08.02.2017 00:00

115. fundur Menningarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 8. febrúar 2017 kl. 14:00.

Viðstaddir: Ásbjörn Jónsson, Baldur Guðmundsson, Dagný Steinsdóttir, Davíð Örn Óskarsson, Guðbjörg Ingimundardóttir, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi og Guðlaug María Lewis sem ritaði fundargerð.

1. Ársskýrsla Duus Safnahúsa 2016 (2017020109)
Menningarfulltrúi lagði fram ársskýrslu Duus Safnhúsa fyrir árið 2016. Reksturinn var með svipuðu sniði og áður nema að tekinn hafði verið upp aðgangseyrir í upphafi ársins. Gestum fækkaði um 38 %, úr 40.397 í 24.839 en þó var reynt að koma til móts við bæjarbúa með ókeypis aðgangi annað slagið t.d. á Ljósanótt og einnig með sölu menningarkorta. Fjöldi viðburða var haldinn í húsinu, tónleikar og fræðslufundir og 19 nýjar sýningar voru opnaðar á árinu. Upplýsingamiðstöð ferðamála er rekin í Duus Safnahúsum með styrk frá Markaðsstofu Reykjaness. Ráðið þakkar greinargóða skýrslu en leggur til að aðgangseyrir verði endurskoðaður.

2. Gestakönnun í Duus Safnahúsum 2016 (2017020110)
Menningarfulltrúi lagði fram gestakönnun sem Rannsóknir og ráðgjöf unnu fyrir Duus Safnahús þriðja árið í röð. Markmiðið með könnun þessari er að gera sér betur gein fyrir samsetningu gestanna og afstöðu þeirra til sýningarhúsanna með það fyrir augum að þróa starfsemina í rétta átt. Starfsfólkið fékk einkunnina 9,7 fyrir þjónustuna og Bátasafn Gríms þótti áhugaverðast í augum erlendu gestanna og síðan komu byggðasafnssýningarnar og listsýningarnar en Íslendingar nefndu helst listsýningarnar sem ástæðu komu sinnar. Flestir erlendu gestirnir voru vel menntað fólk á miðjum aldri og flestir frá Bandaríkjunum Ráðið þakkar greinargóða skýrslu.

3. Styrkumsóknir í menningarsjóð 2017 (2017010262)
Lagðar voru fram þær umsóknir sem bárust í Menningarsjóð Reykjanesbæjar í ár. Alls bárust 17 umsóknir um þjónustusamning menningarhópa og 14 umsóknir um sérstök menningarverkefni. Einnig skiluðu þeir hópar sem voru á menningarsamningi á síðasta ári ársskýrslu. Ráðið mun nú fara yfir umsóknirnar og skýrslurnar og tilkynna tillögur niðurstaðna í mars en ljóst er að óskir um fjármagn eru margfalt hærri en það fjárframlag sem í boði er.

4. Mælaborð (2017020113)
Sviðsstjóri kynnti fyrir ráðinu Mælaborð þar sem reynt er að finna mælanleg markmið hverrar deildar, hvers verkefnis. Ráðið veltir fyrir sér mælikvörðum sem hentað gætu í menningarmálum.


Fleira ekki gert og fundi slitið. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 21. febrúar 2017.