43. fundur

25.04.2023 13:15

43. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 25. apríl 2023, kl. 13:15

Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Eva Stefánsdóttir, Eydís Hentze Pétursdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon.

Að auki sátu fundinn Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi, Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri þjónustu- og menningarsviðs, Íris Andrea Guðmundsdóttir og Íris Eysteinsdóttir ritarar.

Menningar- og atvinnuráð samþykkti að eftirfarandi máli yrði bætt á dagskrá: Stefnumótun Hljómahallar – Tilboð (2023020577) fjallað er um málið undir dagskrárlið 2.

1. Upplýsingatækniöryggi (2022021198)

Magnús Bergmann Hallbjörnsson verkefnastjóri tölvu- og upplýsingatækniöryggis mætti á fundinn og fór yfir málefni upplýsingatækniöryggis í Reykjanesbæ.

2. Stefnumótun Hljómahallar – Tilboð (2023020577)

Tómas Viktor Young framkvæmdastjóri Hljómahallar mætti á fundinn og fór yfir tilboð fyrir stefnumótun Hljómahallar.

Málið verður unnið áfram og tekið fyrir á næsta fundi.

3. Ferðamál Reykjanesbæjar (2023040346)

Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri þjónustu- og menningarsviðs mætti á fundinn og fór yfir áherslur í ferðamálum.

Menningar- og atvinnuráð vekur athygli á fjárskorti í málaflokknum.

4. Nafnakall á íbúavef (2023040347)

Menningar- og atvinnuráð fór yfir tillögur íbúa um nafn á íbúavef bæjarins.

Menningar- og atvinnuráð þakkar fyrir góðar hugmyndir frá íbúum. Málið unnið áfram.

5. BAUN - Barna- og ungmennahátíð Reykjanesbæjar (2023020574)

BAUN, barna- og ungmennahátíð fer fram dagana 27. apríl - 7. maí. Á hátíðinni eru börn, ungmenni og fjölskyldur settar í forgang með fjölbreyttum og skemmtilegum hætti. Markmið hátíðarinnar eru meðal annars að auka lífsgæði og vellíðan barna og íbúa Reykjanesbæjar og að skapa vettvang fyrir börn og fjölskyldur til virkrar þátttöku í samfélaginu. Öll börn í leikskólum og í 1. – 7. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar fá afhent BAUNabréfið. Menningar- og atvinnuráð hvetur íbúa til virkrar þátttöku á hátíðinni.

6. 17. júní 2023 (2023020576)

Menningar- og atvinnuráði er falið að koma með tillögur að ræðumanni dagsins og fánahylli fyrir hátíðardagskrá 17.júní.

7. Viðhald og framkvæmdir þjónustu- og menningarsviðs 2024 (2023040348)

Kynntar voru óskir um viðhald og framkvæmdir sviðsins á árinu 2024.

8. Mælaborð (2023030563)

Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri þjónustu- og menningarsviðs kynnti ársfjórðungsmælaborð.

9. Listasafn Reykjanesbæjar (2023030561)

Gjafir bárust til Listasafns Reykjanesbæjar í kjölfar sýninganna: Línur, flækjur og allskonar, einkasýningar Guðrúnar Gunnarsdóttur og You Are Here / Jesteś tutaj / Du er her / Þú ert hér samsýningar þeirra Vena Naskrecka og Michael Richardt. Sýningarnar stóðu yfir frá 26. nóvember 2022 til 5. mars 2023.

Guðrún Gunnarsdóttir (1948) gefur verkið Hringiða I frá árinu 2022 sem unnið er með vatnslitum á vatnslitapappír, klippt og límt. Guðrún er frumkvöðull á sviði þráðlistar og gaf sýningin Línur, flækjur og allskonar góða mynd af þróun listamannsins frá myndvefnaði áttunda áratugar síðustu aldar, til þrívíddamynda líkt og Hringiða I sem einkenna myndlist hennar í dag.

Vena Naskrecka (1986) gefur verkið Re-Covery, plastskúlptúr sem varð til sem partur af innsetningu og gjörningi listamannsins sem stóð yfir allt sýningartímabil You Are Here / Jesteś tutaj / Du er her / Þú ert hér, 26. nóvember 2022 – 5. mars 2023. Vena safnaði sjávarplasti í Sandvík á Reykjanesskaga og flutti það til Listasafns Reykjanesbæjar þar sem hún þreif, flokkaði og byggði úr því skúlptúr.

Menningar- og atvinnuráð þakkar listamönnunum fyrir góðar gjafir til Listasafns Reykjanesbæjar.

10. Bókasafn Reykjanesbæjar (2023030562)

Þann 31. mars var Erlingskvöld haldið til heiðurs fyrrum bæjarlistamanni Keflavíkur, Erlingi Jónssyni. Kvöldið er helgað menningu en það eru 20 ár síðan safnið hélt fyrsta Erlingskvöldið og heiðraði listamanninn en árið 2002 gaf Erlingur safninu listaverkið ,,Laxnessfjöðrin" sem nú stendur við gamla Barnaskólann við Skólaveg. Rithöfundarnir Óskar Magnússon, Auður Ava Ólafsdóttir og Pedro Gunnlaugur Garcia lásu upp úr nýjustu verkum sínum. Arnar Fells Gunnarsson, ungur vinur Erlings flutti minningarorð en Erlingur lést á síðasta ári. Gestir nutu ljúfra tóna djasssveitar Tónlistaskóla Reykjanesbæjar.

Dagskráin Mín saga fór fram í bókasafninu þann 24. apríl. Þar kynnti rithöfundurinn Kristín Guðmundsdóttir léttlestrarbókina Birtir af degi, sem ætluð er fólki af erlendum uppruna. Þá opnaði sýningin Heima er þar sem hjartað slær – ferðalag milli byggðarlaga en bókasafnið hlaut styrk frá bókasafnasjóði 2022 fyrir verkefnið og ferðuðust listakonurnar Anna María Cornette og Gillian Pokalo um landið til fjögurra bæjarfélaga og héldu vinnustofur og sýningu í samvinnu við bókasöfn á hverjum áfangastað. Sýningin er sú síðasta í röð fimm sýninga og er samvinnuverkefni Bókasafns Reykjanesbæjar og Ísafjarðar, Egilsstaða, Dalvíkur og Árborgar.

Dagskránni lauk með frásögnum flóttafólks frá fjórum löndum en þau Khalifa Mushib (Írak), Natalia Zhyrnova (Úkraína), Anibal Guzman (Venesúela) og Hadia Rahmani (Afganistan) deildu upplifun sinni af því að flýja erfiðar aðstæður í heimalandi sínu.

11. Leikfélag Keflavíkur (2023040349)

Menningar- og atvinnuráð óskar Leikfélagi Keflavíkur til hamingju með vel heppnaða og stórskemmtilega uppsetningu á revíunni Suðurnesjasvakasýn sem skrifuð var af nokkrum meðlimum leikfélagsins í leikstjórn Eyvindar Karlssonar.

12. Kvennakór Suðurnesja (2023040350)

Menningar- og atvinnuráð óskar Kvennakór Suðurnesja til hamingju með vel heppnaða vortónleika en kórinn fagnar 55 ára afmæli í ár og báru tónleikarnir yfirskriftina „Ást og friður“ í anda ársins 1968.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.05. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 2. maí 2023.