19. fundur

01.04.2020 15:15

19. fundur í neyðarstjórn Reykjanesbæjar - fjarfundur 1. apríl 2020 kl. 15:15

Þátttakendur: Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Unnar S. Bjarndal bæjarlögmaður, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, María Gunnarsdóttir forstöðumaður barnaverndar og staðgengill sviðsstjóra velferðarsviðs, Regína F. Guðmundsdóttir fjármálastjóri, Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri, Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir deildarstjóri þjónustu og þróunar, Kristinn Óskarsson mannauðsstjóri, Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar, Theodór Kjartansson vinnuverndar- og öryggisfulltrúi, Jóhann Friðrik Friðriksson forseti bæjarstjórnar, Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.

1. Upplýsingafundur Almannavarna

Sóttvarnarlæknir mun leggja til í dag við heilbrigðisráðherra að samkomubann sem gildir til 13. apríl verði framlengt út apríl mánuð. Verður svo endurskoðaða síðar í apríl.
Óútfært hvernig slakað verði á aðgerðum þegar kemur að því.

2. Staðan á sviðum

Velferðarsvið

Staðan lítið breytt. Velferðarsvið hefur áhyggjur af velferð barna þar sem mikið álag er á barnafjölskyldum.

Fræðslusvið

ADHD foreldranámskeiði lauk í gær en það fór fram í fjarfundi og gekk frábærlega.
Sálfræðingar á fræðslusviði hafa útbúið hagnýtt efni fyrir foreldra undir yfirskriftinni Að takast á við óvissutíma. Efnið er gert aðgengilegt foreldrum á formi tveggja glærukynninga, Hagnýt ráð til að viðhalda reglu og rútínu og Hagnýt ráð fyrir foreldra barna og ungmenna sem sýna óöryggi. Markmið fræðsluefnisins er að veita hjálpleg ráð sem geta nýst foreldrum að styðja við börnin sín á þessum óvissutímum.
Þá munu sálfræðingar á fræðslusviði einnig bjóða uppá símaráðgjöf til foreldra barna í leik- og grunnskólum á meðan á samkomubanni stendur. Símaráðgjöfinni er ætlað að styðja foreldra við að aðstoða börnin sín að takast á við breyttar aðstæður á tímum Covid-19 veirunnar og fylgja fræðsluefninu eftir með almennri ráðgjöf til foreldra. Símtölin miðast við 10-15 mínútur.
Verið er að taka saman yfirlit yfir hvernig gengið hefur í grunnskólunum með kennslu á unglingastigi sem farið hefur að mestu leyti fram í fjarkennslu. Einnig er verið að taka saman tölulegar upplýsingar um mætingu barna í leikskólum og grunnskólum á því tímabili sem takmörkun á skólahaldi er í gildi.
Ásamt því að bjóða upp á fjölbreytta rafræna viðburði í félagsmiðstöðinni Fjörheimum er tíminn nú nýttur til margvíslegra viðhaldsverkefna og til að fríkka upp á útlit félagsmið-stöðvarinnar. Verið er að smíða nýjan hjólabrettapall og koma upp aðstöðu fyrir rafíþróttadeild Keflavíkur.
Fylgst er með íþróttasvæðum bæjarins og hafa tilkynningar verið sendar út á samfélagsmiðlum þar sem foreldrar eru hvattir til að útskýra fyrir börnum sínum mikilvægi þess að virða nálægðartakmarkanir og þau fyrirmæli sem gefin hafa verið út.

Umhverfissvið - skrifstofa og umhverfissmiðstöð

Einn bæst við í fjarvinnu og eru þá þrír starfsmenn skrifstofu í fjarvinnu, að öðru leiti allt óbreytt. Höldum stutta fjarfundi daglega til að hittast og gengur vel.

Fjármálaskrifstofa

Óbreytt staða.

Skrifstofa stjórnsýslu

Einn starfsmaður í sóttkví en vinnur heima.
Persónuverndarfulltrúar eru að ræða sín á milli um að fjarvinnsluhugbúnaðurinn Zoom hefur fengið gagnrýni á deilingu gagna.
Starfsfólk stjórnsýslu hittist í stutta stund í kaffitíma á fjarfundi á morgnanna.

Súlan

Óbreytt staða.

Reykjaneshöfn

Einn starfsmaður lét af störfum núna um mánaðarmótin. Óbreytt þjónusta.

3. Önnur mál

a. Byrjað er að undirbúa stofnun teymis um viðbrögð við ört vaxandi atvinnuleysi, Teymið tekur yfir alla hópa samfélagsins.

b. Einhver sveitarfélög farin að nýta heimild til að færa fólk tímabundið í önnur störf. Skýr heimild í lögum að færa fólk á milli starfa á neyðartímum. Eins og staðan er núna er ekki þörf fyrir færslu starfsmanna.

c. Velferðarsvið sendi fyrirspurn til Fjölbrautarskóla Suðurnesja og spurðist fyrir um jaðarnemendur og nemendur af erlendum uppruna. Þaðan fengust upplýsingar um metnaðarfullt og lausnamiðað starf með nemendum. Kennarar og starfsfólk sé samtaka um breytt vinnulag og kennsluhætti og hafi unnið hratt og örugglega að þessum nýju starfsháttum. Þau segjast í stöðugu sambandi við nemendur með fjarfundabúnaði, tölvupósti og símtölum. Bæði kennarar og námsráðgjafar hafi verið að hringja heim og hvetja nemendur áfram. Þau fylgjast með Innu og virkni nemenda þar, ef nemendur eru óvirkir þá er strax haft samband við þá. Ef kennarar ná ekki til nemenda eða ef virkni breytist ekki, eru námsráðgjafar látnir vita og þeir hafa samband. Skólinn hefur lánað fartölvur heim til nemenda sem ekki eiga tölvur.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:10