372. fundur

08.03.2024 08:15

372. fundur menntaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 8. mars 2024 kl. 08:15

Viðstödd: Sverrir Bergmann Magnússon formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Halldór Rósmundur Guðjónsson, Harpa Björg Sævarsdóttir og Sighvatur Jónsson.

Að auki sátu fundinn Ásgerður Þorgeirsdóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara, Anita Engley Guðbergsdóttir fulltrúi FFGÍR, Brynja Aðalbergsdóttir fulltrúi leikskólastjóra og starfandi leikskólafulltrúi, Jóhanna Helgadóttir fulltrúi leikskólakennara, Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs, Sigurbjörg Róbertsdóttir grunnskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

Gígja Sigríður Guðjónsdóttir boðaði forföll og sat Birgitta Rún Birgisdóttir fundinn í hennar stað.

1. Atvinnutengt nám (2024030086)

Einar Trausti Einarsson, yfirsálfræðingur skólaþjónustu menntasviðs, mætti á fundinn og kynnti niðurstöður og tillögur vinnuhóps um atvinnutengt nám í grunnskólum Reykjanesbæjar ásamt kostnaðaráætlun.

Menntaráð felur Helga Arnarsyni sviðsstjóra menntasviðs að vinna málið áfram.

2. Nærandi námsumhverfi – Nurture (2024030069)

Gróa Axelsdóttir skólastjóri Stapaskóla mætti á fundinn og kynnti verkefni um barnamiðað lærdómsumhverfi (e. Nurture). Skólinn er að prufukeyra verkefnið hér á landi en því er ætlað að bæta aðgengi allra barna að námi.

Menntaráð þakkar fyrir góða kynningu á áhugaverðu verkefni sem stuðlar að betri líðan nemenda.

Fylgigögn:

Nurture - kynning
Barnamiðað lærdómsumhverfi - meginreglur
Grein um Nurture

3. Lýðheilsu- og forvarnarmál (2024030103)

Hafþór Barði Birgisson, íþrótta- og tómstundafulltrúi, mætti á fundinn og kynnti þróun og stöðu lýðheilsu- og forvarnarmála í Reykjanesbæ.

Menntaráð þakkar fyrir yfirgripsmikla kynningu á fjölþættum verkefnum á sviði forvarna- og lýðheilsumála.

4. Bættar starfsaðstæður leikskólakennara (2024030084)

Lagt fram erindi frá stjórnendum í leikskólum Reykjanesbæjar þar sem hvatt er til þess að stofnaður verði starfshópur á vegum sveitarfélagsins til að skoða starfsaðstæður barna og starfsfólks í leikskólum sveitarfélagsins. Stjórnendur lýsa yfir áhyggjum af því að í ljósi fjölgunar leikskóla og stækkunar annarra skóla sé hætt við að ekki verði hægt að fullmanna alla skóla bæjarins í haust.

Menntaráð leggur til að starfshópur verði myndaður í kjölfarið til að skoða starfsaðstæður barna og starfsfólks í leikskólum Reykjanesbæjar nánar til að mæta þeim áhyggjum sem leikskólastjórnendur lýsa yfir, koma með tillögur til úrbóta og kostnaðarmat þeirra.

Lagt er til að í hópnum verði leikskólafulltrúi, sviðsstjóri menntasviðs, mannauðsstjóri, kjörnir fulltrúar í menntaráði, fulltrúi leikskólastjóra, fulltrúi leikskólakennara, fulltrúi starfsfólks leikskóla og fulltrúi foreldra leikskólabarna.

5. Nafn á nýjum leikskóla í Dalshverfi III (2022100203)

Til stendur að opna nýjan leikskóla í Dalshverfi III næsta haust. Leikskólinn hefur haft vinnuheitið Drekadalur sem hefur náð að festa sig í sessi og virðist vera almenn ánægja með nafnið. Þeir sem hafa komið að undirbúningi lóðarinnar sjá til að mynda fyrir sér dreka á lóðinni. Nýráðinn leikskólastjóri styður tillögu um nafnið Drekadalur og sér mörg tækifæri tengd því. Nafnið er til þess fallið að ýta undir ímyndunarafl og sköpunargleði barna og hjálpa starfsfólki, börnum og foreldrum að skapa sannkallaðan ævintýraheim í hjarta Dalshverfis III.

Menntaráð leggur því til að nýr leikskóli í Dalshverfi III fái nafnið Drekadalur.

6. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála - málefni dagforeldra (2024020479)

Lagt fram erindi frá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála varðandi málefni dagforeldra. Samkvæmt breytingarreglugerð um daggæslu barna í heimahúsum nr. 409/2023 veitir Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála nú rekstrarleyfi til daggæslu barna í heimahúsum og hefur eftirlit með gæðum þjónustu á grundvelli laga nr. 88/2021, um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Þegar umsókn hefur borist sendir Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála umsagnarbeiðni til sveitarfélags í heimilisumdæmi umsækjanda. Sveitarfélög bera eftir sem áður ábyrgð á því að höfð sé umsjón og innra eftirlit með starfsemi dagforeldra.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:14. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 19. mars 2024.