- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Viðstaddir: Sverrir Bergmann Magnússon formaður, Halldór Rósmundur Guðjónsson, Harpa Björg Sævarsdóttir, Ríkharður Ibsen og Sighvatur Jónsson.
Að auki sátu fundinn Sigurbjörg Róbertsdóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Anita Engley Guðbergsdóttir fulltrúi FFGÍR, Ólöf Magnea Sverrisdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Anna Lydia Helgadóttir fulltrúi leikskólakennara, Maciej Baginski fulltrúi foreldra leikskólabarna, Aðalheiður Ísmey Davíðsdóttir fulltrúi ungmennaráðs, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
Ingunn Rós Valdimarsdóttir fulltrúi grunnskólakennara boðaði forföll.
Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi kynnti niðurstöður kannana sem gerðar voru meðal foreldra og starfsfólks á leikskólum Reykjanesbæjar varðandi fyrirkomulag skráningardaga í dymbilviku og vetrarfríum.
Meirihluti svarenda var ánægður með fyrirkomulagið og fannst það skýrt og auðskilið. 79% fannst fyrirkomulagið skýrt og auðskilið, 69% fannst skráningarferlið auðvelt og 68% sögðust vera ánægð með fyrirkomulagið.
67% foreldra telja afslátt af leikskólagjöldum sanngjarna hvatningu til að nýta ekki þjónustuna á þessum tímabilum.
Viðtökur voru almennt góðar en svigrúm er til úrbóta varðandi upplýsingagjöf þar sem um 10% svarenda vissu ekki af afslættinum.
Meðal starfsmanna voru flestir svarendur á því að fyrirkomulagið væri árangursríkt og drægi úr álagi og mönnunarvanda. Meira en helmingur sagði fyrirkomulagið hafa jákvæð áhrif á starfsanda.
Algengar tillögur starfsfólks til úrbóta eru skýrari reglur um skráningu og samræmdari stefna um lokanir en nú er.
Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi fór yfir stöðu biðlista í leikskólum Reykjanesbæjar. Í byrjun nóvember 2025 voru 134 börn á biðlista eftir leikskólaplássum í sveitarfélaginu. Samkvæmt fundargögnum er þetta fjöldi barna sem sótt hefur verið um leikskólapláss fyrir sem hafa ekki enn fengið úthlutað.
Formaður gerði fundarhlé kl. 8:46.
Fundur settur aftur kl. 9:25.
Ríkharður Ibsen (D) og Harpa Björg Sævarsdóttir (U) lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Umbótar skora á bæjaryfirvöld að gera heildarúttekt á stöðu leikskólamála í sveitarfélaginu. Í tvö kjörtímabil hefur staðið til að börn séu tekin inn í leikskóla við 18 mánaða aldur en raunin virðist vera sú að flest börn hafi verið að hefja leikskóladvöl 24-29 mánaða gömul. Ef þær tölur reynast réttar þá hefur staðan í þessum málaflokki verið langverst hjá Reykjanesbæ í samanburði við sambærileg sveitarfélög um árabil og fyrir löngu tímabært að ráðast í úrbætur. Reykjavíkurborg hefur verið reglulega gagnrýnd fyrir slæma stöðu í leikskólamálum en miðað við stöðu biðlista í leikskólum Reykjanesbæjar sem lagður var fram á fundi fræðsluráðs 14. nóvember þá virðast biðlistar í Reykjanesbæ vera hartnær helmingi lengri en hjá borginni ef miðað er við íbúafjölda.
Sverrir Bergmann Magnússon (S), Sighvatur Jónsson (B) og Halldór Rósmundur Guðjónsson (Y) lögðu fram eftirfarandi bókun:
Meirihluti menntaráðs Reykjanesbæjar er sammála um mikilvægi úttektar og felur sviðsstjóra menntasviðs að vinna að því að gerð verði heildarúttekt á stöðu leikskólamála í Reykjanesbæ í samanburði við sambærileg sveitarfélög. Markmið úttektarinnar er að kanna möguleika á því að taka börn inn í leikskóla í Reykjanesbæ við 18 mánaða aldur en í dag er miðað við börn sem verða tveggja ára á árinu. Einnig verði skoðað á hvaða aldri börn hafa verið þegar þau hafa fengið úthlutað leikskólaplássi í sveitarfélaginu á yfirstandandi kjörtímabili. Rétt er að benda á að í næstu viku verður tekinn í notkun nýr leikskóli í Drekadal þar sem bætast munu við 43 leikskólapláss og 30 til viðbótar á árinu 2026. Fullbúinn verður þessi nýi leikskóli í Innri-Njarðvík fyrir 120 börn.
Leikskólinn Drekadalur, sem starfað hefur síðustu 15 mánuði í bráðabirgðaaðstöðu í ráðhúsi Reykjanesbæjar í Ásbrúarhverfi, mun opna mánudaginn 17. nóvember nk. í nýju og glæsilegu húsnæði sem stendur við Drekadal í Njarðvík.
Menntaráð fagnar nýjum leikskóla í ört stækkandi Dalshverfi III í Innri-Njarðvík sem mun bæta þjónustu sveitarfélagsins við foreldra leikskólabarna. Starfsfólk Drekadals á hrós skilið fyrir að sinna starfsemi leikskólans í bráðabirgðahúsnæði á Ásbrú á meðan lokið var við framkvæmdir við leikskólann í Drekadal. Með tilkomu nýja leikskólans í Drekadal bætast við 43 ný pláss þar sem fjöldi leikskólabarna fer úr 47 í 90. Fullbúinn verður leikskólinn fyrir 120 börn.
Fylgigögn:
Leikskólinn Drekadalur í nýtt húsnæði
Háaleitisskóli í Reykjanesbæ hlaut hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna 2025 fyrir að hafa tekist að skapa einstakan fjölmenningarskóla sem getur orðið öðrum fyrirmynd. Í Háaleitisskóla eru um 370 nemendur og sjö af hverjum tíu þeirra eru af erlendum uppruna. Í skólanum eru töluð um 30 tungumál og hefur tekist að byggja upp einstaklega jákvæða skólamenningu þar sem fjölmenning er skilgreind sem styrkur.
Menntaráð óskar Háaleitisskóla til hamingju með verðlaunin og þakkar starfsfólki og nemendum fyrir frábært starf.
Fylgigögn:
Með því að smella hér má skoða frétt um hvatningarverðlaunin á vef Reykjanesbæjar
Akurskóli fagnaði nýlega 20 ára afmæli og var haldið upp á tímamótin þann 7. nóvember sl. Akurskóli var vígður 9. nóvember 2005, aðeins rúmu ári eftir að fyrsti áfangi skólans reis, en fyrsta skóflustunga að byggingu skólans var tekin 20. mars 2004.
Menntaráð óskar starfsfólki og nemendum Akurskóla og íbúum öllum til hamingju með afmælið.
Fylgigögn:
Með því að smella hér má skoða frétt um afmæli Akurskóla á vef Reykjanesbæjar
Starfsáætlanir grunnskóla Reykjanesbæjar fyrir skólaárið 2025-2026 lagðar fram.
Menntaráð staðfestir starfsáætlanirnar og þakkar skólunum fyrir vel unnar og vandaðar starfsáætlanir skólaársins 2025–2026. Ráðið fagnar því faglega starfi sem endurspeglast í áætlununum og þeirri skýru sýn sem skólarnir leggja fram um menntun, stuðning við nemendur og gott skólasamfélag.
Menntaráð tekur sérstaklega undir þá jákvæðu þróun sem sjá má í áherslum á vellíðan nemenda, faglegt samstarf starfsfólks, stoðþjónustu og markvissa uppbyggingu námsumhverfis. Þá lítur ráðið jákvæðum augum á metnaðarfullar áætlanir skólanna um áframhaldandi gæði, faglegt umbótastarf og samræmingu við menntastefnu Reykjanesbæjar.
Ráðið hvetur skólastjórnendur til að halda áfram á sömu braut og þakkar fyrir gott og faglegt starf í þágu nemenda Reykjanesbæjar.
Starfsáætlanirnar verða aðgengilegar á heimasíðum skólanna.
Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi fór yfir fjárhagsáætlun sviðsins fyrir árið 2026. Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2026-2029 fer til fyrri umræðu í bæjarstjórn 18. nóvember.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:13. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 18. nóvember 2025.