30. fundur

16.02.2022 08:30

30. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur 16. febrúar 2022, kl. 08:30

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Trausti Arngrímsson, Baldur Þórir Guðmundsson, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Markaðsstefnan (2021110284)

Gunnar Víðir Þrastarson verkefnastjóri markaðsmála mætti á fundinn og fór yfir stöðuna og greindi frá hvað á eftir að gera áður en ferlinu lýkur.

Vinna við markaðsstefnu Reykjanesbæjar er á lokametrunum en ferlið sjálft hefur nú tekið fjóra mánuði. Kristján Schram hjá Brandr vörumerkjastofu hefur leitt vinnuna í samvinnu við verkefnastjóra markaðsmála. Frá byrjun var lögð rík áhersla á að hafa sem víðtækast samtal og samband við helstu hagsmunaaðila á borð við starfsmenn Reykjanesbæjar, íbúa, og fólk úr atvinnulífinu til að fá innsýn í helstu áskoranir, það sem vel er gert, það sem betur mætti fara og svo framvegis. Tekin hafa verið fjölmörg viðtöl, haldnar vinnustofur og sjálfsmynd Reykjanesbæjar var vel skoðuð.

2. Mælaborð (2021030231)

Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu fór yfir mælaborð fyrir árið 2021.

3. Atvinnumál (2021010176)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og fór yfir ýmis atvinnumál.

4. Atvinnuleysistölur (2021010175)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og fór yfir stöðuna á vinnumarkaðinum.

Um leið og vonir eru bundnar við að minnkandi áhrif sóttvarnaraðgerða og árstíðarbundin aukning umsvifa muni með vorinu leiða til fjölgunar starfa á Keflavíkurflugvelli. Vekur umræða um fáar umsóknir í auglýst sumarstörf á flugvellinum áhyggjur. Þróun atvinnuleysis undanfarin þrjú ár sýnir að það er að miklu leyti tilkomið vegna fækkunar starfa í flug- og ferðaþjónustutengdum greinum. Enn eru yfir 1.100 manns á atvinnuleysisskrá og mikilvægt að höfða eftir fremsta megni til þeirra við ráðningar á komandi mánuðum og draga sem mest úr langtíma áhrifum atvinnuleysis.

Tölur um atvinnuúrræði Vinnumálastofnunar sýna mikla þátttöku atvinnulífsins. Alls voru veittir 1.238 ráðningarstyrkir á Suðurnesjum á árinu 2021. Þessar tölur sýna mikilvægi þess að úrræðin henti atvinnulífinu við að vinna á atvinnuleysi.

5. Vefurinn www.visitreykjanesbaer.is (2021110285)

Nýr vefur Reykjanesbæjar, www.visitreykjanesbaer.is, hefur verið mótaður og settur í loftið. Hugmyndin á bakvið vefinn er að hann nýtist öllum en á síðunni er hægt að sjá alla viðburði og afþreyingu sem snúa að menningu, útivist og fleira tengt mannlífi í Reykjanesbæ. Vefurinn á að nýtast jafnt sem vettvangur fyrir íbúa og ferðamenn til að fá heildarsýn yfir þeirra nánasta umhverfi og fyrirtæki, stofnanir og samtök að auglýsa viðburði sem eru opnir öllum.

Menningar- og atvinnuráð fagnar nýrri heimasíðu og hvetur alla til þess að heimsækja nýju heimasíðu bæjarins.

6. Skapandi sumarstörf (2021010362)

Verkefnið Skapandi sumarstörf/Hughrif í bæ hefur verið haldið úti af menningarfulltrúa s.l. tvö sumur. Verkefnið var sett á laggirnar fyrir tilstilli styrkja frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu annars vegar og námsmannaúrræðis á vegum Reykjanesbæjar hins vegar og hefur verið unnið í góðu samstarfi við umhverfissvið Reykjanesbæjar. Ekkert fjármagn er áætlað í verkefnið á þessu ári og því ljóst að ekki verður hægt að halda verkefninu úti í sumar nema til komi aðrar lausnir á því.

7. Menningarsjóður (2022010276)

Menningarfulltrúi lagði fram drög að endurskoðaðri reglugerð um menningarsjóð.

Umsóknarfrestur í Menningarsjóð Reykjanesbæjar rann út 14. febrúar sl. alls bárust 23 umsóknir um verkefnastyrki og 11 umsóknir um þjónustusamning. Ráðið fer nú yfir umsóknir og niðurstöður úthlutunar liggja fyrir á næsta fundi.

8. BAUN í Reykjanesbæ (2022020913)

BAUN, barna- og ungmennahátíð Reykjanesbæjar fer fram dagana 28. apríl – 8. maí. Á hátíðinni er fókusinn settur á börn og fjölskyldur með margvíslegum hætti. Markmið hátíðarinnar eru nokkur og m.a. þau að:

- Að draga fram það sem Reykjanesbær hefur upp á að bjóða fyrir börn og fjölskyldur og hvetja þær til virkrar þátttöku og jákvæðrar samveru þeim að kostnaðarlausu.

- Að skapa vettvang fyrir fjölskyldur til að taka virkan þátt í menningarlífi bæjarins og kynnast menningarhúsunum.

- Að gera BAUNina að verkefni sem allir vilja vera þátttakendur hvort sem er innan stjórnsýslunnar eða utan, í þágu barna og fjölskyldna.

Ráðið hvetur stofnanir, félagasamtök og fyrirtæki að huga sérstaklega að börnum og fjölskyldum þeirra á þessu tímabili og bjóða upp á dagskrá, viðburði, fræðslu, tilboð eða annað sem við á og tengja sig þannig við hátíðina. Menningarfulltrúi veitir nánari upplýsingar um málið.

9. Barnabókasafn (2022020914)

Stefanía Gunnarsdóttir forstöðumaður bókasafns mætti á fundinn.

Sigrún Klara Hannesdóttir, prófessor emeritus í upplýsingafræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi Landsbókavörður. Fyrir hönd Félags um barnabókasafn, sendi inn óformlegt erindi til bókasafns Reykjanesbær með hugmyndir um framtíð barnabókasafns á Íslandi. Sigrúnu Klöru langaði til að heyra hvort áhugi gæti verið á að koma barnabókasafni eða barnabókastofnun í framkvæmd hjá bókasafninu. Hugmyndin er að safnið yrði fræða- og menningarsetur líkt og eru starfrækt víða um land. Verkefnið styður við áherslur úr framtíðarsýn bókasafnsins um varðveislu og miðlun menningararfs auk þróunar og nýsköpunar. Sigrún Klara Hannesdóttir leggur m.a. upp með að félag um barnabókasafn skoði fræðasetur sem eru flest undir verndarvæng Háskóla Íslands. Ljóst er að bærinn þarf að styðja við hugmyndina ef hún á að verða að veruleika.

Menningar- og atvinnuráð felur Stefaníu Gunnarsdóttur að vinna áfram að málinu.

10. Fundargerðir sögunefndar Keflavíkur (2019050831)

Fundargerð sögunefndar Keflavíkur 27. janúar 2022 lögð fram.

Fylgiskjöl:

Fundargerð sögunefndar Keflavíkur 27. janúar 2022

11. Fundargerðir neyðarstjórnar (2022010209)

Fundargerð neyðarstjórnar lögð fram.

Með því að smella hér má skoða fundargerðir neyðarstjórnar á vef Reykjanesbæjar

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:08. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 1. mars 2022.