66. fundur

27.06.2025 08:30

66. fundur menningar- og þjónusturáðs Reykjanesbæjar var haldinn að Grænásbraut 910 þann 27. júní 2025, kl. 08:30

Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Adam Maciej Calicki, Elfa Hrund Guttormsdóttir, Gunnar Jón Ólafsson og Sverrir Bergmann Magnússon.

Að auki sátu fundinn Halldóra Guðrún Jónsdóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs og Íris Eysteinsdóttir ritari.

Gígja Sigríður Guðjónsdóttir boðaði forföll og sat Adam Maciej Calicki fundinn í hennar stað.

Eva Stefánsdóttir boðaði forföll og sat Gunnar Jón Ólafsson fundinn í hennar stað.

1. Opnun Bókasafns Reykjanesbæjar í Hljómahöll (2022110463)

Guðný Kristín Bjarnadóttir forstöðumaður bókasafnsins mætti á fundinn og fór yfir stöðu mála vegna opnunar Bókasafns Reykjanesbæjar í Hljómahöll en opnun safnsins verður auglýst þegar nær dregur.

2. Listasafn Reykjanesbæjar - ný stefna (2025060303)

Helga Þórsdóttir safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar mætti á fundinn og lagði fram breytingartillögur í söfnunarstefnu listasafnsins og kynnti nýja stefnu safnsins.

Menningar- og þjónusturáð samþykkir breytingartillögur söfnunarstefnunnar og nýja stefnu safnsins.

3. Tillaga að niðurfellingu aðgangseyris í Duus safnahús (2025060304)

Eva Kristín Dal forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar mætti á fundinn og kynnti tillögu hagsmunaaðila í Duus safnahúsum þ.e. menningarfulltrúa, Listasafns Reykjanesbæjar og Byggðasafns Reykjanesbæjar þar sem lagt er til að frá og með 1. janúar 2026 verði aðgangseyrir felldur niður í Duus safnahúsum og aðgangur að þeim hafður gjaldfrjáls. Markmiðið er að gera safnahúsin aðgengilegri og fjölga gestum. Að fella niður aðgangseyri eykur aðgengi íbúa að húsunum og stuðlar að jafnræði og inngildingu allra hópa. Ýmis rök eru fyrir þessari breytingu sem væri íbúum sveitarfélagsins til hagsbóta.

Menningar- og þjónusturáð tekur vel í erindið og vísar því áfram í fjárhagsáætlanagerð 2026.

4. BAUN - barna- og ungmennahátíð Reykjanesbæjar 2025 (2025030421)

Skýrsla lögð fram. BAUN, barna- og ungmennahátíð fór fram dagana 2. – 11. maí. Börn á leikskólaaldri sem og börn í 1.- 7. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar fengu afhent BAUNabréf sem innihélt fjölbreytt verkefni, viðburði og þrautir fyrir fjölskyldur að taka þátt í. Í ár var líka í fyrsta skipti boðið upp á BAUN+ sem hafði að markmiði að virkja nemendur í 8.-10. bekk í skemmtilegum QR kóða leik. Hæfileikahátíð grunnskólanna fór fram í Stapa með úrvalsatriðum frá árshátíðum skólanna. Þátttaka í BAUN var gríðargóð og heimsóttu til að mynda 4.300 gestir Duus safnahús á meðan á hátíðinni stóð. Hátíð sem þessi krefst samvinnu flestra stofnana Reykjanesbæjar og aðkoma félagasamtaka í bænum er mjög mikilvæg svo vel megi takast til. Markmið hátíðarinnar eru að auka lífsgæði og vellíðan barna og íbúa Reykjanesbæjar og jafnframt að skapa vettvang fyrir börn og fjölskyldur til virkrar þátttöku í samfélaginu.

Menningar- og þjónusturáð þakkar fyrir greinargóða skýrslu og vinnu við vel heppnaða baunahátíð. Einnig þakkar ráðið bæjarbúum fyrir vel sótta hátíð.

5. Tómstundastefna Reykjanesbæjar (2023050566)

Bæjarráð óskar eftir umsögn um drög að tómstundastefnu Reykjanesbæjar 2025-2028.

Menningar- og þjónusturáð fagnar framlagðri tómstundastefnu og hefur engar athugasemdir við stefnuna.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.08. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarráðs 3. júlí 2025.