35. fundur

18.05.2020 15:15

35. fundur í neyðarstjórn Reykjanesbæjar – fjarfundur haldinn þann 18. maí 2020 kl. 15:15

Þátttakendur: Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Regína Fanný Guðmundsdóttir fjármálastjóri, Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri viðskiptaþróunar, Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Upplýsingafundur Almannavarna

Verkefnahópur sem á að útfæra tillögur um hvernig staðið verður að opnun landsins tekur til starfa í dag og mun hann skila tillögum fyrir 25. maí.

2. Atvinnuátak

Rafrænn íbúafundur gekk vel og almenn ánægja meðal þeirra sem horfðu. Alls höfðu 8.363 horft á í það minnsta hluta fundarins í morgun. Auglýsingaherferð fyrir nýjan vef, Betri Reykjanesbæ fer á fulla ferð í vikunni, þar sem bæjarbúar verða hvattir til að nýta sér þetta tæki til að hafa áhrif og leggja sitt af mörkum við framþróun bæjarins. Yfirlitsfrétt um aðgerðir vegna atvinnuástands er í vinnslu og mun vera áberandi á síðunni á næstunni.

Þau störf fyrir námsmenn og ungt fólk sem bæjarráð samþykkti í seinustu viku fóru í auglýsingu strax á föstudag. Mikill fjöldi umsókna tók strax að berast og virðist áhuginn vera mjög mikill. Sérstök auglýsing verður gerð fyrir pólskumælandi störf.

Flokkstjórar vinnuskólans eru mættir til vinnu og eru fyrstu verkefni komin af stað. Mikið verkefni verður koma öllu af stað, enda verður vinnuskólinn umsvifamikill þetta sumarið með auknum fjölda starfa.

Teymi um nám, menntamál og starfsendurhæfingu fundar vikulega. Eftirfarandi bókun var lögð fram á síðasta fundi: „Fulltrúar menntastofnana á Suðurnesjum árétta mikilvægi þess að ákvarðanir um námsframboð sumarsins séu teknar sem allra fyrst svo undirbúningur og skipulag geti verið unnið með skilvirkum og markvissum hætti.“

Teymið telur mikilvægt að lögð sé áhersla á að styrkja innviði menntastofnana á Suðurnesjum svo vinna megi undirbúningsvinnu, skipulag og framkvæmdir aðgerða í sumar og haust 2020.

Súlan heldur áfram umræðum við ferðaþjóna bæjarins og verður haldinn sérstakur fundur með þeim fljótlega. Markaðsstofa Reykjaness býður fría aðild að markaðsstofu út árið samhliða því að það mótar nýjar leiðir til að auglýsa svæðið og þá þjónustu sem hér er boðið upp á. Mjög mikilvægt er að fyrirtæki í Reykjanesbæ nýti sér þetta tækifæri til að gerast meðlimir í markaðsstofunni og efla þannig markaðsstarf hennar.

3. Velferðarmál

Framhald á undirbúningi fyrir breytingar á þjónustu frá og með 25. maí. Breytingar á þjónustu dagdvala verða gerðar í minni skrefum.

Skýrsla um hagi og líðan ungs fólks er komin út. Vísbendingar eru um að líðan ungmenna hafi farið versnandi.

4. Fjármál

Áhersla verður nú lögð á hagræðingaraðgerðir í rekstrarkostnaði.

5. Önnur mál

a. Rætt um tilhögun varðandi þjónustu þegar frekari tilslakanir verða á samkomubanni þann 25. maí nk. Tilkynning verður send út á næstu dögum.

b. Sundlaugar voru opnaðar í morgun og gekk vel.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:55.