387. fundur

29.08.2025 08:15

387. fundur menntaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Grænásbraut 910 þann 29. ágúst 2025 kl. 08:15

Viðstaddir: Sverrir Bergmann Magnússon formaður, Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, Halldór Rósmundur Guðjónsson, Harpa Björg Sævarsdóttir og Sighvatur Jónsson.

Að auki sátu fundinn Sigurbjörg Róbertsdóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Ingunn Rós Valdimarsdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Anita Engley Guðbergsdóttir fulltrúi FFGÍR, Kristjana Arnarsdóttir fulltrúi leikskólakennara, Maciej Baginski fulltrúi foreldra leikskólabarna, Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

Helga Jóhanna Oddsdóttir boðaði forföll og sat Gígja Sigríður Guðjónsdóttir fundinn í hennar stað. Anna Lydia Helgadóttir boðaði forföll og sat Kristjana Arnarsdóttir fundinn í hennar stað.

1. Upphaf skólastarfs 2025 (2025080408)

Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi fóru yfir upphaf skólastarfs í leik- og grunnskólum Reykjanesbæjar.

Þann 25. ágúst 2025 voru 1.084 börn í 12 leikskólum í sveitarfélaginu. Þegar leikskólinn Drekadalur verður kominn í fulla notkun verður fjöldi leikskólabarna kominn í 1165. Öll börn fædd 2023 hafa fengið boð um leikskólapláss en þó eru örfá börn sem hafa verið að flytja í sveitarfélagið eða hafa sérstakar óskir varðandi staðsetningu leikskóla enn á biðlista. Í haust munu nokkrir leikskólar byrja að taka inn börn fædd í janúar og febrúar 2024.

Hjallastefnan ehf. hefur sagt upp samningi um rekstur leikskólanna Akurs og Vallar. Reykjanesbær mun taka við rekstri Vallar þann 1. október 2025. Sigrún Gyða Matthíasdóttir leikskólastjóri á Akri hefur gert þjónustusamning við Reykjanesbæ um rekstur Akurs og tekur við af Hjallastefnunni þann 1. september 2025.

Við upphaf skólastarfs í grunnskólum Reykjanesbæjar skólaárið 2025-2026 eru skráðir 2.742 nemendur. 591 nemandi er skráður í frístundaheimili skólanna. Frístundaakstur verður áfram í boði fyrir börn sem skráð eru á frístundaheimilin og er stefnt að því að aksturinn hefjist í byrjun september. Eins og á síðasta skólaári verður nemendum ekið í íþróttir eða tómstundir en ekki aftur á frístundaheimilin.

2. Endurmenntunarráðstefna grunnskóla (2025080409)

Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi sagði frá endurmenntunarráðstefnu skrifstofu menntasviðs sem fram fór í Hljómahöll þann 13. ágúst 2025. Dagskráin í ár bar yfirskriftina „Heildstæð nálgun í skólastarfi“ og var helguð farsæld barna, nýjungum í námsmati, viðhorfi og nálgun við hegðunarvanda og hlutverki gervigreindar í skólastarfi. Um 350 starfsmenn grunnskóla Reykjanesbæjar sóttu ráðstefnuna.

Fylgigögn:

Endurmenntunarráðstefna skrifstofu menntasviðs 2025 - Heildstæð nálgun í skólastarfi

3. Verklag vegna undirmönnunar í leikskólum (2025050381)

Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi kynnti niðurstöður starfshóps um endurskoðun verklags vegna undirmönnunar í leikskólum.

Starfshópurinn mun vinna áfram í málinu í samræmi við umræður á fundinum og verður það tekið aftur fyrir á næsta fundi menntaráðs.

4. Farsæld á Suðurnesjum (2025060040)

Hjördís Eva Þórðardóttir, verkefnastjóri farsældar barna á Suðurnesjum, mætti á fundinn og kynnti niðurstöður æskulýðsrannsókna er varða líðan, tengsl og þátttöku barna í samfélaginu. Hún benti á mikilvægi þverfaglegs samstarfs og þess að öll kerfi vinni saman að farsæld barna.

Farsældarráð Suðurnesja var stofnað í júní síðastliðnum. Meginmarkmið farsældarráðs Suðurnesja er að efla og samræma þjónustu við börn og fjölskyldur með samþættri, snemmtækri og heildstæðri nálgun. Að ráðinu standa Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Grindavíkurbær, Vogar, Framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilsugæslan Höfða, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Ungmennaráð Suðurnesja, Embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og Sýslumannsins á Suðurnesjum auk Svæðisstöðvar íþróttahéraða.

5. Heillaspor (2025080410)

Málinu frestað til næsta fundar menntaráðs.

6. Staða framkvæmda (2024040176)

Hreinn Ágúst Kristinsson, deildarstjóri eignaumsýslu og Gissur Hans Þórðarson, verkefnastjóri frá OMR verkfræðistofu, mættu á fundinn og fóru yfir stöðu framkvæmda á menntasviði.

7. Mælaborð janúar-júní 2025 (2025060063)

Málinu frestað til næsta fundar menntaráðs.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:32. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 2. september 2025.