116. fundur

09.03.2017 00:00

116. fundur Menningarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 9. mars 2017 kl. 14:00.

Viðstaddir: Ásbjörn Jónsson, Baldur Guðmundsson, Dagný Steinsdóttir, Davíð Örn Óskarsson, Guðbjörg Ingimundardóttir, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi og Guðlaug María Lewis sem ritaði fundargerð.
Gestir fundarins: Sigrún Ásta Jónsdóttir og Stefanía Gunnarsdóttir

1. Ársskýrsla Bókasafns Reykjanesbæjar 2016 (2017030089)
Á árinu 2016 hefur starfsfólk Bókasafns Reykjanesbæjar staðið fyrir öflugri fræðslu- og viðburðardagskrá. Bæjarbúar hafa tekið þessari nýbreytni vel og flestir viðburðir á vegum safnsins hafa verið vel sóttir. Heimsóknum leikskólabarna í sögustundir fjölgar auk heimsókna grunnskólabarna sem hafa rúmlega tvöfaldast. Átthagastofa var opnuð í safninu þar sem safnað er saman á einn stað efni um Suðurnes og einnig er Átthagastofa nýtt sem sýningarrými. Þrátt fyrir að aðsókn gesta haldi áfram að aukast í safnið fækkaði almennum útlánum um 6,5% á árinu 2016 en villa við skráningar í kerfi eiga að hluta til sök á þeirri lækkun. Samstarfssamningi við Keili lauk um mitt árið og bókasafnið er aðili að Menningarkorti Reykjanesbæjar.

2. Ársskýrsla Byggðasafns Reykjanesbæjar 2016 (2017030090)
Á árinu 2016 sinnti Byggðasafnið fjölbreyttum verkefnum að vanda. Þrjár ólíkar skammtímasýningar voru opnaðar í Duus safnahúsum. Margir góðir gripir bárust safninu og gátu gestir skoðað suma þeirra á sýningunum. Aðgengi almennings að safnkostinum á vefnum var bætt mjög með því að ljósmyndun gripa hófst en sjá má afraksturinn á vefgátt safnsins, sarpur.is.

3. Ársskýrsla Listasafns Reykjanesbæjar 2016 (2017030092)
Forstöðumaður listasafnsins Valgerður Guðmundsdóttir lagði fram ársskýrslu safnsins fyrir árið 2016. Safnið er eina listasafnið á Suðurnesjum og sinnir öllum tilskyldum safnastörfum. Settar voru upp 15 sýningar í Duus Safnahúsum á vegum safnsins á árinu, 8 sýningarskrár voru gefnar út og safnið heldur úti vefsíðu, fb-síðu og instagram-reikningi. Skráning safnkostsins var yfirfarin og safnaukinn var 46 verk 2016 þannig að nú telur safnkosturinn 725 verk alls. Gestafjöldi var rúmlega 24.000 gestir.

4. Samkomulag vegna niðurtöku vélasamstæðu í HF (2017030093)
Menningarfulltrúi kynnti samkomulag sem gera skal við Guðmund Sigurbergsson vegna niðurtöku, flutnings og geymslu á gamalli vélasamstæðu í HF húsinu á Hafnargötu 2. Ráðið samþykkir samkomulagið og þakkar Guðmundi óeigingjarnt starf í þágu byggðasögunnar.

5. Samkomulag vegna uppsetningar þotu á Ásbrú (2017030094)
Sviðsstjóri Ásbjörn Jónsson kynnti samkomulag við Keili ehf. sem lýtur að því að ónothæf bandarísk herþota sem hefur verið í geymslu á vegum Reykjanesbæjar frá því að bandaríski herinn fór, verði sett upp til sýnis við skólabygginguna á Ásbrú. Keilir ábyrgist varðveislu þotunnar. Ráðið samþykkir samkomulagið.

6. Fjölmenningarstefna (2014010845)
Ný fjölmenningarstefna Reykjanesbæjar var lögð fram. Ráðið samþykkir stefnuna.

7. Mælaborð, tölur janúar kynntar (2017020113)
Sviðsstjóri Ásbjörn Jónsson lagði fram mælaborð janúarmánaðar.

8. Úthlutun úr menningarsjóði Reykjanesbæjar (2017010262)
Formaður ráðsins Guðbjörg Ingimundardóttir kynnti tillögur að úthlutun úr Menningarsjóði Reykjanesbæjar. 5.000.000 voru til úthlutunar og fóru 4.050.000 í þjónustusamninga við menningarhópa og 950.000 í almenn menningarverkefni. Eftirfarandi skipting var samþykkt af ráðinu:

Þjónustusamningar
Bryn Ballett Akademían kr. 200.000
Danskompaní kr. 200.000
Eldey, kór eldri borgara kr. 200.000
Faxi kr. 150.000
Félag harmonikuunnenda á Suðurnesjum kr. 150.000
Karlakór Keflavíkur kr. 400.000
Kór Keflavíkurkirkju kr. 100.000
Kvennakór Suðurnesja kr. 400.000
Leikfélag Keflavíkur kr. 500.000
Ljósop, félag áhugaljósmyndara kr. 150.000
Félag myndlistarmanna í Reykjanesbæ kr. 400.000
Norðuróp kr. 300.000
Norræna félagið kr. 100.000
Sönghópur Suðurnesja kr. 300.000
Tónlistarfélag Reykjanesbæjar kr. 200.000
Nýr stúlknakór kr. 150.000
Söngsveitin Víkingarnir kr. 150.000

Verkefnastyrkir
Fernir tónleikar í Höfnum kr. 150.000
50 ára afmælisdagskrá Kvennakórs Suðurnesja kr. 50.000
Málverkasýningin Próf/Tests kr. 150.000
Með blik í auga kr. 400.000
Söngvaskáld á Suðurnesjum kr. 100.000
Yfirlitssýning um sögu Tjarnarsels kr. 100.000
Samtals: kr. 5.000.000

9. Önnur mál
a) Ráðið óskar Leikfélagi Keflavíkur til hamingju með frumsýningu leikritsins Litla hryllingsbúðin og hvetur íbúa til að sjá sýninguna.
b) Safnahelgi á Suðurnesjum verður haldin í 9. sinn helgina 11. og 12. mars n.k. Ráðið hvetur íbúa til að sækja alla þá fjölmörgu viðburði sem í boði eru á söfnum Reykjanesbæjar.
c) Ráðið minnist Viðars Oddgeirssonar með þakklæti og virðingu fyrir störf hans í þágu menningarlífs bæjarins og vottar aðstandendum samúð vegna fráfalls hans.

Fleira ekki gert og fundi slitið. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 21. mars 2017.