- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Eva Stefánsdóttir, Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon.
Að auki sátu fundinn Halldóra Guðrún Jónsdóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs, Guðlaug M. Lewis menningarfulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
Elfa Hrund Guttormsdóttir boðaði forföll og sat Jóhann Björk Sigurbjörnsdóttir fundinn í hennar stað.
Guðný Kristín Bjarnadóttir, starfandi forstöðumaður bókasafnsins, mætti á fundinn og fór yfir flutninga safnsins, hvernig hefur gengið og hvað stendur út af.
Mikil ánægja hefur verið meðal gesta sem hafa komið í nýja bókasafnið í Hljómahöll. Menningarráð lýsir yfir ánægju með hvernig til hefur tekist að flytja safnið á nýjan stað og þakkar starfsfólki bókasafnsins ásamt öðru starfsfólki sveitarfélagsins sem komið hefur að framkvæmdunum og flutningunum.
Tómas Viktor Young framkvæmdastjóri Hljómahallar mætti á fundinn.
Stapinn á 60 ára afmæli þann 23. október 2025. Óskað er eftir hugmyndum frá ráðinu til að halda upp á þessi tímamót.
Lagt fram erindi frá Byggðasafni Reykjanesbæjar þar sem farið er yfir hugmyndir um hvernig væri hægt að halda upp á 50 ára afmæli byggðasafnsins. Hefja þarf undirbúning þeirra verkefna sem verða fyrir valinu.
Guðlaug M. Lewis menningarfulltrúi kynnti skýrslu um stöðu Duus safnahúsa og þær framkvæmdir sem óskað er eftir að fara í til að bæta starfsaðstöðu og skipulag húsanna.
Menningarráð tekur jákvætt í erindið og vísar því til fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2026.
Guðlaug M. Lewis menningarfulltrúi kynnti drög að dagskrá Ljósanætur 2025. Dagskráin er að venju fjölbreytt og skemmtileg. Ýmsir fastir liðir einkenna hátíðina og má þar nefna setningarhátíð þar sem börnin í bæjarfélaginu eru í aðalhlutverki, opnanir nýrra listsýninga á vegum Listasafns Reykjanesbæjar og sýninga um allan bæ í kjölfarið, kjötsúpu Skólamatar, árgangagöngu, akstur glæsikerra, stórtónleika á útisviði og flugeldasýningu.
Menningar- og þjónusturáð hvetur íbúa til að taka þátt í metnaðarfullri dagskrá Ljósanætur.
Fylgigögn:
Menningar- og þjónusturáð vekur athygli á sýningu um Ástu Kristínu Árnadóttur frá Narfakoti í Innri-Njarðvík, Ástu málara, sem opnuð verður í Bíósal Duus safnahúsa á Ljósanótt. Ásta var óhrædd við að brjóta gegn rótgrónum hefðum um samfélagslegt hlutverk kvenna. Hún lauk prófi í málaraiðn árið 1907 og var þar með fyrsta íslenska konan til að taka próf í iðngrein. Þremur árum síðar hlaut hún meistarabréf í iðninni, fyrst kvenna og Íslendinga. Ásta ruddi brautina fyrir konur. Því er viðeigandi að gera sögu Ástu skil nú þegar hálf öld er liðin frá kvennaverkfallinu 1975. Árið 2025 hefur verið tileinkað baráttu fyrir jafnrétti og viðurkenningu á framlagi kvenna og kvára. Sýningin er samstarfsverkefni menningarfulltrúa og Byggðasafns Reykjanesbæjar og sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir. Sýningin stendur út nóvember.
Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur upp á 75 ára afmæli sitt á árinu 2025 og af því tilefni hefur verið leitast eftir samstarfi við sveitastjórnir um að bjóða upp á beina útsendingu úr sundlaugum landsins frá tónleikunum Klassíkin okkar sem hefjast kl. 20:00 á RÚV þann 29. ágúst. Áherslan í efnisskrá tónleikanna að þessu sinni verður á fjölbreyttan söng. Með uppátækinu gæti myndast mikil og góð samfélagsstemning og einstaklega skemmtileg tónlistarupplifun. Reykjanesbær tekur þátt í verkefninu og hægt verður að njóta tónleikanna í Sundmiðstöðinni/Vatnaveröld og Stapalaug.
Menningar- og þjónusturáð hvetur íbúa til skella sér í sund og njóta tónleikanna.
Listasafn Reykjanesbæjar opnar tvær sýningar á Ljósanótt.
Í fremri sal opnar Hulduefni, einkasýning Vilhjálms Bergssonar frá Grindavík. Myndverk sýningarinnar eru valin úr nýlegri gjöf listamannsins til Listasafns Reykjanesbæjar. Elstu verkin eru frá sjötta áratug síðustu aldar og allt til dagsins í dag. Þannig er Hulduefni yfirlitssýning valdra myndverka frá ferli Vilhjálms Bergssonar.
Í gluggasal opnar Heimsmynd, einkasýning Áka Guðna Gränz. Myndverk sýningarinnar eru úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar ásamt verkum í eigu fjölskyldu listamannsins. Áki hefði orðið 100 ára á þessu ári og mun sýningin heiðra minningu hans með völdu yfirliti á verkum hans.
Fylgigögn:
Sýningar Listasafns Reykjanesbæjar á Ljósanótt
Erindi frá íbúa þar sem óskað er eftir að Reykjanesbær skoði möguleika þess að koma kvikmyndahúsi aftur á fót í svipaðri mynd og áður eða með nýjum og skapandi lausnum svo húsið gæti einnig nýst til annarra menningarviðburða.
Menningar- og þjónusturáð þakkar fyrir erindið. Sveitarfélagið mun ekki standa að rekstri kvikmyndahúss en menningarráð hvetur áhugasama einkaaðila til að skoða möguleika á þess háttar rekstri.
Mælaborð lagt fram til kynningar.
Menningar- og þjónusturáð óskar DansKompaníi til hamingju með frábæran árangur á Dance World Cup í sumar.
Menningar- og þjónusturáð óskar Ungleikhúsinu til hamingju með frábæran árangur á Dance World Cup í sumar.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:27. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 2. september 2025.