64. fundur

28.04.2025 15:00

64. fundur menningar- og þjónusturáðs Reykjanesbæjar var haldinn að Grænásbraut 910 þann 28. apríl 2025, kl. 15:00

Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Adam Maciej Calicki, Gunnar Jón Ólafsson, Hjörtur Magnús Guðbjartsson og Sverrir Bergmann Magnússon.

Að auki sátu fundinn Halldóra Guðrún Jónsdóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs, Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi og Íris Eysteinsdóttir ritari.

Birgitta Rún Birgisdóttir boðaði forföll og sat Adam Maciej Calicki fundinn í hennar stað. Eva Stefánsdóttir boðaði forföll og sat Gunnar Jón Ólafsson fundinn í hennar stað. Elfa Hrund Guttormsdóttir boðaði forföll og sat Hjörtur Magnús Guðbjartsson fundinn í hennar stað.

1. Hljómahöll - styrkir til viðburðahalds (2023120295)

Tómas Viktor Young framkvæmdastjóri Hljómahallar mætti á fundinn og fór yfir umsóknir sem bárust um styrki til viðburðahalds í Hljómahöll. Alls bárust 15 umsóknir og 10 hlutu styrk.

2. Nýtt merki Listasafns Reykjanesbæjar (2025040412)

Helga Þórsdóttir safnstjóri listasafnsins mætti á fundinn og kynnti nýtt merki safnsins og stefnumótunarvinnu sem stendur yfir.

Menningar- og þjónusturáð samþykkti nýtt merki safnsins 5-0.

3. Listahátíð barna og ungmenna 2025 (2025040413)

Helga Þórsdóttir safnstjóri listasafnsins mætti á fundinn og kynnti listahátíð barna sem fer fram í Listasafni Reykjanesbæjar samhliða BAUN – barna og ungmennahátíð í maí.
204 metrar á sekúndu er sýning í Listasafni Reykjanesbæjar á verkum allra barna í 5. bekk í Reykjanesbæ sem unnin eru í samvinnu við sjö listamenn, með stuðningi Barnamenningarsjóðs.

Listahátíð barna er nú haldin í Reykjanesbæ í 20. sinn og verk barna allt frá leikskólaaldri hafa verið sýnd í Listasafni Reykjanesbæjar af því tilefni. Í ár hlaut safnið styrk frá Barnamenningarsjóði í annað sinn vegna verkefnis sem felur í sér að börn í 5. bekk grunnskóla fá tækifæri til að vinna milliliðalaust með listamönnum á tímabili sem spannar þrjár vikur, að hugmyndavinnu og gerð verka fyrir sýningu í Listasafninu sem er stýrt af sýningarstjóra.

Allir leikskólar Reykjanesbæjar eru einnig þátttakendur í listahátíðinni, sem og útskriftarárgangur Listnámsbrautar hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Menningar- og þjónusturáð og Listasafn Reykjanesbæjar hvetja alla bæjarbúa til að skoða sýninguna í Listasafni Reykjanesbæjar.

Fylgigögn:

Listahátíð barna og ungmenna 2025

4. Nýr þjónustuvefur - greiningar og undirbúningur (2025040408)

Halldóra G. Jónsdóttir, sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs og Aron Þór Guðmundsson vefstjóri fóru yfir undirbúning við uppfærslu á þjónustuvef sveitarfélagsins.

5. 17. júní 2025 - ræðumaður og fánahyllir (2025030420)

Farið yfir tillögur að ræðumanni og fánahylli á hátíðarhöldum á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2025.

6. BAUN - barna- og ungmennahátíð 2025 (2025030421)

Guðlaug M. Lewis menningarfulltrúi kynnti dagskrá BAUN – barna- og ungmennahátíðar sem fer fram í Reykjanesbæ dagana 2.-11. maí 2025.

7. Ljósanótt 4.-7. september 2025 (2024120245)

Guðlaug M. Lewis menningarfulltrúi kynnti vinnu fagráðs Ljósanætur ásamt fjárhagsáætlun hátíðarinnar og næstu verkefnum við undirbúning. Á næstu dögum berast fyrirtækjum erindi um framlög til hátíðarinnar og hvetur menningar- og þjónusturáð bæði þau, sem og félög og íbúa alla, eindregið til þess að taka höndum saman og leggja sitt af mörkum. Ljósanótt er tákn bjartsýni, ljóss og birtu og þá fögnum við lífinu, tilverunni og njótum nærveru hvers annars.

8. Leikfélag Keflavíkur (2025040273)

Menningar- og þjónusturáð óskar Leikfélagi Keflavíkur til hamingju með skemmtilega uppsetningu á Glanna glæp í Latabæ.

9. Mælaborð menningar- og þjónustusviðs 2025 (2025040275)

Mælaborð menningar- og þjónustusviðs fyrir fyrsta ársfjórðung 2025 lagt fram til kynningar.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.07. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 6. maí 2025.