39. fundur

23.12.2022 10:00

39. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, haldinn á Park Inn by Radisson, 23. desember 2022, kl. 10:00

Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Eydís Hentze Pétursdóttir, Gunnar Jón Ólafsson og Sverrir Bergmann Magnússon.

Eva Stefánsdóttir boðaði forföll, Gunnar Jón Ólafsson sat fundinn.

Að auki sátu fundinn Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi, Betsý Ásta Stefánsdóttir fulltrúi ungmennaráðs og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Starfsáætlun 2023 (2022120121)

Starfsáætlun 2023 lögð fram.

Menningar- og atvinnuráð þakkar fyrir greinagóða starfsáætlun.

2. Fjárhagsáætlun 2023 (2022080148)

Fjárhagsáætlun 2023 lögð fram.

3. Menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2022 (2022090419)

Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar fyrir árið 2022, var afhent við hátíðlega athöfn í Duus safnahúsum þann 26. nóvember sl. Verðlaunin eru veitt þeim sem stutt hafa vel við menningarlíf sveitarfélagsins og var þetta í tuttugasta og sjötta sinn sem Súlan var afhent. Að þessu sinni hlaut Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur verðlaunin fyrir framlag sitt til uppbyggingar og eflingar Listasafns Reykjanesbæjar. Menningar- og atvinnuráð óskar Aðalsteini til hamingju með verðlaunin og færir honum þakkir fyrir áralanga vinnu og stuðning við Listasafn Reykjanesbæjar.

4. Listasafn Reykjanesbæjar (2021090215)

Listasafn Reykjanesbæjar hefur lagt fram eftirfarandi sýningaáætlun fyrir árið 2023:

Sýningaráætlun árið 2023 í lista- og bátasal:

1. Þú ert hér, Michael Richardt og Vena Naskrecka sýna í bátasal 26.11.22 – 05.03.23
2. Guðrún Gunnarsdóttir sýnir í listasal 26.11.22 – 05.03.23.
3. Sýning í samstarfi við Listaháskóla Íslands, MA nemar í sýningagerð 11.03.23 – 16.04.23
4. Listahátíð barna og ungmenna 19.04.23 – 07.05.23
5. Sýning Snorra Ásmundssonar (bátasal) 17.05.23 – 20.08.23
6. Sýning Bryndísar Ragnarsdóttur (listasal) 17.05.23 – 20.08.23
7. Ólafur Ólafsson og Libia Castro 31.08.23 – 19.11.23
8. Sýning um listferil Valgerðar Guðlaugsdóttur í listasal. Sýningastjórarnir Anna Hallin og Olga Bergmann, munu velja myndlist í anda Valgerðar til að sýna í bátasal. 02.12.23 – 03.03.24.

Aðrar sýningar á vegum Listasafns Reykjanesbæjar:

9. Ný aðföng, Listasafn Reykjanesbæjar setur upp 20 verk eftir Kristin Má Pálmason sem listamaðurinn afhenti safninu nýlega til varðveislu. Sýningin verður sett upp í bíósal.
10. Listasafn Reykjanesbæjar setur upp sýningu yfir sumarmánuðina í bíósal, þar sem einn eða fleiri listiðkendur í Reykjanesbæ eru valdir af starfsfólki listasafnsins til að sýna eigin verk.

5. Þrettándinn 2022 (2022090416)

Eftir þriggja ára röskun vegna heimsfaraldurs verður þrettándaskemmtun með hefðbundnum hætti haldin á nýjan leik föstudaginn 6. janúar. Hátíðin hefst kl. 18:00 með blysför frá Myllubakkaskóla þar sem gengið verður í fylgd álfakóngs, drottningar og hirðar þeirra að hátíðarsvæði við Hafnargötu 12. Foreldrar eru hvattir til að leyfa börnunum að taka virkan þátt í gleðinni með því að klæða sig upp í ýmis gervi, jafnvel púkagervi og auðvitað að taka lukt meðferðis í blysförina. Á hátíðarsvæðinu verður það sjálf Grýla sem tekur á móti hersingunni, álfar munu hefja upp raust sína og syngja þrettándasöngva og alls kyns kynjaverur verða á sveimi á svæðinu. Þrettándabrennan verður á sínum stað við Ægisgötu og gestum verður boðið upp á heitt kakó til að ylja sér. Í lok dagskrár verða jólin kvödd að hætti Björgunarsveitarinnar Suðurnes með glæsilegri flugeldasýningu. Karlakór Keflavíkur, Kvennakór Suðurnesja, Leikfélag Keflavíkur, Skátafélagið Heiðabúar, Björgunarsveitin Suðurnes og lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar taka þátt í dagskránni.

6. Jólahús 2022 (2022090416)

Menningar- og atvinnuráð fékk það skemmtilega verkefni að útnefna jólahús Reykjanesbæjar árið 2022 úr tilnefningum sem bárust frá íbúum í laufléttum jólaleik á aðventunni. Ráðið vill hrósa íbúum fyrir augljósan metnað þegar kemur að jólaskreytingum og þakkar þeim sem sendu inn tilnefningar. Að þessu sinni er það húsið að Heiðarbóli 19 sem hlýtur nafnbótina jólahús Reykjanesbæjar 2022. Eigendur hússins hljóta viðurkenningu frá Húsasmiðjunni sem afhent verða í Aðventugarðinum á Þorláksmessu. Ráðið færir Húsasmiðjunni þakkir fyrir sitt framlag við að lífga upp á mesta skammdegið.

7. Markaðsstefna Reykjanesbæjar (2021110284)

Drög að markaðsstefnu lögð fram til umsagnar. Menningar- og atvinnuráð óskar eftir umsögnum frá öðrum ráðum og nefndum bæjarins. Umsagnir eiga að berast fyrir lok janúar mánaðar 2023.

Menningar- og atvinnuráð lýsir yfir ánægju með drög að markaðsstefnunni og þakkar fyrir gott samstarfs um hana og metnaðarfulla vinnu við gerð hennar. Ráðið lýsir einnig yfir ánægju sinni með að markaðsmálum sé nú gert hærra undir höfði hjá Reykjanesbæ.

8. Jólakveðja (2022090416)

Menningar- og atvinnuráð færir þakkir til allra menningarhópa og styrkhafa úr menningarsjóði Reykjanesbæjar fyrir þeirra framlag til eflingar menningar og mannlífs í Reykjanesbæ á árinu sem er að líða. Ráðið horfir björtum augum til áframhaldandi samstarfs á komandi ári og minnir á að opnað verður fyrir styrkumsóknir í menningarsjóð í janúar. Ráðið felur menningarfulltrúa að undirbúa það verkefni.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:45. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 3. janúar 2023.