38. fundur

25.11.2022 08:30

38. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, haldinn í Bíósal Duus safnahúsa, 25. nóvember 2022, kl. 08:30

Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Eva Stefánsdóttir, Eydís Hentze Pétursdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon.

Að auki sátu fundinn Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Skemmtiferðaskip í Reykjanesbæ (2022110447)

Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri mætti á fundinn og fór yfir framtíðarstöðu hafnarstarfsemi Reykjaneshafnar.

Menningar- og atvinnuráð þakkar Halldóri fyrir greinargóða kynningu.

2. Atvinnumál (2021010176)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og fór yfir stöðu atvinnumála.

3. Varðveisluhúsnæði (2022030093)

Eva Kristín Dal safnstjóri byggðasafnsins mætti á fundinn og fór yfir þarfagreiningu á varðveisluhúsnæði Reykjanesbæjar. Gerð hefur verið ítarleg þarfagreining fyrir varðveislu- og geymsluhúsnæði sem myndi nýtast Byggðasafni Reykjanesbæjar, Listasafni Reykjanesbæjar, Bókasafni Reykjanesbæjar, skjaladeild, menningarfulltrúa, Hljómahöll og umhverfis- og skipulagssviði. Kröfur sem gerðar eru til varðveisluhúsa safna eru nokkuð sértækar en eru engu að síður nauðsynlegar til að tryggja viðunandi varðveisluaðstæður fyrir safnkost. Ný og betri aðstaða tryggir varðveislu menningararfsins og sögu sveitarfélagsins fyrir komandi kynslóðir.

Menningar- og atvinnuráð þakkar fyrir greinagóða þarfagreiningu og leggur áherslu á mikilvægi þess að koma þessum málum í góðan farveg.

4. Framkvæmdir í Duus húsum (2021050282)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi og Eva Kristín Dal safnstjóri byggðasafns mættu á fundinn og fóru yfir stöðu á framkvæmdum í Duus safnahúsum.

5. Prentsögusetur (2022110448)

Menningar- og atvinnuráð þakkar fyrir áhugavert erindi sem varðar möguleika á samstarfi við Prentsögusetur um uppsetningu prentsögusafns í Reykjanesbæ. Erindið samræmist ekki framtíðarsýn menningarmála í Reykjanesbæ og er því hafnað.

6. Jóladagskrá 2022 (2022090416)

Jóladagskrá menningarstofnana lögð fram. Menningar- og atvinnuráð fagnar fjölbreyttri dagskrá og hvetur bæjarbúa að taka þátt í viðburðum yfir jólahátíðarnar.

Fylgigögn:

Jóladagskrá 

7. Markaðsstefna Reykjanesbæjar (2021110284)

Vinna við markaðsstefnu eru á lokametrunum og verður lögð fram til umsagnar á næsta fundi ráðsins. Málinu frestað.

8. Fundargerðir listráðs (2022110452)

Fundargerð lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð listráðs

9. Listasafn Reykjanesbæjar (2021090215)

A. Kristinn Már Pálmason (f. 1967) myndlistarmaður hefur afhent Listasafni Reykjanesbæjar veglega gjöf sem telur 20 myndverk. Gjöfin samanstendur af verkum frá fyrstu sýningu listamannsins allt til dagsins í dag. Með gjöfinni varðveitir Listasafn Reykjanesbæjar, myndverk sem ná yfir allan feril listamannsins en Kristinn er fæddur og upp alinn í Keflavík.

Guðný Margrét Skarphéðinsdóttir, tengdadóttir Eggerts Guðmundssonar listmálara afhenti Listasafni Reykjanesbæjar 21 myndverk eftir Eggert Guðmundsson (1906 – 1983) sem fæddur var í Stapakoti í Innri-Njarðvík 30. desember 1906.

Menningar- og atvinnuráð færir Kristni og Guðnýju kærar þakkir fyrir veglegar gjafir sem falla vel að 1. gr. söfnunarstefnu listasafnsins sem kveður á um að stefnt skuli að því að listaverkaeign safnsins gefi góða mynd af verkum eftir listamenn Suðurnesja frá öllum tímum.

B. Listasafn Reykjanesbæjar, stofnar krakkaklúbb sem hefst með vinnustofum einu sinni í mánuði fram á vor. Safnið lítur á vinnustofurnar sem fyrsta áfanga í markvissu myndlistarstarfi sem opið er öllum almenningi og mun vonandi efli áhuga barna á myndlist. Fyrsta vinnustofan verður haldin sunnudaginn 11. desember nk. í umsjón Gunnhildar Þórðardóttur myndlistarmanns. Áætlaður tími er um ein klukkustund, allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

C. Tvær nýjar sýningar verða opnaðar í Listasafni Reykjanesbæjar laugardaginn 26. nóvember kl. 14:00. Annars vegar sýningin Línur, flækjur og allskonar sem er einkasýning Guðrúnar Gunnarsdóttur. Guðrún er er frumkvöðull á sviði þráðlistar og gefur sýning hennar góða mynd af þróun listamannsins frá myndvefnaði á áttunda áratug síðustu aldar, til þrívíddarmynda sem einkennir myndlist hennar í dag. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur. Safnið gefur út veglega bók í tilefni sýningarinnar. Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.

Hins vegar opnar sýning Vena Naskręcka og Michael Richardt sem kallast You Are Here / Jesteś tutaj / Du er her / Þú ert hér. Þau eru gjörningalistamenn og mun sýningin verða vitnisburður um hvar þau eru stödd á þessum ákveðna tímapunkti og skrásetning á því sem þeim er nú hugleikið. Þau eru hér og nú, erlendir ríkisborgarar á Íslandi, að setja mark sitt á Listasafn Reykjanesbæjar þar sem þau ríkja í ákveðinn tíma. Vena er fædd í Póllandi en býr og starfar í Reykjanesbæ. Michael er fæddur í Danmörku og á einnig ættir að rekja til Níger, hann býr og starfar í Reykjavík. Sýningarstjóri er Helga Arnbjörg Pálsdóttir. Sýningin er styrkt af Safnasjóði og listamennirnir eru styrktir af Myndlistarsjóði og Statens Kunstfond.
Sýningarnar standa til 5. mars 2023.

10. Pólska menningarhátíðin (2022070184)

Pólsk menningarhátíð Reykjanesbæjar var haldin með góðum árangri í fimmta sinn dagana 10.-13. nóvember. Helsta markmið hátíðarinnar er að hvetja íbúa af pólskum uppruna til aukinnar virkni og þátttöku í samfélaginu en einn af hverjum sex íbúum Reykjanesbæjar hefur pólskt ríkisfang. Annað markmið með Pólsku menningarhátíðinni er að lyfta upp menningu þessa stóra hóps og sýna hversu fjölbreyttur hann í raun er. Þetta var í síðasta sinn sem sveitarfélagið stendur fyrir hátíðinni með þessum hætti og afhendir nú keflið til íbúa. Reykjanesbær vonast eftir áframhaldandi ríkri þátttöku íbúa í hátíðarhaldi sveitarfélagsins, óháð aldri, uppruna, kyni eða öðru. Ráðið þakkar þeim stóra hópi sem kom að skipulagi, undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar.

11. Leikfélag Keflavíkur (2022050385)

Menningar- og atvinnuráð óskar Leikfélagi Keflavíkur til hamingju með metnaðarfulla starfsemi og glæsilega uppfærslu á Ronju Ræningjadóttur.

12. Mælaborð Súlunnar (2022030348)

Mælaborð lagt fram.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 6. desember 2022.