123. fundur

11.01.2018 00:00

123. fundur Menningarráðs Reykjanesbæjar var haldinn á Tjarnargötu 12 þann 11. janúar 2018 kl. 14:00.

Viðstaddir: Baldur Guðmundsson, Johan D. Jónsson varamaður, Guðbjörg Ingimundardóttir, Davíð Örn Óskarsson, Ásbjörn Jónsson sviðsstjóri stjórnsýslusviðs, Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi, Guðlaug María Lewis ritaði fundargerð. Tómas Viktor Young framkvæmdastjóri Hljómahallar mætti undir fyrsta lið.

1. Rannsóknir og ráðgjöf; skýrslur um álit gesta 2017 (2018010135)
Lagðar voru fram skýrslur sem Rannsóknir og ráðgjöf unnu fyrir Duus Safnahús og Rokksafnið fjórða árið í röð. Markmiðið með könnun þessari er gera sér betur gein fyrir samsetningu gestanna og afstöðu þeirra til sýningarhúsanna með það fyrir augum að þróa starfsemina í rétta átt. Starfsfólkið á báðum stöðum fékk hæstu einkunn fyrir þjónustuna og sýningarnar þóttu áhugaverðar. Ráðið þakkar greinargóðar skýrslur.
a) Menningarfulltrúi kynnti skýrsluna fyrir Duus Safnahús.
b) Framkvæmdastjóri Hljómahallar kynnti skýrsluna fyrir Rokksafnið.

2. Rekstrarsamningar vegna menningarhúsa (2018010141)
a) Menningarfulltrúi lagði fram samning vegna Frumleikhússins
Ráðið leggur til að samningurinn verði samþykktur.
b) Menningarfulltrúi lagði fram samning vegna Svarta pakkhússins
Ráðið leggur til að fresta málinu til næsta fundar. Sjá önnur mál lið d).

3. Menningarsjóður 2018 (2018010143)
Þjónustusamningar við menningarhópa runnu út um áramótin og ráðið felur menningarfulltrúa að auglýsa eftir nýjum umsóknum. Ráðið leggur áherslu á að umsókninni fylgi að venju skýrsla um nýtingu fjármagns fyrra árs ef viðkomandi hópur hefur verið á samningi áður. Við sama tækifæri verður auglýst eftir styrkumsóknum í menningartengd verkefni. Umsóknir má finna á vef Reykjanesbæjar. Síðasti umsóknardagur verður 5. febrúar.

4. Hátíðahald og viðburðir 2018 (2018010144)
Menningarfulltrúi kynnti fasta dagskrárliði menningarskrifstofu á árinu 2018 en vísaði að öðru leyti í starfsáætlanir menningarstofnana sem kynntar voru á fundi ráðsins í október s.l. Vakin er athygli á viðburðadagatali sem er aðgengilegt á vef Reykjanesbæjar og eru íbúar hvattir til að setja þar inn alla almenna viðburði í bæjarfélaginu. Ljósanótt 2018 mun standa yfir dagana 30. ágúst til 2. september.

5. Fundargerð starfshóps um endurskoðun menningarstefnu Reykjanesbæjar (2018010147)
Menningarfulltrúi kynnti fundargerðina.

6. Drög að nýrri lögreglusamþykkt kynnt (2017060143)
Sviðsstjóri stjórnsýslusviðs kynnti samþykktina.

7. Önnur mál janúar 2018
a) Listasafn Reykjanesbæjar opnar sýningu á Þingvallamyndum eftir ýmsa helstu listamenn þjóðarinnar á 20. öldinni þann 9. febrúar n.k. Nokkrir viðburðir verða í tengslum við sýninguna þar sem velt verður upp hvert gildi þessa helgasta staðar Íslendinga er fyrir þjóðarvitundina. Þetta verkefni er framlag Reykjanesbæjar í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslands.
b) Menningarfulltrúi lagði fram gestatölur frá Duus Safnahús yfir árið 2017.
Gestir alls voru 25.200, innlendir 19.460 erlendir 5.740, þar af voru safngestir 20.955 og gestir upplýsingamiðstöðvar 4245.
c) Fulltrúar Reykjanesbæjar undir forystu verkefnisstjóra ferðamála, munu taka þátt í Mannamótum, kynningu á ferðaþjónustu landsbyggðarinnar fyrir ferðaþjóna á höfuðborgarsvæðinu þann 18. janúar n.k. 
d) Erindi til menningarráðs frá Félagi myndlistarmanna í Reykjanesbæ sent 10.01.2018 varðandi rekstrarsamning vegna Svarta pakkhússins.
e) Menningarráð hvetur eigendur Sundhallar Keflavíkur til að taka tillit til viðhorfa fjölda bæjarbúa sem vill varðveita bygginguna.
f) Menningarráð þakkar Björgunarsveitinni Suðurnes, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Kvennakór Suðurnesja, Karlakór Keflavíkur, Leikfélagi Keflavíkur, skátafélaginu Heiðabúum, júdódeild Njarðvíkur og þeim starfsmönnum Reykjanesbæjar sem komu að skipulagi og framkvæmd þrettándaskemmtunar fyrir þeirra framlag. 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:30. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. janúar 2018.