- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Viðstaddir: Sverrir Bergmann Magnússon formaður, Halldór Rósmundur Guðjónsson, Harpa Björg Sævarsdóttir, Ríkharður Ibsen og Sighvatur Jónsson.
Að auki sátu fundinn Sigurbjörg Róbertsdóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Ingunn Rós Valdimarsdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Ólöf Magnea Sverrisdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Anna Lydia Helgadóttir fulltrúi leikskólakennara, Maciej Baginski fulltrúi foreldra leikskólabarna, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
Starfsáætlanir leikskóla Reykjanesbæjar fyrir starfsárið 2024-2025 lagðar fram til kynningar.
Menntaráð Reykjanesbæjar hefur kynnt sér framlagðar starfsáætlanir leikskóla Reykjanesbæjar fyrir skólaárið 2025–2026. Í áætlununum kemur skýrt fram metnaður í faglegu starfi, markviss sýn á velferð og þroska barna og áhersla á leik, vellíðan, læsi, heilsueflingu og skapandi starf. Menntaráð hvetur stjórnendur til að huga að samræmingu starfsáætlana milli leikskóla sveitarfélagsins með menntastefnu Reykjanesbæjar að leiðarljósi.
Starfsáætlanirnar verða aðgengilegar á heimasíðum skólanna.
Sverrir Bergmann Magnússon formaður menntaráðs og Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs fóru yfir stækkunarmöguleika í leikskólum Reykjanesbæjar.
Menntaráð Reykjanesbæjar hefur kynnt sér framlagt minnisblað um stækkunarmöguleika leikskóla í sveitarfélaginu og fagnar þeim raunhæfu og vel útfærðu kostum sem þar eru lagðir fram. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögum er gert ráð fyrir að mögulegt sé að fjölga leikskólaplássum um samtals um 120–130 börn með stækkun núverandi leikskóla, sem jafngildir í reynd uppbyggingu eins nýs leikskóla. Menntaráð telur slíkar stækkanir mikilvægt og hagkvæmt skref til að mæta aukinni þörf fyrir leikskólapláss og leggur áherslu á áframhaldandi vinnu við mat, forgangsröðun og útfærslu með hliðsjón af svæðisbundinni þörf, rekstrarhagkvæmni og heildarhagsmunum barna og fjölskyldna í Reykjanesbæ.
Menntaráð felur sviðsstjóra menntasviðs að vinna málið áfram.
Einar Trausti Einarsson forstöðusálfræðingur mætti á fundinn og kynnti framgang átaksverkefnis sem unnið hefur verið síðastliðið ár í því skyni að fækka börnum sem bíða eftir athugunum sálfræðinga hjá skólaþjónustu menntasviðs. Verkefnið hefur gengið afar vel og samkvæmt áætlun. Á 12 mánaða tímabili hefur börnum sem bíða eftir aðkomu sálfræðinga fækkað um þriðjung og biðtími styst um fjórðung.
Menntaráð Reykjanesbæjar fagnar þeim góða árangri sem náðst hefur í átaksverkefni menntasviðs sem miðar að því að stytta bið barna eftir þjónustu sálfræðinga hjá skólaþjónustu. Fram kemur að markvissar aðgerðir, breytt verklag og aukin áhersla á snemmbæran stuðning hafi skilað verulegri fækkun barna á biðlista og bættri þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Það er ánægjulegt að sjá að átaksverkefnið er að ganga vel og hefur leitt til raunhæfra og varanlegra umbóta í þjónustunni. Menntaráð þakkar starfsfólki skólaþjónustunnar fyrir faglegt og árangursríkt starf og leggur áherslu á að haldið verði áfram á þessari jákvæðu braut.
Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi fór yfir upplýsingar varðandi stöður skólafélagsráðgjafa í grunnskólum Reykjanesbæjar.
Í sex af sjö grunnskólum Reykjanesbæjar er skólafélagsráðgjafi eða ígildi þess starfs. Helstu verkefni ráðgjafa eru stuðningur og ráðgjöf við nemendur og fjölskyldur, snemmtæk íhlutun og þátttaka í teymisvinnu. Reynslan er mjög jákvæð og vilji er til að efla þessa þjónustu enn frekar í öllum skólum.
Málinu er frestað til næsta fundar.
Hreinn Ágúst Kristinsson deildarstjóri eignaumsýslu mætti á fundinn og kynnti fjárfestingaáætlun menntasviðs fyrir árið 2026.
Hreinn Ágúst Kristinsson deildarstjóri eignaumsýslu mætti á fundinn.
Erindi frá Sigurbjörgu Róbertsdóttur, fulltrúa skólastjóra grunnskóla í menntaráði, lagt fram og fylgdi hún því eftir. Þar er vakin athygli á stöðu skólalóða í sveitarfélaginu og óskað eftir svörum um stöðu og áform sem tengjast fullnaðarframkvæmdum og fjármögnun á næstu árum. Einnig var lagt fram minnisblað frá eignaumsýslu Reykjanesbæjar þar sem farið er yfir stöðu mála varðandi framkvæmdir á skólalóðum og áætlun fyrir árið 2026.
Eignaumsýsla Reykjanesbæjar og starfshópur um endurnýjun skólalóða munu hittast og fara yfir stöðu málsins.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:15. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. desember 2025.