52. fundur

22.02.2024 08:30

52. fundur menningar- og þjónusturáðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 22. febrúar 2024 kl. 08:30

Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Eva Stefánsdóttir, Elfa Hrund Guttormsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon.

Að auki sátu fundinn Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi, Sóley Guðjónsdóttir fulltrúi ungmennaráðs og Íris Eysteinsdóttir ritari.

1. Barna- og ungmennaþing Reykjanesbæjar 19. október 2023 - niðurstöður (2023110099)

Ólafur Bergur Ólafsson umsjónarmaður ungmennaráðs og Sóley Guðjónsdóttir fulltrúi ungmennarás mættu á fundinn og kynntu niðurstöður barna- og ungmennaþings Reykjanesbæjar sem haldið var 19. október 2023.

Menningar- og þjónusturáð þakkar Ólafi Bergi og Sóleyju kærlega fyrir greinargóða kynningu á niðurstöðum barna- og ungmennaþings Reykjanesbæjar.

2. Hljómahöll - styrkir til viðburðarhalds (2023120295)

Tómas Young framkvæmdastjóri Hljómahallar mætti á fundinn og lagði fram drög að reglum um styrki til viðburðahalds í Hljómahöll.

Menningar- og þjónusturáð þakkar Tómasi fyrir vel unnin störf og lýsir ánægju sinni með þetta verkefni sem getur orðið stökkpallur fyrir upprennandi listafólk.

Menningar- og þjónusturáð samþykkir úthlutunarreglur um styrki til viðburðahalds í Hljómahöll.

3. Menningarkort (2022110445)

Tómas Young framkvæmdastjóri Hljómahallar mætti á fundinn og fór yfir þróun á menningarkorti Reykjanesbæjar og ferðamannakorti sem er í vinnslu.

Menningarkortið er stafrænt árskort fyrir íbúa sem og gesti sem heimsækja menningarhús Reykjanesbæjar reglulega. Árskortið kostar 2000 kr. og veitir aðgang að Rokksafni Íslands og Duus safnahúsum en þar eru til húsa sýningarsalir Listasafns Reykjanesbæjar, Byggðasafns Reykjanesbæjar og gestastofa Reykjaness jarðvangs.

Kortunum fylgir 10% afsláttur í safnbúð Duus safnahúsa og 10% afsláttur af tónlist og fatnaði í verslun Rokksafns Íslands auk þess sem gestum er boðinn ókeypis kaffibolli á báðum stöðum.

Hugmyndin með ferðamannakortinu er að selja ferðafólki í sveitarfélaginu eitt kort sem veitir aðgang að öllum helstu þjónustum sveitarfélagsins. Fyrirhugað er að innifalið í kortinu verði aðgangur að Duus safnahúsum, Rokksafni Íslands, sundlaugum og strætókerfi Reykjanesbæjar. Kortið kemur til með að gilda í 48 tíma frá því að það er keypt. Áætlað er að kortið veiti ýmis önnur fríðindi s.s. afslætti í safnaverslunum, á veitingastöðum og í verslunum.

Menningar- og þjónusturáð tekur jákvætt í erindið.

4. Menningarsjóður 2024 (2024010419)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi fór yfir umsóknir sem bárust í menningarsjóð.

Alls bárust 27 umsóknir um verkefnastyrki upp á tæpar 16 milljónir króna og 14 menningarhópar sóttu um að fá þjónustusamning við sveitarfélagið. Heildarupphæð menningarsjóðs til úthlutunar eru kr. 5.641.693,- Meginmarkmið sjóðsins er að styrkja verkefni sem eru líkleg til að efla menningarstarfsemi í Reykjanesbæ. Ráðið tók ákvörðun um átta verkefni sem hljóta styrk að þessu sinni að upphæð kr. 3.400.000,- og kr. 2.050.000 verður veitt í þjónustusamninga við 11 starfandi menningarhópa í sveitarfélaginu.

Vegna fjölgunar styrkumsókna í sjóðinn og kraftsins í samfélaginu leggur menningar- og þjónusturáð til að upphæð sjóðsins verði endurskoðuð í næstu fjárhagsáætlunargerð.

Fylgigögn:

Menningarsjóður Reykjanesbæjar 2024 - úthlutanir

5. Hafnargata 2a og 2b (2022110463)

Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs sat fundinn í gegnum fjarfundabúnað í þessu máli.

Farið var yfir vinnu ráðsins við stefnumótun fyrir Hafnargötu 2a og 2b (Fischersreit).

Menningar- og þjónusturáð leggur fram eftirfarandi tillögu:

Að framtíðarskipulag í kringum Svarta pakkhúsið þ.e. frá Svarta pakkhúsinu að gamla dráttarbrautarreit verði þróað með tilliti til menningartengdrar ferða- og atvinnustarfsemi og tengt við önnur nálæg þróunarsvæði.

Einnig leggur menningar- og þjónusturáð að gerður verði samningur við menningarhópa fyrir neðri hæð Svarta pakkhússins til eins árs í senn á meðan skoðað verði framtíðarhúsnæði fyrir þar til gerða hópa.

Menningar- og þjónusturáð felur Trausta Arngrímssyni formanni að vinna málið áfram.

6. Menningarhús Reykjanesbæjar - stefnumótun (2024020298)

Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs sat fundinn í gegnum fjarfundabúnað í þessu máli.

Menningar- og þjónusturáð telur mikilvægt að heildarsýn sé til staðar fyrir uppbyggingu menningarmála í Reykjanesbæ líkt og fram kemur í menningarstefnu Reykjanesbæjar. Menningar- og þjónusturáð óskar eftir yfirliti um menningarhús sveitarfélagsins og starfsemi þeirra.

7. Ferðamál (2023040346)

Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs sat fundinn í gegnum fjarfundabúnað í þessu máli.

Farið var yfir stöðu vinnu við ferðamálastefnu Reykjanesbæjar og næstu skref.

8. Mælaborð 2023 (2023030563)

Erindi frestað.

9. BAUN - barna- og ungmennahátíð (2024020299)

Undirbúningur fyrir BAUN, barna- og ungmennahátíð í Reykjanesbæ er hafinn og fer hátíðin fram dagana 2. til 12. maí 2024. Yfirmarkmið Baunarinnar er að auka lífsgæði og vellíðan barna og íbúa. Þrjú meginverkefni hátíðarinnar eru listahátíð barna í Duus safnahúsum, hæfileikahátíð grunnskólanna í Stapa og BAUNabréfið sem er leiðarvísir fyrir börn og fjölskyldur að margs konar skemmtilegum verkefnum í bænum.

Menningar- og þjónusturáð hvetur stofnanir, félagasamtök og fyrirtæki að huga sérstaklega að börnum og fjölskyldum þeirra á þessu tímabili og bjóða upp á dagskrá, viðburði, fræðslu, tilboð eða annað sem við á og tengja sig þannig við hátíðina. Menningarfulltrúi veitir nánari upplýsingar um málið.

10. Aðventugarðurinn 2023 (2023100410)

Erindi frestað.

11. Aðventusvellið 2023 (2024020300)

Skýrsla frá rekstraraðilum Aðventusvellsins lögð fram. Rekstur svellsins gekk vel og gestafjöldi ríflega þrefaldaðist frá fyrra ári.

Menningar- og þjónusturáð þakkar rekstraraðilum þeirra framlag.

12. Markaðsmál (2024020301)

Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs sat fundinn í gegnum fjarfundabúnað í þessu máli.

Lagðar voru fram tillögur að afmælislógói sveitarfélagsins í ljósi 30 ára afmæli þess. Menningar- og þjónusturáð þakkar fyrir kynninguna á afmælislógói Reykjanesbæjar og sér fram á viðburðarríkt ár þar sem lógóið verður sýnilegt á þeim viðburðum sem tengjast því.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.50. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 5. mars 2024.