53. fundur

22.03.2024 08:30

53. fundur menningar- og þjónusturáðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 22. mars 2024, kl. 08:30

Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Eva Stefánsdóttir, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon.

Að auki sátu fundinn Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs og Íris Eysteinsdóttir ritari.

Elfa Hrund Guttormsdóttir boðaði forföll. Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir sat fundinn í hennar stað.

1. Greiningarvinna á menningarhúsum (2022110463)

Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs fór yfir stöðu húsa Reykjanesbæjar sem heyra undir menningar- og þjónustusvið.

2. Mælaborð 2023 (2023030563)

Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs fór yfir mælaborð 2023.

3. Reykjanesfólkvangur (2024010398)

Sverrir Bergmann Magnússon kynnti starfsemi og tilgang Reykjanesfólkvangs og leggur til að Reykjanesbær gangi úr Reykjanesfólkvangi.

Menningar- og þjónusturáð samþykkir tillöguna 4-0.

Birgitta Rún Birgisdóttir (D) situr hjá.

4. Fugla- og steinasafn (2024030445)

Menningar- og þjónusturáð samþykkir að fugla- og steinasafni verði ráðstafað í samræmi við tillögu safnstjóra Byggðasafnsins.

5. Ferðamál (2023040346)

Farið var yfir stöðu vinnu við ferðamálastefnu Reykjanesbæjar og næstu skref.

Þann 5. mars síðastliðinn stóð Reykjanesbær fyrir ráðstefnu í Hljómahöll sem bar yfirskriftina Sókn í krafti samvinnu. Ráðstefnan var ætluð ferðaþjónustuaðilum og öðrum hagsmunaaðilum. Markmiðið er að styðja við og efla ferðaþjóna á svæðinu ásamt því að auka samstarf. Margir mættu til að hlýða á erindin og gafst ferðaþjónustuaðilum tækifæri til þess að koma saman og ræða um ýmis mál er snerta ferðaþjónustuna. Á mælendaskrá voru Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs, Hjalti Már Einarsson viðskiptaþróunarstjóri Datera, Brynjar Vatnsdal deildarstjóri þróunardeildar Isavia, Eyþór Sæmundsson verkefnastjóri Markaðsstofu Reykjaness og María Hjálmarsdóttir sérfræðingur í stefnumótun.

6. Ársskýrslur 2023 (2024030388)

Ársskýrslur lagðar fram.

7. Vefstefna Reykjanesbæjar (2023060380)

Menningar- og þjónusturáð þakkar fyrir vel unna vefstefnu og vísar henni til umræðu í bæjarstjórn.

8. 17. júní 2024 (2024030441)

Menningar- og þjónusturáði er falið að koma með tillögur á næsta fundi að ræðumanni dagsins og fánahylli fyrir hátíðardagskrá 17.júní.

Ef íbúar hafa ábendingar geta þeir sent þær á menningarfulltrui@reykjanesbaer.is.

9. Ljósanótt 2024 (2024030442)

Ljósanótt 2024 fer fram með hefðbundnu sniði dagana 5. - 8. september 2024 og er undirbúningur hafinn. Á næstu vikum berast fyrirtækjum erindi um framlög til hátíðarinnar og hvetur menningar- og þjónusturáð bæði þau, sem og félög og íbúa alla eindregið til þess að taka höndum saman og leggja sitt af mörkum. Ljósanótt er tákn bjartsýni, ljóss og birtu og þá fögnum við lífinu, tilverunni og njótum nærveru hvers annars.

10. Leikfélag Keflavíkur (2024030444)

Menningar- og þjónusturáð óskar Leikfélagi Keflavíkur til hamingju með metnaðarfulla uppsetningu á Djöflaeyjunni eftir Einar Kárason í leikgerð Kjartans Ragnarssonar og hvetur bæjarbúa til að missa ekki af þessari stórskemmtilegu sýningu.

11. Listasafn Reykjanesbæjar (2024030443)

Listamannateymið Libia Castro & Ólafur Ólafsson opnuðu sýninguna, Afbygging stóriðju í Helguvík, laugardaginn 24. febrúar 2024. Þá var ekki um formlega opnun að ræða. Opnunarhóf var haldið laugardaginn 9. mars kl. 14:00. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, forseti bæjarráðs, opnaði sýninguna glæsilega með formlegum hætti. Opnunin var vel sótt en gestir voru 87 og voru margir heimamenn meðal þeirra. Víkurfréttir fjölluðu um viðburðinn.

Afbygging stóriðjunnar í Helguvík er verk í vinnslu, við mælum með því að fólk komi oftar en einu sinni á sýningartímanum og taki þátt í samtalinu.

Afbygging stóriðju í Helguvík, er unnið í samstarfi og samtali Libiu Castro & Ólafs Ólafssonar við Töfrateymið, Andstæðinga stóriðju í Helguvík, umhverfisverndarsinnann og fyrrverandi framkvæmdarstjóra Landverndar Auði Önnu Magnúsdóttur, hagfræðinginn Ásgeir Brynjar Torfason, arkitektinn Arnhildi Pálmadóttur, aðra umhverfissinna, íbúa Reykjanesbæjar og nærsamfélaga og sýningarstjórann Jonatan Habib Engqvist.

Með því að einblína á þátttöku samfélags- og umhverfis sameinar sýningin fjölbreyttan uppruna, raddir og sjónarmið í Reykjanesbæ sem einnig er stærsta innflytjenda- og alþjóðasamfélag á Íslandi. Yfir sýningartímann mun samtalið og samstarfið þróast, opinn borgarafundur mun verða haldinn þann 4. apríl klukkan 17:30-19:30 þar sem fjallað verður um og tekið á stöðu verksmiðjunnar og staðarins í tengslum við samfélagið, sjálfbærni og vernd náttúrunnar á svæðinu og ímyndaðrar framtíðar. Einnig mun hópurinn skipuleggja aðrar opinberar uppákomur og gjörninga.

Sýningunni hefur verið vel tekið og hafa margir öflugir fjölmiðlar fjallað um sýninguna, eins og: Kastljós, Víðsjá á RÁS 1 og Morgunblaðið sem kom út um síðustu helgi.

Sýningin stendur til og með 28. apríl 2024.

Fylgigögn:

Með því að smella hér ferðu inná umfjöllum Kastljóss - byrjar á mínútu 19:23

Með því að smella hér ferðu inná umfjöllun í Víðsjá - byrjar á mínútu 25:53

Með því að smella hér ferðu inná frétt morgunblaðsins

12. Hljómahöll (2024030451)

Mikið líf hefur verið í Hljómahöll undanfarin mánuð en á meðal tónlistarviðburða má nefna að Elíza Geirsdóttir Newman kom fram á tónleikaröðinni trúnó ásamt hljómsveit sinni, haldnir voru góðgerðartónleikar fyrir Grindvíkinga þar sem fram komu Mugison, GDRN, Valdimar, Unnsteinn Manuel, Kósýbandið, Klara Elías, Demo, Nostalgía og Sigurbjörn Daði Dagbjartsson og þá var Bergið leigt út fyrir upptökur. Þar að auki hefur verið mikið um ýmis konar fundarhald, árshátíðarhald, hópaheimsóknir á Rokksafn Íslands og viðburði á vegum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Hljómahöll fagnar 10 ára afmæli. Hljómahöll var opnuð þann 5. apríl 2014 og fagnar því bráðlega 10 ára afmæli sínu. Af því tilefni verður blásið til afmælisveislu laugardaginn 6. apríl en þá verður opið hús á milli 14:00-17:00. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, flytur afmælisávarp. Tónlist verður flutt í Stapa, Bergi og á Rokksafni Íslands. Á meðal þeirra sem koma fram eru Páll Óskar, Bríet, Friðrik Dór, Fríða Dís, Bambalína og fjöldi atriða frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Vínylplötumarkaður verður á staðnum í tilefni dagsins og verður Tónlistarskóli Reykjanesbæjar með opið hús og sýnir aðstöðuna sína. Myndasýningar verða frá starfi Hljómahallar undanfarin 10 ár. Boðið verður upp á léttar veitingar. Þá verður ókeypis aðgangur að Rokksafni Íslands um afmælishelgina dagana 5.-7. apríl.

13. Bókasafn Reykjanesbæjar (2024010418)

Ljóðahátíðin Skáldasuð var haldin í Bókasafni Reykjanesbæjar 7. – 21. mars. Skáldasuð er lítil ljóðahátíð, hugarfóstur myndlistarmannsins Gunnhildar Þórðardóttur sem er einnig ljóðskáld. Boðið var upp á ljóðalestur með tíu skáldum sem mörg hver tengjast Suðurnesjunum á einn eða annan hátt. Í tengslum við Skáldasuð komu Ragga Holm og Steinunn Jónsdóttir í Reykjavíkurdætrum og héldu ljóðasmiðju fyrir börn á aldrinum 10-12 ára í Reykjanesbæ.

Á dögunum var opnuð ný ljóðlistasýning í Átthagastofu bókasafnsins sem ber heitið Kjarni. Á sýningunni eru tví- og þrívíð myndverk Gunnhildar Þórðardóttur myndlistarmanns sem tengjast ljóðaverkefnum hennar. Sýningin er hluti af Skáldasuði og stendur yfir fram í miðjan maí.

Einn vinsælasti menningarviðburður Bókasafnsins er Erlingskvöld sem fór fram fimmtudagskvöldið 21. mars. Erlingskvöld er haldið til heiðurs fyrrum bæjarlistarmanni Keflavíkur, Erlingi Jónssyni. Rithöfundarnir Ásmundur Friðriksson, Marta Eiríksdóttir og Auður Jónsdóttir lásu úr verkum sínum auk þess sem Birta Rós söng nokkur lög eftir Ninu Simone. Erlingskvöld er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

14. Samþykkt um bílastæðasjóð (2022100414)

Menningar- og þjónusturáð samþykkir samþykkt um bílastæðasjóð. Ráðið leggur áherslu á að tilkoma sjóðsins verði ekki til þess að aukin kostnaður leggist á viðburðahald á vegum Reykjanesbæjar.

15. Fundargerðir stjórnar Reykjanes jarðvangs 22. maí, 9. júní, 16. ágúst og 29. september 2023 (2023030200)

Fundarðgerðir stjórnar Reykjanes jarðvangs lagðar fram.

Fylgigögn:

Fundargerð stjórnar Reykjanes jarðvangs 22. maí 2023

Fundargerð stjórnar Reykjanes jarðvangs 9. júní 2023

Fundargerð stjórnar Reykjanes jarðvangs 16. ágúst 2023

Fundargerð stjórnar Reykjanes jarðvangs 29. september 2023

16. Fundargerð stjórnar Reykjanes jarðvangs 16. febrúar 2024 (2024020382)

Fundargerð stjórnar Reykjanes jarðvangs lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð stjórnar Reykjanes jarðvangs 16. febrúar 2024

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.30. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 2. apríl 2024.