49. fundur

24.11.2023 08:30

49. fundur menningar- og þjónusturáðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 24. nóvember 2023 kl. 08:30

Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Eva Stefánsdóttir, Elfa Hrund Guttormsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon.

Að auki sat fundinn Þórdís Ósk Helgadóttir, sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs.

Eydís Hentze Pétursdóttir boðaði forföll og sat Elfa Hrund Guttormsdóttir fundinn í hennar stað.


1. Fjárhagsáætlun 2024 (2023080020)

Þórdís Ósk Helgadóttir, sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs, fór yfir áherslur deilda sviðsins fyrir árið 2024.

2. Jóladagskrá 2023 (2023110360)

Jóladagskrá menningarstofnana lögð fram. Menningar- og þjónusturáð fagnar fjölbreyttri dagskrá og hvetur bæjarbúa til að taka þátt í viðburðum á aðventunni.

Fylgigögn:

Jóladagskrá menningarstofnana Reykjanesbæjar
Með því að smella hér má skoða viðburðadagatal á visitreykjanesbaer.is

3. Leikfélag Keflavíkur (2023040349)

Menningar- og þjónusturáð óskar Leikfélagi Keflavíkur til hamingju með skemmtilega uppfærslu á leikritinu Jólasaga í Aðventugarðinum og hvetur íbúa til að láta hana ekki fram hjá sér fara. Verkið er byggt á Jólasögu Charles Dickens sem sett hefur verið í nútímabúning og gerist á Suðurnesjum.

4. Karlakór Keflavíkur (2023050457)

Menningar- og þjónusturáð óskar Karlakór Keflavíkur til hamingju með 70 ára afmæli kórsins 1. desember nk. og glæsilega afmælistónleika í Hljómahöll í tilefni þess þann 11. nóvember, þar sem farið var yfir sögu kórsins í máli, myndum og kröftugum söng.

5. Listasafn Reykjanesbæjar (2023030561)

Menningar- og þjónusturáð óskar Listasafni Reykjanesbæjar og sýningarstjórunum Önnu Hallin, Olgu Bergmann og Guðrúnu Veru Hjartardóttur til hamingju með opnun sýningarinnar Tileinkun sem helguð er minningu Valgerðar Guðlaugsdóttur myndlistarkonu sem búsett var í Höfnum. Ráðið hvetur íbúa til að skoða þessa einstaklega fallegu sýningu sem stendur til 11. febrúar 2024.

6. Ferðamálastefna Reykjanesbæjar (2023090556)

Vinna við ferðamálastefnu Reykjanesbæjar var kortlögð. Sviðsstjóra falið að vinna málið áfram.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:25. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 5. desember 2023.