13.03.2015 10:22

97. fundur menningarráðs Reykjanesbæjar haldinn 12. mars 2015 að Tjarnargötu 12, kl: 15:00

Mættir : Eva Björk Sveinsdóttir formaður, Baldur Guðmundsson aðalmaður, Hanna Björg Konráðsdóttir varamaður, Davíð Örn Óskarsson aðalmaður, Elínborg Herbertsdóttir varamaður, Valgerður Guðmundsdóttir framkvæmdarstjóri menningarsviðs og Guðlaug María Lewis fundarritari.  Gestur fundarins var Tómas Young framkvæmdarstjóri Hljómahallar.

1. Ársskýrsla Hljómahallar 2014 (2015030153)
Tómas Young framkvæmdarstjóri kynnti skýrsluna. Hljómahöll opnaði 5. apríl 2014 og var því ekki í rekstri allt árið 2014. Starfsemin hefur gengið vel og segja má að hún sé fjórskipt; Rokksafn Íslands, útleiga á sölum, viðburðahald og veitingasala fyrir utan rekstur tónlistarskólans sem er á ábyrgð fræðslusviðsins. Rokksafnið er opið alla daga og heildargestafjöldi 2014 var 5.033 gestir, 90 % Íslendingar og 10 % erlendir ferðamenn. Fjöldi viðburða var haldinn í Hljómahöll á árinu og þar af voru 10 haldnir í nafni hússins.  Ráðið þakkar greinargóða skýrslu.

2. Ársskýrsla Listasafns Reykjanesbæjar 2014 (2015030154)
Valgerður Guðmundsdóttir forstöðumaður safnsins kynnti skýrsluna. Listasafn Reykjanesbæjar er eina listasafnið á Suðurnesjum og sinnir öllum hefðbundnum safnastörfum. Settar voru upp 11 sýningar á árinu 2014 og safneignin er nú orðin 647 verk.  Safnkosturinn hefur nú verið  skráður í Sarp, sameiginlegan gagnagrunn fyrir listasöfnin í landinu.  Ný vefsíða var opnuð á árinu reykjanesbaer.is/listasafn og einnig er fésbókarsíða í gangi. Útgefnir voru fimm 36 síðna bæklingar og einn 10 síðna bæklingur. 2.000 nemendur heimsóttu safnið og heildargestafjöldi var 38.500 gestir. Listasafnið stýrði verkefnunum Listahátíð barna, List án landamæra og Listaskólanum. Ráðið þakkar greinargóða skýrslu.

3. Ársskýrsla Duushúsa 2014 (2015030155)
Guðlaug M. Lewis deildarstjóri kynnti skýrsluna. Starfsemi Duushúsa var með hefðbundnu sniði og bar helst til tíðina að framkvæmdum við elsta hluta húsanna, Bryggjuhús, lauk og það formlega tekið í notkun. Þar var m.a. opnuð ný grunnsýning Byggðasafnsins. Gestir á árinu voru 38.492 og fjölgaði um tæp 10%.  Komum innlendra hópa fjölgaði mikið og fleiri sóttu opnanir sýninga. Um 2.000 nemendur komu í húsin. 14 nýjar sýningar á vegum Lista- og Byggðasafns voru opnaðar á árinu, um 30 fundir voru haldnir og á þriðja tug annarra menningartengdra viðburða af ýmsum toga fóru fram. Sé gestafjölda jafnað yfir árið, komu um 1.600 gestir í húsin á mánuði, fyrir utan gesti Ljósanætur. Ráðið þakkar greinargóða skýrslu.

4. Skýrsla umsjónarmanns Víkingaheima 2014 (2015030156)
Framkvæmdastjóri kynnti skýrsluna   fyrir hönd umsjónarmanns. Starfsemi Víkingaheima var með hefðbundnum hætti og komu 22.711 gestir í safnið á árinu og er það fjölgun um 9 %.  Stærsti hluti gestanna eru útlendingar 15.564. Fimm sýningar eru í húsinu og ráðstefnusalur sem hefur verið leigður út. Boðið er upp á móttökur alls kyns hópa og mögulegt að opna fyrir hópum utan hefðbundins opnunartíma. Ráðið þakkar greinargóða skýrslu.

5. Gestastofa og upplýsingamiðstöð ferðamála í Duushús (2015030047)
Framkvæmdastjóri kynnti þríhliða samning um rekstur upplýsingamiðstöðvar og gestastofu Reykjanes jarðvangs í Duushúsum.  Þar með hefur náttúran gert innreið sína í Duushúsin því samningnum fylgir sýning sem sett er upp í Bryggjuhúsinu um myndun og mótun Reykjanesskagans, lífríki þar og náttúrufar. Sýningin er samstarfsverkefni Reykjanes jarðvangs og Reykjanesbæjar og Ferðamálstofa í gegnum Markaðsstofu Reykjaness er þriðji aðili samningsins og tryggir styrk til rekstrar upplýsingamiðstöðvarinnar. Ráðið fagnar enn frekari fjölbreytni í Duushúsum og auknu  hlutverki þeirra í uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu.

6. Íbúavefur, skýrsla 2014 (2015030157)
Framkvæmdastjóri kynnti verkefnið fyrir hönd verkefnastjóra Svanhildar Eiríksdóttur sem var ráðin í 20 % starf 1. nóvember 2013 til að halda utan um nýjan íbúavef.  Þetta var tilraunaverkefni sem opnaði 9. janúar 2014. Hlutverk vefsins var að gera íbúum auðveldara með að hafa áhrif á ýmis verkefni bæjarins. Verkefninu var hætt í lok ársins 2014.  Ráðið þakkar greinargóða skýrslu og vonast til að vefurinn, í bættri mynd, verði tekinn upp að nýju.

7. Safnahelgi á Suðurnesjum 2015 (2015030158)
Safnahelgi á Suðurnesjum verður haldin í sjöunda sinn helgina 14. - 15. mars.  Þetta er sameiginlegt verkefni allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum og markmiðið að kynna fyrir landsmönnum hina öflugu flóru safna, setra og sýninga á Suðurnesjum.  Ókeypis er inn á öll söfn og margir viðburðir í boði.  Stærstu viðburðir Reykjanesbæjar að þessu sinni eru opnun á sýningunni Einkasafn poppstjörnu í Rokksafni Íslands og opnun Gestastofu Reykjanes jarðvangs í Duushúsum. 

8. Önnur mál (2015010095)
a) List án landamæra á Suðurnesjum verður haldin með hefðbundnum hætti í 7. sinn dagana 23. apríl til 3. maí. Hátíðin er samstarfsverkefni allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum. 7 verkefni eru í undirbúningi sem nánar verða kynnt síðar.

b) 17. júní. Menningarráð óskar eftir áhugasömum félögum eða hópum til að sjá um leiki og þrautir fyrir fjölskyldur í skrúðgarðinum á 17. júní.  Áhugasamir hafi samband við menningarfulltrúa fyrir 5. apríl n.k. á netfangið menningarfulltrui@reykjanesbaer.is.

c) Að gefnu tilefni vill menningarráð koma því á framfæri að síðustu ár hafa blöðrur sem hafa verið notaðar á Ljósanótt verið úr hreinu Latexi, náttúrulegri afurð gúmmítrjáa, og brotna upp í náttúrunni (earth friendly balloons, bio-degradable). Einnig eru böndin, sem notuð hafa verið til að binda þær, umhverfisvæn.

Fleira ekki gert og fundi slitið.
__________

Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 17. mars 2015.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina 11-0.