13.02.2015 08:19

95. fundur menningarráðs Reykjanesbæjar haldinn 12. febrúar 2015 að Tjarnargötu 12, kl: 14:00

Mættir : Eva Björk Sveinsdóttir formaður, Baldur Guðmundsson aðalmaður, Sigrún Inga Ævarsdóttir aðalmaður, Dagný Steinsdóttir aðalmaður, Davíð Örn Óskarsson aðalmaður, Stefanía Gunnarsdóttir forstöðumaður Bókasafns Reykjanesbæjar, Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar, Valgerður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri menningarsviðs og Guðlaug María Lewis fundarritari.


1. Gestakannanir frá Rannsóknir og ráðgjöf. (2015020182)
Framkvæmdarstjóri kynnir gestakannanir vegna Duushúsa, Víkingaheima og Rokksafns Íslands.

Framkvæmdastjóri kynnti niðurstöður gestakannana sem fyrirtækið Rannsókn og ráðgjöf vann fyrir safnahúsin þrjú Víkingaheima, Rokksafnið í Hljómahöll og Duushús á síðasta ári.  Þetta er þriðja árið sem viðkomandi könnun er unnin fyrir Víkingaheima en í fyrsta sinn sem Rokksafnið og Duushúsin eru tekin fyrir.  Markmiðið er að átta sig á samsetningu gestahópanna og afstöðu þeirra til safnanna með það í huga að nýta niðurstöðurnar til frekari þróunar staðanna. Allir þrír staðirnir áttu það sammerkt að fá hæstu einkunn fyrir þjónustu starfsfólks og áhugaverðar sýningar og það sem helst mátti bæta voru safnbúðirnar og merkingar að stöðunum. Ráðið þakkar áhugaverðar skýrslur.

2. Ársskýrsla Bókasafns Reykjanesbæjar 2014 (2015020183)
Forstöðumaður kynnir

Stefanía Gunnarsdóttir forstöðumaður safnsins kynnti ársskýrsluna.  Árið 2014 fjölgaði útlánum á Bókasafni Reykjanesbæjar um tæp 13%. Ekki er hægt að bera tölurnar saman að fullu við 2013 vegna flutninga í Ráðhúsið það ár. Barnadeildin og upplýsingaþjónustan voru stækkaðar á árinu þannig að allar breytingar á safninu eru að baki um sinn. Almenn ánægja er með breytingarnar. Mikil fjölgun hefur orðið á heimsóknum leikskólabarna í sögustundir eða um 40% frá árinu 2012 auk þess sem grunnskólakennarar hafa komið með nemendur sína í auknum mæli í safnaheimsóknir. Þá hefur einnig orðið fjölgun á millisafnalánum um 17%. Viðburðir á vegum safnsins voru flestir vel sóttir en um 20 uppákomur voru á árinu bæði fyrir börn og fullorðna. Opið var á safninu á laugardögum í sumar. Ráðið þakkar greinargóða skýrslu.

3. Ársskýrsla Byggðasafns Reykjanesbæjar 2014 (2015020184)
Forstöðumaður kynnir.

Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður kynnti ársskýrsluna. Mikilvægum áfanga var náð síðastliðið vor þegar opnuð var, í Bryggjuhúsi, grunnsýning Byggðasafnsins þar sem saga bæjarfélagsins er kynnt frá landnámi fram um miðja síðustu öld. Sýningin er sett upp með það að markmiði að auðvelt verði að aðlaga hana að breyttum áherslum en þó verður ávallt lögð sú áhersla að á miðhæð Bryggjuhússins geti bæjarbúar og gestir gengið að grunnsýningu um sögu bæjarins vísri. Á árinu hófst yfirfærsla á safnskrá Byggðasafnsins í Sarp sem er sameiginlegur gagnagrunnur minjasafna landsins, verkinu miðar vel áfram og er búist við að ljúka fyrsta áfanga á árinu 2015. Ráðið þakkar greinargóða skýrslu.

4. Helstu niðurstöður íbúafundar menningarráðs um Ljósanótt 2015. (2015020185)
Helstu niðurstöður fundarins dregnar saman og kynntar.

Ráðið lýsir ánægju með fundinn sem haldin var í Duushúsum 11. febrúar og þakkar þeim íbúum sem komu og tóku þátt í umræðum. Fjöldi tillagna kom fram og má lesa helstu niðurstöður á vef Reykjanesbæjar. Mikil jákvæðni í garð Ljósanætur var áberandi í umræðunum og samkomulag um að heildarbygging hátíðarinnar héldi sér.  Fjármagn til hátíðarinnar í ár er lægra en áður og m.a. leituðu fundarmenn leiða til sparnaðar en þó ekki þannig  að helstu dagskrárliðir s.s. árganganga myndu líða.  M.a. var lagt til að á föstudagskvöldinu yrði  lágstemmdari dagskrá en verið hefur og enn frekar reynt að höfða til íbúanna sjálfra með framlag. Ráðið leggur til að athugað verði hvort hægt sé að kaupa umhverfisvænar blöðrur til að nota við setninguna.

5. Önnur mál (2015010095)
a) Athygli er vakin á breyttu fyrirkomulagi í tengslum við öskudag.  Nú verður haldin hæfileikakeppni í Fjörheimum en engin dagskrá verður í Reykjaneshöll.

b) Ráðið sendir Útsvarsliðinu baráttukveðjur fyrir viðureignina föstudagskvöldið 14. febrúar.

Fleira ekki gert og fundi slitið.
__________

Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 17. febrúar 2015.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina 11-0.