370. fundur

12.01.2024 08:15

370. fundur menntaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 12. janúar 2024 kl. 08:15

Viðstaddir: Sighvatur Jónsson varaformaður, Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldór Rósmundur Guðjónsson og Harpa Björg Sævarsdóttir.

Að auki sátu fundinn Ásgerður Þorgeirsdóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara, Anita Engley Guðbergsdóttir fulltrúi FFGÍR, Hildigunnur Eir Kristjánsdóttir fulltrúi ungmennaráðs , Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs, Sigurbjörg Róbertsdóttir grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

Sverrir Bergmann Magnússon boðaði forföll og sat Guðný Birna Guðmundsdóttir fundinn í hans stað.

Menntaráð samþykkti samhljóða að taka á dagskrá málið Orðsporið 2024 - tilnefningar (2024010195). Fjallað er um málið undir dagskrárlið 7.

1. Barna- og ungmennaþing Reykjanesbæjar 19. október 2023 - niðurstöður (2023110099)

Ólafur Bergur Ólafsson umsjónarmaður ungmennaráðs mætti á fundinn og kynnti, ásamt Hildigunni Eir Kristjánsdóttur fulltrúa ungmennaráðs, niðurstöður Barna- og ungmennaþings Reykjanesbæjar sem haldið var 19. október 2023.

Menntaráð þakkar Ólafi Bergi og Hildigunni Eir kærlega fyrir greinargóða kynningu á niðurstöðum barna- og ungmennaþings Reykjanesbæjar. Ljóst er að mjög metnaðarfullt starf einkenndi þingið en þátttakendur voru alls 153 ungmenni á aldrinum 13-18 ára. Á þinginu var hægt að setja fram tillögur og ábendingar en þinginu bárust 300 skriflegar og 1.400 rafrænar ábendingar. Út frá öllum frábæru tillögunum voru settar fram sex lykiláherslur barna og ungmenna Reykjanesbæjar en þær voru: Íþróttir, menntun, menning, lýðheilsa, umhverfið og samgöngur og að lokum tómstundir og frítíminn.

Mikilvægt er að börn og ungmenni Reykjanesbæjar fái vettvang til að tjá sig um þeirra samfélag og er þingið því einkar mikilvægt. Menntaráð kann vel að meta þær metnaðarfullu tillögur sem bárust og mun rýna betur í niðurstöður þeirra og hvar og hvernig hægt sé að ljá þeim rödd innan stjórnsýslu bæjarins og þar með í samfélaginu okkar.

2. Málstefna leikskólans Hjallatúns (2024010143)

Elsa Pálsdóttir verkefnastjóri og Ólöf Magnea Sverrisdóttir leikskólastjóri frá leikskólanum Hjallatúni mættu á fundinn og kynntu málstefnu leikskólans Hjallatúns.

Menntaráð þakkar Elsu og Ólöfu kærlega fyrir gott og fróðlegt erindi og innsýn í veglegt starf leikskólans Hjallatúns.

Fylgigögn:

Málstefna leikskólans Hjallatúns

3. Starfsáætlun skrifstofu menntasviðs 2024 (2023110335)

Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs kynnti starfsáætlun skrifstofu menntasviðs fyrir árið 2024.

Menntaráð þakkar fyrir greinargóða kynningu á starfsáætlun skrifstofu menntasviðs. Starfsáætlunin er metnaðarfull og mjög lýsandi. Menntaráð vill sérstaklega hrósa áætluninni fyrir góðar upplýsingar líkt og helstu markmið fyrir árið 2024 auk greinargóðs kafla um lykiltölur sviðsins en menntaráð hefur áður ályktað um mikilvægi þess að fá greinargóðar upplýsingar. Sjá má að fjöldi nemenda í grunnskólunum okkar sjö eru alls 2.626 og fjöldi nemenda í leikskólunum 11 eru alls 1.055. Nemendur tónlistarskólans eru 925.

Menntaráð staðfestir starfsáætlun skrifstofu menntasviðs fyrir árið 2024.

4. Endurbætur á skólalóðum grunnskóla (2023010276)

Sigurbjörg Róbertsdóttir, starfandi grunnskólafulltrúi, kynnti teikningar af skólalóðum grunnskólanna í Reykjanesbæ en þær eru afrakstur vinnu sérstaks stýrihóps um endurbætur á skólalóðum. Tillögurnar eru unnar í samstarfi við verkfræðistofuna Eflu og í góðu samráði við skólasamfélag hvers grunnskóla. Í fjárfestingaráætlun fyrir árið 2024 eru áætlaðar 60 m.kr. til endurbóta á skólalóðum. Heildarkostnaður við endurbætur á skólalóðum fimm grunnskóla nemur alls 440 m.kr. Þar sem Stapaskóli er nýlega byggður er sá skóli utan áætlunar og auk þess er gert ráð fyrir endurbótum á skólalóð Myllubakkaskóla og Holtaskóla í uppbyggingarferli skólanna. Kostnaðurinn er misjafn eftir skólum en á árinu verður byrjað á endurbótum fyrir alls 60 milljónir og verkefninu fylgt eftir í fjárhagsáætlunarvinnu fyrir næsta ár.

5. Umferðaröryggi barna (2023070035)

Menntaráð auk íþrótta- og tómstundaráðs hafa undanfarna mánuði fjallað um frístundaakstur barna. Það mál stendur þannig að hætt verður að sækja börn úr íþróttastarfi og keyra þau til baka til frístundaheimilanna, breytingin tekur gildi frá og með 10. febrúar næstkomandi. Ástæða breytingarinnar er öryggi barna vegna mikillar umferðar á svæðinu hjá Reykjaneshöllinni og við Fimleikaakademíuna.

Í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2024 var samþykkt að veita 20 milljónum króna til verkefnisins „Umferðaröryggi barna“. Vegna aðstæðna sem skapast hafa við Reykjaneshöll og við Fimleikaakademíuna, þar sem mikill fjöldi barna kemur saman daglega auk mikillar umferðar, leggur menntaráð áherslu á að verkefninu „Umferðaröryggi barna“ verði hrundið af stað sem allra fyrst og leggur áherslu á að verkefnið hefjist á að greina umferð og aðstæður við umrædd mannvirki.

Menntaráð leggur til að málinu verði vísað til umhverfis- og skipulagsráðs og hafist verði handa við verkefnið sem allra fyrst.

6. 30 ára afmæli Reykjanesbæjar 11. júní 2024 - afmælissjóður (2024010135)

Reykjanesbær er 30 ára í ár og því ber að fagna. Í tilefni afmælisársins hefur verið opnað fyrir umsóknir í afmælissjóð sem allir geta sótt um styrk í vegna verkefna og viðburða sem tengjast afmælishátíðinni. Hvetur menntaráð íbúa til að sækja um styrki á vef Reykjanesbæjar.

Fylgigögn:

Frétt um afmælissjóðinn á vef Reykjanesbæjar
Rafræn umsókn um styrk úr afmælissjóði Reykjanesbæjar

7. Orðsporið 2024 - tilnefningar (2024010195)

Verðlaunin Orðsporið eru veitt árlega á degi leikskólans þann 6. febrúar en að Orðsporinu standa Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, Samband íslenskra sveitarfélaga, mennta- og barnamálaráðuneytið auk Heimila og skóla. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi skólastarf, umbætur og þróun í menntamálum eða kennsluháttum á leikskólastiginu. Hægt er að tilnefna verkefni með því að senda póst á netfangið dagurleikskolans@ki.is fyrir 22. janúar.

Menntaráð Reykjanesbæjar vill hvetja sérstaklega til tilnefninga frá leikskólunum okkar sem eru víðfrægir fyrir metnaðarfullt starf sitt.

Fylgigögn:

Óskað eftir tilnefningum til Orðsporsins 2024 - frétt á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:23. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 23. janúar 2024.