- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, Gunnar Jón Ólafsson, Elfa Hrund Guttormsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon.
Að auki sátu fundinn Halldóra Guðrún Jónsdóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs, Guðlaug M. Lewis menningarfulltrúi og Erna María Svavarsdóttir ritari.
Ungmennaráð Reykjanesbæjar lagði fram erindi er varða afþreyingu fyrir ungmenni og „Verum örugg” herferð ráðsins.
Erindi frestað.
Menningar- og þjónusturáð fékk það skemmtilega verkefni að útnefna jólahús og jólafyrirtæki Reykjanesbæjar árið 2025. Valið var úr tilnefningum sem bárust frá íbúum í laufléttum jólaleik á aðventunni. Ráðið vill hrósa íbúum fyrir augljósan metnað þegar kemur að jólaskreytingum sem setja svo sannarlega svip sinn á bæinn og gleðja unga sem aldna í mesta skammdeginu. Ráðið færir einnig þakkir öllum þeim sem sendu inn tilnefningar að skemmtilega skreyttum húsum. Úr vöndu var að velja. Mörg hús komu til greina en ráðið var sammála um að Reykjanesvegur 10 hljóti nafnbótina jólahús Reykjanesbæjar árið 2025 og Dubliner jólafyrirtæki Reykjanesbæjar 2025. Eigendur jólahússins og -fyrirtækisins hljóta verðlaun frá Húsasmiðjunni í Reykjanesbæ sem afhent verða á Þorláksmessu.
Menningar- og þjónusturáð óskar vinningshöfum til hamingju um leið og það færir Húsasmiðjunni þakkir fyrir sitt framlag við að lýsa upp bæinn á aðventunni.
Viðurkenningar fyrir jólahús og jólafyrirtæki verða veittar á Þorláksmessu.
Jólin verða kvödd þriðjudaginn 6. janúar með árlegri þrettándaskemmtun. Á undan formlegri dagskrá verður boðið upp á luktarsmiðju í Myllubakkaskóla. Klukkan 18:00 hefst blysför frá Myllubakkaskóla þar sem gengið verður í fylgd álfakóngs, drottningar og hirðar þeirra að hátíðarsvæði við Hafnargötu 12. Þar tekur Grýla á móti mannskapnum, álfar hefja upp raust sína og syngja þrettándasöngva og alls kyns kynjaverur verða á sveimi á svæðinu. Þrettándabrennan verður á sínum stað við Ægisgötu og gestum verður boðið upp á heitt kakó til að ylja sér. Í lok dagskrár verða jólin kvödd að hætti Björgunarsveitar Suðurnesja með glæsilegri flugeldasýningu. Karlakór Keflavíkur, Kvennakór Suðurnesja, Leikfélag Keflavíkur, Skátafélagið Heiðabúar, Björgunarsveit Suðurnesja og lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar taka þátt í dagskránni. Öll dagskrá er gerð með fyrirvara um breytingar.
Listasafn Reykjanesbæjar opnar einkasýningu Tuma Magnússonar, laugardaginn 17. janúar 2026 kl. 14:00-16:00.
Á sýningunni mætast málverk, vídeó og hljóðverk þar sem flæði, tími og ferðalag eru í forgrunni. Verk Tuma Magnússonar skapa ljóðræna og næma upplifun af sífelldri umbreytingu lífsins, augnablik sem renna saman í eina heild. Tumi er einn áhrifamesti samtímalistamaður Íslands og hefur starfað víða um heim, haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum á virtum vettvangi á Íslandi og erlendis.
Sýningin fer fram í báðum sölum Listasafns Reykjanesbæjar og stendur til 19. apríl 2026. Safnið býður menningar- og þjónusturáð innilega velkomið á opnun þann 17. janúar 2026 kl. 14:00-16:00. Sýningin er styrkt af bæði Myndlistar- og Safnasjóði.
Menningar- og þjónusturáð færir þakkir til allra menningarhópa og styrkhafa úr menningarsjóði Reykjanesbæjar fyrir þeirra framlag til eflingar menningar og mannlífs í Reykjanesbæ á árinu sem er að líða. Ráðið horfir björtum augum til áframhaldandi samstarfs á komandi ári og minnir á að opnað verður fyrir styrkumsóknir í menningarsjóð í janúar.
Menningar- og þjónusturáð felur Guðlaugu M. Lewis menningarfulltrúa að undirbúa það verkefni.
Menningar- og þjónusturáð sendir þakkir til allra þeirra sem hafa lagt sitt af mörkum til menningarlífs sveitarfélagsins á árinu, hvort sem er með þátttöku eða stuðningi. Jafnframt eru íbúum færðar þakkir fyrir virka þátttöku í menningardagskrá bæjarins og stuðla þannig að aukinni vellíðan og skemmtilegra samfélagi. Að lokum óskar ráðið íbúum og starfsfólki Reykjanesbæjar gleðilegra jóla.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:06. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 6. janúar 2026.