úr atvinnuleysi, en alls voru 2.595 einstaklingar skráðir á atvinnuleysisskrá í lok mars og hafði fækkað um 98 á milli mánaða. Af þeim 98 má gera ráð fyrir að átta hafi klárað bótarétt sinn og séu því enn atvinnulausir þó þeir séu ekki lengur á skrá. Hlutfall atvinnulausra hafði því lækkað úr 24,2% í lok febrúar í 23,3% í lok mars. Hlutfallið hefur því lækkað um 1,6 prósentustig frá því hæst lét um áramót þegar það mældist 24,9%.

3. Ljósanótt 2021 (2021030300)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi mætti á fundinn og gerði grein fyrir stöðu mála varðandi undirbúning Ljósanætur 2021.

Menningar- og atvinnuráð lýsir ánægju með að undirbúningur fyrir Ljósanótt 2021 sé hafinn og leggur áherslu á að mikilvægt sé fyrir Reykjanesbæ að nýta hátíðina til að ýta undir bjartsýni, gleði og jákvæðni í hugum bæjarbúa. Þá hvetur ráðið til þess að hátíðin sé nýtt til að blása til sóknar og vekja athygli á sveitarfélaginu með jákvæðum hætti. Samhliða vekur ráðið máls á því að ljóst er að staðan í samfélaginu hefur margs konar áhrif á undirbúning hátíðarinnar sem taka þurfi mið af.

Menningar- og atvinnuráð tekur undir afstöðu menningarfulltrúa og vísar minnisblaði sem var kynnt á fundinum til afgreiðslu bæjarráðs.

4. Baun í Reykjanesbæ - barna- og ungmennahátíð (2021030197)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi kynnti nýtt útlit barna- og ungmennahátíðar í Reykjanesbæ, sem framvegis gengur undir heitinu BAUN, barna- og ungmennahátíð í Reykjanesbæ. Fyrstu tveir stafir orðsins vísa til barna (ba) og seinni tveir til ungmenna (-un) en saman mynda þeir orðið BAUN. Þá hefur baun einnig táknræna merkingu þar sem baunir eru auðvitað fræ sem með góðri næringu og atlæti blómstra og breiða úr sér. Þannig er barna- og ungmennahátíð frjósamur jarðvegur fyrir börnin okkar og gefur þeim tækifæri til að rækta hæfileika sína og blómstra. Menningarfulltrúi kynnti jafnframt drög að dagskrá sem hefur þurft að aðlaga að sóttvarnartakmörkunum. Markmiðið með hátíðinni er að gera listsköpun barna hátt undir höfði ásamt því að setja fókusinn á allt það skemmtilega sem bærinn býður upp á fyrir börn og fjölskyldur.

Ráðið lýsir ánægju með fyrirkomulag Baunar og hvetur íbúa til að kynna sér dagskrá hátíðarinnar og taka þátt í henni með börnum sínum.

5. Skapandi sumarstörf (2021010362)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi mætti á fundinn.

Ráðið lýsir ánægju með að heimild hefur fengist til að bjóða upp á verkefnið „Skapandi sumarstörf“ öðru sinni. Störfin verða auglýst fyrir námsmenn á næstu dögum og hvetur ráðið ungmenni 18 ára og eldri sem vilja nýta styrkleika sína til að gera góðan bæ enn betri með skapandi hætti, til að bjóða fram krafta sína í verkefnið.

6. Mælaborð Súlunnar - verkefnastofu (2021030231)

Mælaborð Súlunnar lagt fram.

7. Fundargerðir neyðarstjórnar (2021010061)

Fundargerðir lagðar fram.

Með því að smella hér opnast fundargerðir neyðarstjórnar.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:40. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 4. maí 2021