367. fundur

10.11.2023 08:15

367. fundur menntaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 10. nóvember 2023 kl. 08:15

Viðstaddir: Sighvatur Jónsson varaformaður, Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, Halldór Rósmundur Guðjónsson, Harpa Björg Sævarsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon.

Að auki sátu fundinn Lóa Björg Gestsdóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara, Anita Engley Guðbergsdóttir fulltrúi FFGÍR, Brynja Aðalbergsdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Jóhanna Helgadóttir fulltrúi leikskólakennara, Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs sem sat fundinn í gegnum fjarfundabúnað, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

Guðný Birna Guðmundsdóttir boðaði forföll og sat Sverrir Bergmann Magnússon fundinn í hennar stað.
Ásgerður Þorgeirsdóttir boðaði forföll og sat Lóa Björg Gestsdóttir fundinn í hennar stað.

1. Skólaslit 3 - læsisverkefni (2023110144)

Kolfinna Njálsdóttir deildarstjóri skólaþjónustu og Anna Hulda Einarsdóttir kennsluráðgjafi mættu á fundinn og kynntu þriðja og síðasta hluta læsisverkefnisins Skólaslita.

Menntaráð þakkar fyrir áhugaverða kynningu á spennandi verkefni sem fjölmargir grunnskólar á landinu hafa nýtt sér.

Fylgigögn:

Skólaslit - kynning

2. Starfsáætlanir grunnskóla Reykjanesbæjar 2023-2024 (2023110036)

Starfsáætlanir grunnskóla Reykjanesbæjar fyrir skólaárið 2023-2024 lagðar fram.

Menntaráð samþykkir starfsáætlanirnar með fyrirvara um samræmingu persónupplýsinga um starfsfólk og foreldraráð. Ráðið felur sviðsstjóra að vinna að málinu. Áætlanirnar verða aðgengilegar á heimasíðum skólanna.

Menntaráð minnir á umræðu á vettvangi ráðsins frá síðasta ári um að birta starfsáætlanir grunnskóla Reykjanesbæjar í auknum mæli á vefformi, en ekki eingöngu sem skjöl á heimasíðum skólanna. Það getur auðveldað til muna yfirferð og samanburð starfsáætlana að geta skoðað breytingar sem hafa verið gerðar á þeim á milli ára.

3. Snjallsímaþing - niðurstöður (2023030312)

Samantekt um niðurstöður málþings um snjallsímalausa grunnskóla sem haldið var í Reykjanesbæ 27. september sl. lögð fram.

Menntaráð þakkar öllum sem komu að vel heppnuðu málþingi sem unnið var í samstarfi við lýðheilsuráð Reykjanesbæjar. Áfram er unnið að málinu og lýðheilsuráð kannar viðhorf foreldra til snjallsímanotkunar nemenda í grunnskólum sveitarfélagsins. Þegar niðurstöður könnunarinnar liggja fyrir verður boðað til sameiginlegs vinnufundar lýðheilsu- og menntaráðs.

Fylgigögn:

Snjallsímanotkun og samfélag ungmenna í grunnskólum Reykjanesbæjar - samantekt

4. FFGÍR - málþing 7. nóvember 2023 (2023110148)

Anita Engley Guðbergsdóttir fulltrúi FFGÍR sagði frá málþingi sem haldið var 7. nóvember sl. Þátttakendur í málþinginu voru FFGÍR, fulltrúar Fjörheima félagsmiðstöðvar, foreldrafélög grunnskóla Reykjanesbæjar, Ungmennaráð Reykjanesbæjar, námsráðgjafar grunnskóla Reykjanesbæjar, deildarstjórar á unglingastigi grunnskóla Reykjanesbæjar, íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar, forvarnarfulltrúi lögreglunnar á Suðurnesjum og Samtakahópurinn, þverfaglegur forvarnarhópur í Reykjanesbæ.

Menntaráð þakkar fyrir kynninguna og hvetur FFGÍR til áframhaldandi frumkvæðis að mikilvægum verkefnum sem hafa skilað sér í forvarnar- og fræðsluefni. Mikilvægt er að leiða saman fjölbreytta hagaðila sem vinna með börnum og ungmennum í Reykjanesbæ til að mynda skýra stefnu um hvernig má bæta almenna stöðu og líðan unga fólksins okkar.

5. Leikskólar og dagforeldrar (2023040132)

Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi fór yfir upplýsingar um laus pláss á leikskólum Reykjanesbæjar og stöðu biðlista eftir plássum hjá dagforeldrum í sveitarfélaginu.

Menntaráð ítrekar mikilvægi þess að kjörnir fulltrúar og starfsfólk Reykjanesbæjar hafi aðgang að nauðsynlegum gögnum um stöðu mála varðandi dagvistunarúrræði í sveitarfélaginu við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024. Upplýsingar um hámarksfjölda, nýtingu og laus pláss í öllum stofnunum bæjarins þurfa að vera aðgengilegar með einföldum og skýrum hætti.

Hjá Reykjanesbæ hefur verið unnið mikið og gott starf við að gera sem flestar hagtölur lifandi þannig að þær endurspegli sem best stöðuna á hverjum tíma. Samfara breytingum á vinnslu gagna í tengslum við leikskóla sveitarfélagsins hefur hið svokallaða mælaborð menntasviðs orðið betra og áreiðanlegra verkfæri í þessum efnum en fyrri kerfi og aðferðir.

Hugmyndir hafa verið uppi á menntasviði um að nýta sambærilegar lausnir við gagnavinnslu varðandi leikskóla og dagforeldra. Menntaráð felur sviðsstjóra að kanna hvaða næstu skref þarf að taka til að bæta gagnavinnslu vegna starfsemi dagforeldra í sveitarfélaginu.

Gígja Sigríður Guðjónsdóttir fulltrúi D-lista lagði fram eftirfarandi bókun:

Með opnun tveggja 120 barna leikskóla þarf að huga að starfsfólki og ég velti fyrir mér hvort það sé byrjað að meta hver starfsmannaþörfin er á faglærðu og ófaglærðu starfsfólki og hvenær og hvernig verður farið í þær aðgerðir.

Hefur það verið metið hver fjölgun leikskólaplássa í Reykjanesbæ verður á næstu 2 árum í ljósi lokana og viðhalds á núverandi leikskólum og er raunhæft að meðalaldur barna sem fær leikskólapláss í bænum fari lækkandi með opnun leikskólanna næsta haust?

6. Sumarleyfi leikskóla Reykjanesbæjar (2023100307)

Eftir umræðu um með hvaða hætti eigi að haga leyfum í leikskólum Reykjanesbæjar felur menntaráð sviðsstjóra að ræða við forsvarsaðila Skólapúlsins um spurningar í næstu könnun til þess að leita eftir áliti foreldra á hugmyndum um útfærslur leyfa í leikskólum um sumar og milli jóla og nýárs.

7. Leyfi fyrir daggæslu barna í heimahúsi (2023050683)

Lögð fram umsókn um starfsleyfi fyrir dagforeldri frá Ana Carolina Garcia.

Starfsleyfið er veitt.

8. Mælaborð menntasviðs - árshlutauppgjör janúar-september (2023110147)

Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs fór yfir árshlutauppgjör mælaborðs fyrir janúar-september 2023.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:24. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 21. nóvember 2023.