08.03.2018 00:00

125. fundur Menningarráðs Reykjanesbæjar var haldinn á Tjarnargötu 12 þann 8. mars 2018 kl. 14:00.

Viðstaddir: Baldur Guðmundsson, Dagný Steinsdóttir, Davíð Örn Óskarsson, Guðbjörg Ingimundardóttir, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Ásbjörn Jónsson, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs, Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi, Guðlaug María Lewis, ritaði fundargerð.
Stefanía Gunnarsdóttir forstöðumaður Bókasafns Reykjanesbæjar var mætt undir fyrsta lið, Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar var mætt undir öðrum lið.

1. Ársskýrsla Bókasafns Reykjanesbæjar (2018030052)
Á árinu 2017 var áberandi hversu öflug þátttaka bæjarbúa hefur verið á viðburðum í Bókasafninu. Skráðum heimsóknum fjölgar en um 10.000 gestir sóttu fræðslu- og viðburðadagskrá safnsins. Aðstaðan var bætt fyrir gesti með stækkun barnadeildar, tímaritahorni og betri aðstöðu á neðri hæð. Fjölbreyttar sýningar í Átthagastofu hafa verið vel sóttar. Börnum í sumarlestri fjölgaði en boðið var upp á spennandi sumarlestursleiki. Bókasafn Reykjanesbæjar gerðist aðili að Rafbókasafninu rafbokasafn.is og hafa lánþegar safnsins aðgang að miklum fjölda raf- og hljóðbóka. Heildarútlán jukust um 4% á árinu í Bókasafninu. Vissulega hefur þrengt að aðstöðu Bókasafns Reykjanesbæjar en brýn þörf er fyrir bættu rými fyrir gesti safnsins og starfsmenn þess.

2. Ársskýrsla Byggðasafns Reykjanesbæjar (2018030053)
Starfsemi Byggðasafnsins var með hefðbundnum hætti á árinu. Tvær sýningar voru opnaðar í Gryfjunni í Duus safnahúsum, báðar voru samstarfsverkefni. Haldið var áfram með ljósmyndun muna í munasafni og hefur nú um 41% safnkostsins verið myndað. Hafist var handa við að opna gátt fyrir almenning að ljósmyndasafninu í gegnum Sarp. Vinna við forvörsluáætlun og gæðahandbók komst vel áleiðis. Safnið tók þátt í verkefninu Verndarsvæði í byggð sem m.a. fól í sér sýningu í Gryfjunni. Lögð voru drög að rannsóknum á Skjaldarbrunanum. Nauðsynlegt er að fjölga stöðugildum hjá Byggðasafninu svo safnið geti betur sinnt sínum lögbundnu skyldum sem viðurkennt safn.

3. Ársskýrsla Listasafns Reykjanesbæjar (2018030054)
Starfsemi safnsins var með hefðbundnum hætti árið 2017. Safnið tók þátt í mörgum verkefnum og m.a. stýrði það árlegri Listahátíð barna í 12. sinn og setti upp 14 sýningar. Styrkur frá Safnaráði fékkst til að fara yfir skráningu og umsýslu safneignarinnar með tilliti til forvörslu og voru ýmsar umbætur gerðar. Safninu bárust nokkrar góðar gjafir á árinu m.a. eftir heimamanninn Áka Gränz og telur safnkosturinn allur 949 verk. Listasafn Reykjanesbæjar tók þátt í undirbúningsvinnu íslenskra listasafna og Sambands íslenskra myndlistarmanna í tengslum við „framlagssamning SIM“ og er aðili að því samkomulagi sem gert var. Nauðsynlegt er að fjölga stöðugildum hjá Listasafninu svo safnið geti betur sinnt sínum lögbundnu skyldum sem viðurkennt safn.

4. Listamaður Reykjanesbæjar 2018 – 2022, tilnefningar (2018020063)
Menningarráð ræddi mögulegan Listamann Reykjanesbæjar 2018-2022 með tilliti til gildandi reglugerðar og hefðar og fór m.a. yfir innsendar tillögur frá bæjarbúum. Menningarráðið felur sviðsstjóra að koma tillögu ráðsins til bæjarráðs sem mun úthluta nafnbótinni við hátíðarhöldin á 17. júní n.k.

5. Endurskoðun menningarstefnu, íbúafundur (20180101047)
Menningarráð lýsir ánægju sinni með íbúafund um endurskoðun menningarstefnu bæjarins sem haldinn var þriðjudaginn 27. febrúar sl. Um 80 manns mættu og tóku þátt í líflegum umræðum og komu með ýmsar tillögur. Niðurstöður fundarins voru svo sendar menningarráðinu sem fundargerð. Ráðið ræddi fundargerðina og hvatti starfsmenn safnanna til að halda áfram sinni vinnu við stefnumótun safnanna en tillögur bæjarbúa yrðu nú lagðar til hliðar þar til nýtt menningarráð tekur til starfa eftir kosningar og þá hæfist vinnan við menningarstefnuna að nýju og gert ráð fyrir að henni ljúki á haustmánuðum.

6. Önnur mál (20180101047)
a) Ráðið þakkar Sigrúnu Ástu Jónsdóttur safnstjóra Byggðasafns Reykjanesbæjar vel unnin störf s.l. 17 ár en hún lætur af störfum hjá Reykjanesbæ 1. apríl n.k.
b) Ráðið hvetur bæjarbúa til nýta sér ókeypis aðgang á söfn og sýningar á Safnahelgi á Suðurnesjum 10. og 11. mars.
c) Ráðið óskar Kvennakór Suðurnesja til hamingju með 50 ára afmælið.
d) Ráðið óskar Bókasafni Reykjanesbæjar til hamingju með 60 ára afmælið 7. mars s.l.
d) Sýning Félags myndlistarmanna í Reykjanesbæ „Undir pressu“ opnar laugardaginn 17. mars kl. 15:00 í Stofunni í Duus Safnahúsum.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 20. mars 2018.