112. fundur

13.10.2016 00:00

112. fundur Menningarráðs Reykjanesbæjar haldinn að Tjarnargötu 12 þann 13. október 2016 kl. 14:00.

Viðstaddir: Baldur Guðmundsson, Bjarki Már Viðarsson varamaður, Dagný Steinsdóttir, Davíð Örn Óskarsson, Guðlaug María Lewis, Sigrún Inga Ævarsdóttir og Valgerður Guðmundsdóttir.

Gestir fundarins: Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður Byggðasafns, Stefanía Ósk Gunnarsdóttir forstöðumaður Bókasafns og Tómas Viktor Young framkvæmdastjóri Hljómahallar.

1. Fjárhagsáætlun 2017 - 2016100129
Óskir um framlag til menningarmála fyrir árið 2017 hafa verið lagðar inn til bæjarráðs og fór menningarfulltrúi yfir helstu tölur þar sem fram kom að flestar tölur eru í svipuðum dúr og árið 2016.  Ekki var farið fram á miklar hækkanir en ráðið hvetur þó  til að nægilegt fjármagn fáist til að menningin nái að dafna í bæjarfélaginu og söfnin/stofnanir geti sinnt sínum lögbundnum hlutverkum meðal annars með því að auka aðgengi allra að menningarstofnunum bæjarins.

2. Starfsáætlanir menningarstofnana 2017 - 2016100130
Forstöðumenn menningarstofnana kynntu starfsáætlanir fyrir árið 2017 sem að sjálfsögðu  munu taka mið af því fjármagni sem ákveðið verður í fjárhagsrammanum.
Menningar- og ferðamál:  Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi kynnti áætlunina.
Bókasafn:  Stefanía Gunnarsdóttir forstöðumaður kynnti áætlunina.
Byggðasafn:  Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður kynnti áætlunina.
Listasafn:  Valgerður Guðmundsdóttir forstöðumaður kynnti áætlunina.
Hljómahöll:  Tómas Young framkvæmdastjóri kynnti áætlunina.
Ráðið samþykkti starfsáætlanirnar og lýsir ánægju með þann metnað og þá margþættu starfsemi sem fram fer undir stjórn menningarstofnana bæjarins.

3. Menningarkort, ferðamannapassar - 2016100131
Ráðið leggur til að menningarkort  á sömu nótum og í fyrra verði gefið út og kynnt hið fyrsta og felur menningarfulltrúa framkvæmd verkefnisins. Einnig fer ráðið fram á að skoðaðir verði kostir og gallar við útgáfu sérstakra gestapassa sem beint væri til ferðamanna/gesta sem hingað kæmu, bæði innlendra og erlendra.  Gestapassar gætu t.d. gilt fyrir menningarlífið eins og menningarkortin en einnig aðgang í sund og veitt afslátt fyrir ýmsa þjónustu í bæjarfélaginu.

4. Menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2016 – 2016100132
Menningarráð tók ákvörðun um hver hljóta mun menningarverðlaunin í ár.  Nafn verðlaunahafans verður tilkynnt við afhendingu verðlaunanna í sérstöku hófi sem haldið verður föstudaginn 11. nóvember kl.18.00 í Duus Safnahúsum.

5. Menningardagskrá um jól og áramót – 2016100133
Að beiðni ráðsins var auglýst í staðarblöðum eftir hugmyndum bæjarbúa að nýjum eða breyttum viðburðum í tengslum við jól og áramót og ræddi ráðið þær hugmyndir sem fram komu. Dagskrá fyrir börn á vegum stofnana bæjarins verður svipuð og áður, bæði í Duus Safnahúsum og Bókasafninu á aðventunni og einnig verða ljósin á vinabæjartrénu tendruð með hefðbundnum hætti og þrettándadagskrá verður á sínum stað.

6. Önnur mál
a)  Menningarráð þakkar Byggðasafni og Listasafni Reykjanesbæjar góða vinnu í sambandi við árlega ráðstefnu lista- og byggðasafna landsins sem haldin var í Hljómahöll í september undir stjórn Reykjanesbæjar.

b)  Menningarráð þakkar Bókasafni Reykjanesbæjar góða vinnu í sambandi við árlegan landsfund Upplýsingar sem haldin var í Hljómahöll í september undir stjórn bókasafnanna á Suðurnesjum.

c) Reykjanesbær hlaut góðan styrk frá Minjastofnun í verkefnið Verndarsvæði í byggð m.a. til rannsóknar á Keflavíkurtúni og þar í kring og þeim merku fornleifum sem þar er að finna.

d) Unnið er að tillögu að verkáætlun um stefnumótun í ferðamálum.

Fleira ekki gert og fundi slitið. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 18. október 2016.