50. fundur

22.12.2023 10:00

50. fundur menningar- og þjónusturáðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 22. desember 2023, kl. 10:00

Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Eva Stefánsdóttir, Elfa Hrund Guttormsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon.

Að auki sátu fundinn Þórdís Ósk Helgadóttir, sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs, Betsý Ásta Stefánsdóttir og Sóley Guðjónsdóttir fulltrúar ungmennaráðs og Íris Eysteinsdóttir ritari.

Eydís Hentze Pétursdóttir boðaði forföll og sat Elfa Hrund Guttormsdóttir fundinn í hennar stað.

1. Byggðasafn (2023120292)

Eva Kristín Dal safnstjóri byggðasafnsins mætti á fundinn og fór yfir nýjar áherslur byggðasafnsins. Lagði hún fram nýja stefnu safnsins og söfnunarstefnu ásamt endurmörkun á markaðsefni safnsins. Gögnin eru lögð fram til umsagnar og tekið aftur fyrir á nýju ári.

2. Hljómahöll (2023120295)

Tómas Young mætti á fundinn og fór yfir hugmyndir að styrkjum til viðburðarhalds í Hljómahöll.

Tómas kynnti fyrirhugaða styrki til tónleikahalds í Hljómahöll. Markmiðið með styrkjunum er auka aðgengi hópa að viðburðahaldi í sviðslistum í sölum Hljómahallar sem myndu annars ekki eiga kost á viðburðahaldi í húsinu, að styðja við að sem fjölbreyttasti hópur listafólks fái tækifæri til að koma fram í Hljómahöll og að auka nýtingu á salarkynnum og aðstöðu í Hljómahöll.

Sjóðurinn er ætlaður ungum listamönnum og fólki sem er ungt í list sinni þar sem það þykir fyrirséð að innkoma viðburðarins myndi annars ekki standa straum af kostnaði við viðburðahaldið.

Lögð er áhersla á að veita fyrst viðburðum styrki til viðburðahalds sem uppfylla framangreindar skilgreiningar. Aðrir styrkhæfir viðburðir eru góðgerðarviðburðir, viðburðir ætlaðir börnum eða eldri borgurum þar sem enginn aðgangseyrir er greiddur.

Í styrknum felst salaleiga, tímar tæknimanna, afnot af tæknibúnaði Hljómahallar & starfsfólk í miðasölu. Ef óskað er eftir þjónustu umfram það sem felst í styrknum greiða listamenn sérstaklega fyrir það. Af miðasölunni er dregin frá miðagjöld Tix.is og STEF-gjöld. Að öðru leyti rennur miðasala til listamanna.

Menningar- og þjónusturáð fagnar tilkomu styrkjanna og leggur til að styrkurinn sé vel kynntur á komandi ári.

3. Fjárhagsáætlun 2024 (2023080020)

Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri Menningar- og þjónustusviðs fór yfir lokaniðurstöðu fjárhagsáætlunar 2024.

4. Styrkir 2023 (2023120291)

Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs fór yfir yfirlit á þeim styrkjum sem borist höfðu á árinu 2023.

5. Starfsáætlanir 2024 (2023110335)

Starfsáætlanir deilda menningar- og þjónustusviðs fyrir árið 2024 voru lagðar fram.

6. Ferðamálastefna Reykjanesbæjar (2023090556)

Farið var yfir stöðu vinnu við ferðamálastefnu Reykjanesbæjar og næstu skref.

7. Greiningarvinna á menningarhúsum (2022110463)

Farið var yfir áætlun og vinnu fyrir uppbyggingu menningarhúsa sveitarfélagsins.

Erindi hefur verið sent Eignasjóði Reykjanesbæjar þar sem óskað er eftir að Svarta pakkhússinu verði komið í nothæft ástand svo það geti orðið aðsetur menningarhópa í sveitarfélaginu og nothæft fjölnota menningarhús með lifandi menningarstarfsemi þar sem boðið verður upp á námskeið, myndlistarskóla, vinnustofur, vinnuaðstöðu, sýningar og viðburði af ýmsum toga. Ástand hússins í dag er óviðunandi og ekki boðlegt undir neina starfsemi. Þá hefur einungis verið hægt að nýta jarðhæð hússins en góð aðstaða er á efri hæð sem ekki hefur verið hægt að nýta vegna skorts á brunavörnum. Sú staða er upp í dag að ýmsir menningarhópar í sveitarfélaginu hafa ekki aðsetur undir starfsemi sína og eru á hrakhólum. Svarta pakkhúsið er eina húsnæðið sem menningar- og þjónustusvið hefur til umráða og getur nýst til slíkrar starfsemi.

Menningar- og þjónusturáð styður hugmyndina um að Svarta pakkhúsið verði að fjölnota menningarhúsi fyrir starfandi menningarhópa í sveitarfélaginu og leggur áherslu á að farið verði í viðhald á húsnæðinu sem fyrst.

8. Listasafn Reykjanesbæjar (2023030561)

Listasafn Reykjanesbæjar hefur lagt fram eftirfarandi sýningaáætlun fyrir árið 2024:

24. febrúar: Opnun Libia Castro & Ólafur Ólafsson, sýningin stendur til sunnudagsins 28. apríl.

3. maí: Opnun Listahátíð barna og ungmenna 2024, til sunnudagsins 12. maí.

25. maí: Opnun Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir, sýningin stendur til sunnudagsins 18. ágúst

7. september: Ljósanótt 2024: Opnun Bjarni Sigurbjörnsson, fremri listasalur. Sýningin stendur til sunnudagsins 5. janúar 2025

8. september: Ljósanótt 2024: Opnun Kristinn Már Pálmason, listasalur sjávar megin, úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar og ný verk. Sýningin stendur til sunnudagsins 5. janúar 2025.

9. Duus handverk (2023100416)

Erindi barst menningar- og þjónusturáði með ósk um húsnæðisstuðning frá bæjarfélaginu fyrir Duus handverk. Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í húsnæðismálum fyrir menningarhópa í sveitarfélaginu er ekki unnt að verða við erindinu (sjá mál nr. 7).

10. Þrettándinn 2024 (2023120294)

Jólin verða kvödd laugardaginn 6. janúar með árlegri þrettándaskemmtun. Dagskrá hefst kl. 17:00 með blysför frá Myllubakkaskóla þar sem gengið verður í fylgd álfakóngs, drottningar og hirðar þeirra að hátíðarsvæði við Hafnargötu 12. Þar tekur Grýla á móti mannskapnum, álfar hefja upp raust sína og syngja þrettándasöngva og alls kyns kynjaverur verða á sveimi á svæðinu. Þrettándabrennan verður á sínum stað við Ægisgötu og gestum verður boðið upp á heitt kakó til að ylja sér. Í lok dagskrár verða jólin kvödd að hætti Björgunarsveitarinnar Suðurnes með glæsilegri flugeldasýningu. Karlakór Keflavíkur, Kvennakór Suðurnesja, Leikfélag Keflavíkur, Skátafélagið Heiðabúar, Björgunarsveitin Suðurnes og lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar taka þátt í dagskránni.

11. Jólahús 2023 (2023060384)

Menningar- og þjónusturáð fékk það skemmtilega verkefni að útnefna jólahús Reykjanesbæjar árið 2023 úr fjölmörgum tilnefningum sem bárust frá íbúum í laufléttum jólaleik á aðventunni. Ráðið vill hrósa íbúum fyrir augljósan metnað þegar kemur að jólaskreytingum en skreytingarnar setja svo sannarlega svip sinn á bæinn og gleðja unga sem aldna í mesta skammdeginu. Ráðið færir einnig þakkir öllum þeim sem gáfu sér tíma til að senda inn tilnefningar að skemmtilega skreyttum húsum. Ráðið er sammála um að erfitt hafi reynst að velja eitt hús úr þeim hópi tilnefninga sem bárust en að lokum var það samdóma álit að Borgarvegur 20 hljóti nafnbótina Jólahús Reykjanesbæjar árið 2023. Eigendur hússins hljóta verðlaun frá Húsasmiðjunni í Reykjanesbæ sem afhent verða í Aðventugarðinum á Þorláksmessu. Ráðið óskar íbúum jólahússins til hamingju um leið og það færir Húsasmiðjunni þakkir fyrir sitt framlag við að lýsa upp bæinn á Aðventunni.

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi sat fundinn undir þessu máli.

12. Ljósanótt 2023 (2023030560)

Lokaskýrsla um Ljósanótt 2023 lögð fram.

Menningar- og þjónusturáð þakkar fyrir greinargóða skýrslu.

13. Menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2023 (2023090555)

Magnús Jón Kjartansson tónlistarmaður hlaut Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar, við hátíðlega athöfn í Rokksafni Íslands þann 25. nóvember sl. Verðlaunin hlaut Magnús fyrir framlag sitt til dægurlagatónlistar og tónlistarlífs í Reykjanesbæ en þau eru veitt þeim sem stutt hafa vel við menningarlíf sveitarfélagsins og var þetta í tuttugasta og sjöunda sinn sem Súlan var afhent. Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir listakonuna Elísabetu Ásberg og er hún tilvísun í Súluna sem finna má í merki Reykjanesbæjar.

14. Mælaborð Q3 (2023030563)

Mælaborð lagt fram.

15. Jólakveðja 2023 (2023060384)

Menningar- og þjónusturáð færir þakkir til allra menningarhópa og styrkhafa úr menningarsjóði Reykjanesbæjar fyrir þeirra framlag til eflingar menningar og mannlífs í Reykjanesbæ á árinu sem er að líða. Einnig þakkar ráðið öllum þeim sem lagt hafa af mörkum til menningarlífs sveitarfélagsins á árinu svo sem á hátíðum og viðburðum bæjarins. Ráðið horfir björtum augum til áframhaldandi samstarfs á komandi ári og minnir á að opnað verður fyrir styrkumsóknir í menningarsjóð í janúar. Ráðið felur menningarfulltrúa að undirbúa það verkefni.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11.42. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 9. janúar 2024.