65. fundur

23.05.2025 08:30

65. fundur menningar- og þjónusturáðs Reykjanesbæjar var haldinn í Hljómahöll þann 23. maí 2025, kl. 08:30

Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Jón Ólafsson og Sverrir Bergmann Magnússon.

Að auki sátu fundinn Halldóra Guðrún Jónsdóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs og Íris Eysteinsdóttir ritari.

Eva Stefánsdóttir boðaði forföll og sat Gunnar Jón Ólafsson fundinn í hennar stað. Elfa Hrund Guttormsdóttir boðaði forföll og sat Guðný Birna Guðmundsdóttir fundinn í hennar stað.

1. Bókasafn í Hljómahöll – staðan á flutningi (2022110463)

Halldóra G. Jónsdóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs fór yfir stöðuna vegna flutnings bókasafnsins í Hljómahöll.

2. Sjómanndagurinn í Reykjanesbæ 2025 (2025050368)

Sjómannamessa verður haldin á vegum Keflavíkurkirkju á sjómannadaginn 1. júní kl. 11:00 í Bíósal Duus safnahúsa. Félagar úr Kór Keflavíkurkirkju leiða söng við undirleik Arnórs Vilbergssonar organista. Sr. Erla Guðmundsdóttir þjónar. Við lok stundar verður gengið að minnismerki sjómanna við Hafnargötu og þar lagður blómakrans frá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis og Vísi, félagi skipstjórnarmanna á Suðurnesjum. Kaffi og nýsteiktar kleinur í boði Duus safnahúsa og Keflavíkurkirkju. Að athöfn lokinni gefst gestum kostur á að skoða bátalíkön Gríms Karlssonar í Bryggjuhúsi auk annarra sýninga í húsunum. Allir sjómenn og fjölskyldur þeirra eru boðin sérstaklega velkomin við messuna.  

3. Ljósanótt 4.-7. september 2025 (2024120245)

Grunngildi og leiðarljós Ljósanætur lögð fram til samþykktar. Plaggið er afrakstur vinnu fagráðs Ljósanætur sem lagði upp með að setja í orð og ramma inn hlutverk og markmið hátíðarinnar. Í því fólst m.a. að skilgreina sérstöðu hennar, móta heildræna sýn um um gildi, skilaboð og ímynd hátíðarinnar og að tryggja að hátíðin endurspegli samfélagiðog menningu Reykjanesbæjar. 

Menningar- og þjónusturáð fagnar þessari metnaðarfullu vinnu og samþykkir framlögð drög að grunngildum Ljósanætur.

Fylgigögn:

Grunngildi og leiðarljós Ljósanætur

4. 17. júní 2025 (2025030420)

Drög að dagskrá 17. júní lögð fram. Þjóðhátíðardegi Íslendinga verður fagnað í Reykjanesbæ með hátíðardagskrá og skemmtidagskrá sem fram fer í skrúðgarðinum í Keflavík. Dagskrá hefst með hátíðarguðþjónustu kl. 12  í Keflavíkurkirkju, skrúðganga leggur af stað frá Keflavíkurkirkju kl. 13 og við tekur hátíðardagskrá í skrúðgarðinum sem hefst kl. 13:20. Að henni lokinni hefst skemmtidagskrá sem stendur fram eftir degi.
Menningar- og þjónusturáð hvetur íbúa til að taka virkan þátt í hátíðarhöldunum.  

5. Viðburðir í Reykjanesbæ - sumar 2025 (2025050382)

Halldóra G. Jónsdóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs fór yfir viðburði sem eru komnir á dagskrá hjá Reykjanesbæ í sumar en eitthvað á eftir að bætast við.

Menningar- og þjónusturáð óskar eftir því að wipeout brautin verði opnuð tvisvar í mánuði í sumar. Ráðið leggur einnig til að Vinnuskólinn verði með „pop up“ viðburði í hverfum bæjarins.

6. Almyrkvi á sólu 12. ágúst 2026 (2025040174)

Halldóra G. Jónsdóttir sviðstjóri menningar- og þjónustusviðs sagði frá nefnd sem hefur verið sett á laggirnar og fyrirhugaðan undirbúning vegna almyrkva á sólu sem mun sjást á vesturhluta landsins, þ.á.m. á Reykjanesinu í ágúst 2026.

7. Listasafni Reykjanesbæjar - Larissa Sansour (2025050269)

Fimmtudaginn 22. maí sl. opnaði fyrsta sýning Larissa Sansour á Íslandi í Listasafni Reykjanesbæjar. Það er stórviðburður að verk Larissu Sansour séu nú sýnd á Íslandi en mikil eftirspurn er eftir hennar verkum. Meðal nýlegra einkasýninga hennar má nefna sýningar í Amos Rex safninu í Helsinki og Göteborg Konsthall í Gautaborg. Á haustmánuðum 2025 opnar yfirlitssýning með nýrri innsetningu í Charlottenborg Kunsthal í Kaupmannahöfn. Það er því mikill heiður fyrir Listasafn Reykjanesbæjar að fá tækifæri til að vinna með Sansour og setja upp sýningu á verkum hennar. Verk Sansour fjalla um þá dystópíu sem hefur dunið á palestínsku þjóðinni frá 1948.

Menningar- og þjónusturáð óskar Listasafninu til hamingju með sýninguna og hvetur íbúa og listunnendur til að fara á safnið og skoða hana.

Fylgigögn:

Bókun safnstjóra Listasafns Reykjanesbæjar vegna sýningar Larissa Sansour

8. Aðafundur Landskerfis bókasafna 6. maí 2025 (2025020249)

Fundargerð aðalfundar Landskerfis bókasafna frá 6. maí sl. lögð fram til kynningar ásamt skýrslu stjórnar.

9. Fræðslustefna Reykjanesbæjar 2025-2028 - beiðni um umsögn (2025030588)

Bæjarráð óskar eftir umsögn um drög að fræðslustefnu Reykjanesbæjar 2025-2028.

Formanni ráðsins falið að koma athugasemdum ráðsins áleiðis.

10. Karlakór Keflavíkur (2025050375)

Menningar- og þjónusturáð óskar Karlakór Keflavíkur til hamingju með vel heppnaða vortónleika þeirra sem haldnir voru í Ytri-Njarðvíkurkirkju þann 6. og 8. maí. 

11. Kvennakór Suðurnesja (2025050376)

Menningar- og þjónusturáð óskar Kvennakór Suðurnesja til hamingju með vel heppnaða vortónleika þeirra, Litagleði, sem haldnir voru þann 19. og 21. maí í Bíósal Duus safnahúsa. 

12. Ungleikhúsið (2025050377)

Menningar- og þjónusturáð óskar Ungleikhúsinu til hamingju með metnaðarfulla uppsetningu á Anní jr. í Frumleikhúsinu í maí. 

13. DansKompaní (2025050378)

Menningar- og þjónusturáð óskar DansKompaní til hamingju með 15 ára afmælið og metnaðarfulla vorsýningu skólans, Jungle Book, sem fram fór í Borgarleikhúsinu þann 26. apríl. 

14. Leikfélag Keflavíkur (2025050379)

Menningar- og þjónusturáð óskar Leikfélagi Keflavíkur og Vókal listhópi til hamingju með metnaðarfulla söngleikjatónleika í Frumleikhúsinu 15. og 16. maí þar sem tilgangurinn var að safna fyrir nýju pallakerfi í húsið. 

15. Óperustúdíó Norðuróps (2025050380)

Menningar- og þjónusturáð óskar Óperustúdíói Norðuróps og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar til hamingju með vortónleika sína sem fram fóru í Ytri-Njarðvíkurkirkju sunnudaginn 4. maí. 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:01. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 3. júní 2025.