101. fundur

11.09.2015 10:36

101. fundur menningarráðs Reykjanesbæjar haldinn 10. september 2015 að Tjarnargötu 12, kl: 14:00.

Mættir : Eva Björk Sveinsdóttir formaður, Sigrún Inga Ævarsdóttir aðalmaður, Dagný Steinsdóttir aðalmaður, Davíð Örn Óskarsson aðalmaður, Hanna Björg Konráðsdóttir varamaður, Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi og Guðlaug María Lewis fundarritari.


1. Fjárhagsáætlun 2016 (2015090128)
Sviðsstjóri fór yfir Samþykkt um fjárhagsáætlunarferli Reykjanesbæjar sem samþykkt var í 25. júní s.l. í bæjarráði þar sem fram kemur hvert hlutverk menningarráðs er í gerð fjárhagsáætlunar. Sviðsstjóri fór einnig yfir með ráðinu það fjármagn sem farið hefur til menningarmála síðustu árin og umræða var um þarfir sviðsins fyrir þau verkefni sem liggja fyrir 2016. Ráðið leggur áherslu á að við næstu fjárhagsáætlun verði haft í huga að nægilegt fjármagn fáist til að hægt verði að vinna eftir þeirri Framtíðarsýn sem kynnt var ráðinu 20. ágúst s.l. Áhersla er lögð á að menningarstofnanir bæjarins,  s.s. söfnin,  geti  sinnt sínum lögbundnu hlutverkum. Ráðið mælir með að ákvörðun bæjarráðs um gjaldtöku í  Duus Safnahús verði endurskoðuð.  Ráðið vill einnig minna á aukið hlutverk þessara stofnana í ferðaþjónustu og er þá einkum vísað til Hljómahallar, Víkingaheima og Duushúsa.  Jafnframt verði hugað að áframhaldandi endurbyggingu sögulegs húsnæðis í bænum s.s. Gömlu búðar og Fischershúss og byrjað verði að huga að hvað gera skuli við Vélasal á Hafnargötu 2.

2. Ljósanótt 2015 (2015010095)
Ráðið þakkar öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd Ljósanætur í ár.  Hátíðin fór vel fram í alla staði og áberandi var hvað íbúar sjálfir stóðu að mörgum góðum viðburðum. Ráðið hvetur íbúa Reykjanesbæjar til að senda inn tillögur að breyttum og/eða bættum viðburðum og fyrirkomulagi á netfangið ljosanott@ljosanott.is eða á vefinn www.ljosanott.is sem síðan verða teknar fyrir á íbúafundi  sem auglýstur verður á nýju ári. 

3. Varðveisla og skráning listaverksins BREATH eftir japanska listamanninn OZ (2015090129)
Bæjarráð Garðs felur Listasafni Reykjanesbæjar umrætt listaverk til eignar og umsjár.

Menningarfulltrúi fór yfir aðdragandann að því að  sveitarfélagið Garður afhendir Listasafni Reykjanesbæjar listaverkið Breath eftir japanska listamanninn OZ til eignar og umsjár og  mælir með að safnið taki að sér ráðgjöf í skráningu og umsýslu listaverka í eigu Sveitarfélagsins Garðs eins og Garðmenn hafa óskað eftir.  

4. Önnur mál (2015010095)
a) Ráðið felur menningarfulltrúa að auglýsa eftir verðugum fulltrúa til að hljóta menningarverðlaun bæjarins árið 2015.
b)  Útsvarslið Reykjanesbæjar 2015-2016 er skipað sama fólki og síðast og eru það Baldur Guðmundsson, Grétar Sigurðsson og Guðrún Ösp Theodórsdóttir. Fyrsta keppni verður 18. september n.k. og óskar ráðið liðinu góðs gengis.

Fleira ekki gert og fundi slitið.
__________

Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 15. september 2015.

Fundargerð samþykkt 11-0. Kjartan Már Kjartansson, Guðbrandur Einarsson og Kristinn Þór Jakobsson tóku til máls við afgreiðslu fundargerðar.