45. fundur

27.06.2023 13:15

45. fundur menningar- og þjónusturáðs Reykjanesbæjar var haldinn í bíósal Duus húsa þann 27. júní 2023, kl. 13:15

Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Eva Stefánsdóttir, Eydís Hentze Pétursdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon.

Að auki sátu fundinn Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi og Íris Eysteinsdóttir ritari.

1. Listasafn Reykjanesbæjar (2023030561)

Helga Þórsdóttir mætti á fundinn og kynnti starfsemi Listasafns Reykjanesbæjar. Menningar- og þjónusturáð þakkar Helgu fyrir góða kynningu.

2. Erindisbréf menningar- og þjónusturáðs (2023050182)

Samþykkt erindisbréf menningar- og þjónusturáðs lagt fram.

3. Mannauðsstefna Reykjanesbæjar 2023 (2023040237)

Bæjarráð óskar eftir umsögn um drög að mannauðsstefnu Reykjanesbæjar 2023.

Trausta Arngrímssyni formanni menningar- og þjónusturáðs er falið að koma athugasemdum ráðsins til bæjarráðs.

4. Vefstefna Reykjanesbæjar (2023060380)

Vinnuskjöl nýrrar vefstefnu lögð fram til rýnis fyrir ráðið. Athugasemdir skulu berast sviðsstjóra fyrir ágústlok 2023.

5. Greiningarvinna á menningarhúsum (2022110463)

Á fundi bæjarráðs þann 15. júní sl. var samþykkt að skipa fimm manna verkefnahóp. Í hópinn voru skipuð Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi, Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs, Stefanía Gunnarsdóttir forstöðumaður bókasafns og frá meirihlutanum Friðjón Einarsson. Hlutverk hópsins er að vinna að hönnun og kostnaðarmati vegna mögulegs flutnings Bókasafns Reykjanesbæjar. Verkefninu skal lokið fyrir 1. ágúst 2023. Formanni bæjarráðs falið að kalla hópinn saman. Óskað var eftir tilnefningu frá minnihluta í starfshópinn.

Menningar- og þjónusturáð leggur áherslu á að vinnan feli í sér framtíðarlausn fyrir menningarhúsin.

6. 17. júní 2023 (2023020576)

Skýrsla um undirbúning og framkvæmd 17. júní hátíðarhalda lögð fram.

Þjóðhátíðardegi Íslendinga var fagnað í Reykjanesbæ með hátíðardagskrá og skemmtidagskrá sem fram fór í miklu fjölmenni í skrúðgarðinum í Keflavík og heppnaðist einkar vel.

Fánahylling: Sólveig Þórðardóttir ljósmyndari.

Setningarávarp: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður bæjarráðs.

Ávarp fjallkonu: Valý Rós Hermannsdóttir nýstúdent.

Ræðumaður dagsins: Jóhann Smári Sævarsson, óperusöngvari, söngkennari, leikstjóri og stjórnandi.

Menningar- og þjónusturáð þakkar verkefnastjóra viðburða fyrir greinargóða skýrslu og vel unnin störf og færir þakkir til allra þeirra sem komu að undirbúningi og framkvæmd 17. júní.

Um leið hvetur menningar- og þjónusturáð til þess að 17. júní og aðrir stærri viðburðir á vegum Reykjanesbæjar verði samstarfsverkefni fleiri sviða og stofnana Reykjanesbæjar.

7. Bókasafn Reykjanesbæjar (2023030562)

Greinargerð frá bókasafninu um Noregsheimsókn starfsfólks lögð fram. Menningar- og þjónusturáð þakkar fyrir greinargóða umfjöllun.

Lögð fram yfirlýsing Samtaka forstöðumanna almenningsbókasafna. Ráðið tekur undir með forstöðumönnum almenningsbókasafna og ítrekar mikilvægi þeirra í samtímanum.

Garðyrkjufélag Suðurnesja hlaut styrk í verkefnið Andrými og hefur í samstarfi við Bókasafn Reykjanesbæjar og umhverfis- og skipulagssvið sett upp samfélagsgarð við Tjarnargötu 12. Í garðinum verða gróðursettar plöntur, grænmeti og kryddjurtir auk þess sem aðstaðan í garðinum verður gerð aðlaðandi fyrir íbúa. Unnið er út frá deilihagkerfi bókasafna, þar sem hlutirnir eru samnýttir. Markmiðin eru inngilding, lærdómur og sjálfbærni. Samtímis voru settar tvær gerðir af kryddjurtum inn í heimilishorn bókasafnsins þar sem gestir geta klippt af basilíku eða kóríander og tekið með sér heim.

Menningar- og þjónusturáð vonar að verkefnið heppnist vel og að það verði líf og fjör í garðinum í allt sumar.

Fylgigögn:

Yfirlýsing SFA, Samtaka forstöðumanna almenningsbókasafna

8. BAUN - Barna- og ungmennahátíð Reykjanesbæjar (2023020574)

Skýrsla um BAUN, barna- og ungmennahátíð í Reykjanesbæ sem fram fór dagana 27. apríl - 7. maí sl. lögð fram.

Menningar- og þjónusturáð þakkar verkefnastjóra viðburða fyrir greinargóða skýrslu og vel unnin störf.

9. Menningartengd starfsemi í Reykjanesbæ fyrir börn og ungmenni (2023060383)

Samantekt um menningartengda starfsemi fyrir börn og ungmenni lögð fram.

10. Jól og áramót 2023 (2023060384)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi fór yfir stöðu fjárhags á bókhaldslyklinum jól, áramót og þrettándi. Í ljósi stöðunnar er nauðsynlegt að óska eftir viðbótarfjármagni svo hægt verði að opna Aðventugarðinn líkt og fyrri ár. Guðlaug fór yfir kostnaðarliði og mögulegar útfærslur á opnun garðsins.

Menningar- og þjónusturáð leggur áherslu á að viðbótarfjármagn fáist í verkefnið sem er íbúum til gleði og ánægju og stuðlar að jákvæðum og góðum samskiptum á meðal þeirra. Menningar- og þjónusturáð vísar málinu til bæjarráðs og einnig til umræðu í næstu fjárhagsáætlunargerð.

11. Byggðasafn Reykjanesbæjar 2023 (2023060317)

Byggðasafn Reykjanesbæjar hefur opnað nýja sýningu í Bryggjuhúsinu sem ber heitið Ásjóna: Íbúar bæjarins í gegnum tíðina. Á sýningunni má sjá myndir af einstaklingum sem hafa búið á Reykjanesi og eiga myndirnar það sameiginlegt að hafa borist safninu í myndarömmum. Þær myndir sem fá þann sess að vera settar í ramma og hafðar til sýnis hafa yfirleitt ákveðið gildi í augum eigandans. Þær sýna gjarnan ástvini sem eru fjarri eða eru teknar við tímamót í lífinu. Væntumþykja, stolt eða söknuður eru meðal þeirra tilfinninga sem eru tjáð með þessum hætti.

Á sýningunni má finna myndir eftir marga af helstu ljósmyndurum sem störfuðu hérlendis undir lok 19. aldar og á fyrri hluta þeirrar 20. Þær elstu eru líklega um 140 ára gamlar og gefur sýningin ágætis innsýn í það hversu merkilegar ljósmyndir safnið hefur að geyma.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14.35. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarráðs 29. júní 2023.