26. fundur

20.10.2021 08:30

26. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 20. október 2021, kl. 08:30

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Trausti Arngrímsson, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Atvinnumál (2021010176)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og fór yfir ýmis atvinnumál. Einnig kynnti hann fyrirhugaða þróunarreiti í endurskoðuðu aðalskipulagi t.a.m Fisherreit og Grófina sem fyrirhugað er að auglýsa á næstunni. Markmiðið er að leita að samstarfsaðilum um í uppbyggingu svæða innan Reykjanesbæjar.

2. Atvinnuþróunarstefna (2020010477)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og kynnti framþróun vinnu við atvinnuþróunarstefnu.

3. Atvinnuleysistölur (2021010175)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og fór yfir atvinnuleysistölur.

Atvinnuleysi hélt áfram að dragast saman og mældist 9,7% í lok septembermánaðar. Það lægsta frá því í desember 2019 þegar það var 8,9%, en fór hæst í 24,9% um síðastliðin áramót. Lætur nærri að 2/3 þeirra sem voru atvinnulausir þegar hæst lét séu komnir af skrá.

Atvinnuleysi er nú lægra en það var áður en áhrif Covid komu fram. Gera þarf ráð fyrir árstíðarsveiflum og mikilvægt að fylgjast með þróun í flugi á komandi mánuðum. Alls voru 1.109 einstaklingar skráðir í atvinnuleit um mánaðarmót. Þar af 610 karlar og 499 konur.

Með opnun landamæra í Bandaríkjunum gæti flug yfir Atlantshafið aukist og því bindur menningar- og atvinnuráð vonir við að aukin umsvif því fylgjandi muni vega upp á móti samdrætti sem í eðlilegu árferði myndi fylgja vetrartíðinni.

Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi dregist mikið saman á undanförnum mánuðum eru engu að síður 292 einstaklingar sem hafa verið skráðir atvinnulausir á seinustu 6 mánuðum, fleiri en tilheyra hópnum sem hefur verið frá 6 til 12 mánuðum á skrá.

Athyglisvert verður að fylgjast með þessum tölum á komandi mánuðum, en gera má ráð fyrir að einhver hluti þeirra sem nú eru með starf í gegnum úrræði VMST komi aftur á skrá. Þeir einstaklingar verða væntanlega flokkaðir í samræmi við þann bótarétt sem þeir hafa nýtt.

4. Vestnorden (2021010633)

Vestnorden ferðakaupstefnan var haldin dagana 5.-6. október sl. á Reykjanesinu. Það má segja að kaupstefnan hafi farið fram úr björtustu vonum þeirra er að henni komu. Kaupstefnan var haldin í Hljómahöll og voru þar komin saman 134 fyrirtæki frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum sem hittu 177 kaupendur sem hingað til lands voru komnir hvaðanæva að úr heiminum. Áttu kaupendur og seljendur samtals 3400 fundi þá tvo daga sem kaupstefnan stóð yfir. Einn þáttur í Vestnorden eru ferðir sem kaupendum býðst að fara í áður en kaupstefnan hefst og í ár komu rúmlega 100 kaupendur til landsins nokkrum dögum áður til að kynna sér það helsta sem landshlutarnir hafa upp á að bjóða og var mikil ánægja meðal kaupenda. Á meðan á kaupstefnunni stóð buðu ferðaþjónustufyrirtæki af svæðinu bæði kaupendum og seljendum í stuttar ferðir um Reykjanesið til að kynna áfangastaðinn og mæltist það vel fyrir enda margt nýtt að sjá og upplifa og var öllum boðið í Bláa Lónið í lok ferðanna. Iðandi líf var að finna á veitingarstöðum og hótelum Reykjanesbæjar. Það var góður andi sem sveif yfir Hljómahöll og ekki annars að vænta en að Ísland og Reykjanesið verði á kortinu hjá mörgum á komandi misserum.

Menningar- og atvinnuráð þakkar öllum sem að þessu komu.

5. Aðventugarðurinn (2021090523)

Undirbúningur fyrir Aðventugarðinn er kominn á fullt skrið. Garðurinn verður rekinn með svipuðu sniði og síðasta ár með fallegum ljósum, skemmtidagskrá og sölukofum. Aðventugarðurinn verður opnaður 4. desember og verður opinn allar helgar til jóla og á Þorláksmessu. Opnunardögum verður fjölgað um helming þar sem opið verður bæði laugardaga og sunnudaga. Opið verður fyrir umsóknir um sölukofa og viðburði, uppákomur og dagskrá frá 20. október til 14. nóvember. Ráðið hvetur bæjarbúa til að taka virkan þátt í dagskrá Aðventugarðsins og hvetur jafnframt fyrirtæki og félagasamtök til að leggja garðinum lið með margvíslegu framlagi.

6. Menningarverðlaun 2021 (2021090213)

Ráðið ræddi tilnefningar og ákvað verðugan fulltrúa til að hljóta menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2021. Nafn verðlaunahafa verður afhjúpað um miðjan nóvember með sérstökum atburði.

7. Safnahelgi á Suðurnesjum (2021100279)

Safnahelgi á Suðurnesjum var haldin helgina 16. og 17. október 2021. Hún er samstarfsverkefni safna, setra og sýninga á Suðurnesjum sem opna dyr sínar fyrir íbúum og gestum svæðisins. Safnahelgin var uppfull af fjölbreyttum og skemmtilegum viðburðum um allan Reykjanesskagann fyrir alla fjölskylduna. Tónleikar, sirkus, sögustund, sýningar, ratleikur, slökkvibílar, völva Suðurnesja, upplestur, ævintýraheimur hafsins, Skessan, ljósmyndasýningar og margt, margt fleira.

Dagskráin í Reykjanesbæ:

- Laugardag kl. 14. Tónleikar með Fríðu Dís og Smára í Rokksafni Íslands.

- Laugardag kl. 15. Tónleikar með JFDR (Jófríður Ákadóttur) í Rokksafni Íslands.

- Laugardag kl. 15. Leiðsögn um sýninguna Formheimur Bjargar Þorsteinsdóttur í Listasafni Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsum. Verkin eru gjöf fjölskyldu listakonunnar til Listasafnsins.

- Laugardag kl. 16. Hljómsveitin Midnight Librarian flutti nokkur lög í Bókasafni Reykjanesbæjar í tengslum við sýninguna Smá – brot.

- Sunnudag kl. 14. Leiðsögn MULTIS um sýninguna FJÖLFELDI – HLUTFELDI – MARGFELDI í Listasafni Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsum.

- Sunnudag kl. 15. Tónleikar með hljómsveitinni FLOTT sem m.a. hafa slegið í gegn með laginu „Mér er drull“ í Duus Safnahúsum.

- „Það sem stríðið skyldi eftir.“ Sýning einkasafnara og Byggðasafns Reykjanesbæjar á munum tengdum hernaði, í Ramma.

- Slökkviliðssafn Íslands, í Ramma.

- Leiðarljós að lífhöfn. Sýning um sögu Reykjanesvita og sjóslysa á Reykjanesskaga, í Reykjanesvita.

- Smá – brot, tónlist og útgáfa á Suðurnesjum. Sýning á hljómplötum tengdum Reykjanesi í Bókasafni Reykjanesbæjar.

- Ratleikur fyrir fjölskylduna í Duus Safnahúsum alla helgina.

- Síðasta sýningarhelgi á ljósmyndasýningu Víkurfrétta og Byggðasafnsins í Duus Safnahúsum.

Frítt var inn á alla viðburðina.

Góð almenn þátttaka var á viðburðum Safnahelgarinnar og fólk ánægt með framtakið. Sem dæmi má nefna að um 650 manns heimsóttu Duus Safnahús þessa helgi og um 2.000 manns litu við í Safnamiðstöðinni í Ramma og skoðuðu þar Slökkviminjasýningu Íslands og sýningu einkasafnara á stríðsminjum.

Ráðið fagnar þessu framtaki og samstarfi sveitarfélaganna á Suðurnesjum í þessu verkefni sem dregur fram fjölbreytileikann í menningarlífi svæðisins.

8. Vinnustofa Súlunnar verkefnastofu (2021100280)

Í september mánuði tóku stjórnendur Súlunnar þátt í þremur 3ja tíma vinnustofum sem byggir á efni Franklin Covey „Að skapa og miðla sýn teymis“. Fengu stjórnendur aðstoð við að skerpa á hlutverki, framtíðarsýn og stefnu teyma sinna undir leiðsögn ráðgjafa og forstöðumanns. Einnig var áhrifakeðja unnin þar sem aðföng, ferli, afurðir/skilvirkni og áhrif/framfarir voru skilgreind innan hverrar stofnunar/deildar fyrir sig. Námskeiðið skilaði góðri yfirsýn á stefnuvinnu, leiðum að árangri og þeim mælikvörðum sem miða skal við til að ná góðri niðurstöðu.

Ráðið þakkar starfsfólki Súlunnar fyrir að leiða þetta verkefni.

9. Bókasafn Reykjanesbæjar (2021010359)

Í Átthagastofu Bókasafns Reykjanesbæjar hefur verið opnuð sýningin Smá-brot; Tónlist og útgáfa á Suðurnesjum. Sýningin var sett upp í kringum safneign tengdum átthögum Reykjaness auk ýmissa lánsmuna sem velviljaðir vinir safnsins hafa lánað. Markmiðið er ekki að vera með yfirgripsmikla sögusýningu heldur sýna skemmtileg brot frá liðnum tíma, nær og fjær. Sýningin opnaði 20. september sl. og hafa nú þegar ca. 850 manns sótt hana.

Menningar- og atvinnuráð hvetur fólk eindregið til þess að skoða sýninguna.

10. Mælaborð Súlunnar (2021030231)

Mælaborð Súlunnar lagt fram.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 09.40. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 2. nóvember 2021.