4. fundur

13.03.2020 15:00

4. fundur í neyðarstjórn Reykjanesbæjar - fjarfundur haldinn þann 13. mars 2020 kl. 15:00.

Þátttakendur: Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Unnar Steinn Bjarndal bæjarlögmaður, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Regína F. Guðmundsdóttir  fjármálastjóri, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar, Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufulltrúi, Kristinn Óskarsson mannauðsstjóri, Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála, Theodór Kjartansson vinnuverndar- og öryggisfulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

Samkomubann

• Ráðhús Reykjanesbæjar

Unnið er að undirbúningi vegna takmörkunar á aðgangi að ráðhúsi Reykjanesbæjar. Til að minnka útbreiðslu á veirunni verður bókasafni Reykjanesbæjar lokað í óákveðinn tíma frá og með mánudeginum 16 mars. Kaffihúsinu í ráðhúsinu verður lokað og lágmarks þjónusta verður veitt í þjónustuverinu. Íbúar og aðrir viðskiptavinir sem eiga erindi í þjónustuver Reykjanesbæjar eru hvattir til að senda tölvupóst á reykjanesbaer@reykjanesbaer.is, spjalla við starfsfólk í netspjalli eða hringja í síma 421-6700. Skrifstofa velferðarsviðs hefur ákveðið að þjónusta flest erindi í gegnum síma eða tölvu, þeir einstaklingar sem eiga tíma hjá félagsráðgjafa halda þeim tímum og mun ráðgjafi hringja í þá. Þeir sem þurfa að ná sambandi við starfsmenn velferðarsviðs geta hringt í þjónustuver Ráðhússins eða sent tölvupóst.

Hægt er að sækja um alla þjónustu rafrænt í gegnum þjónustugáttina og rafræna miðla á Mitt Reykjanes inn á heimasíðu bæjarins. Tilkynningar til barnaverndar eiga að berast í síma 112.

Mötuneyti starfsfólks verður lokað frá og með mánudeginum 16. mars.

Reynt er að aðskilja starfsmenn á velferðarsviði eins og unnt er til að fyrirbyggja að smit berist á milli þeirra ef það kemur upp.

Tölvudeild vinnur að undirbúningi til að starfsmenn geti unnið heima í auknum mæli. 

Söfn

Duus hús og Hljómahöllin verða áfram með sínar vanalegu opnanir en lágmarka fjölda gesta hverju sinni.

• Grunnskólar og leikskólar

Skólar í Reykjanesbæ vinna nú að skipulagningu skólastarfs. Þegar hefur verið ákveðið að mánudagurinn 16. mars verði starfsdagur í leik- og grunnskólum til þess að stjórnendur og starfsmenn geti skipulagt skólastarfið sem best á þessu tímabili sem takmörkunin nær til. Því fellur skólastarf niður og frístundaheimilin verða lokuð.

Nánari upplýsingar í fréttatilkynningum á heimasíðu Reykjanesbæjar.

Viðbragðsáætlun Reykjanesbæjar

Viðbragðsáætlun Reykjanesbæjar vegna COVID-19 hefur verið gefin út. Búið er að senda hana út á Workplace og einnig verður hún sett á vef Reykjanesbæjar. Um er að ræða fyrstu útgáfu áætlunarinnar og verður hún uppfærð eftir því sem þörf er á.

Almenningssamgöngur

Borist hefur fyrirspurn um hvort gerðar verði ráðstafanir til að takmarka aðgang í strætó fyrst á morgnana þegar fjöldinn er sem mestur. Vísað til umhverfissviðs til skoðunar.

Reykjaneshöfn

Þjónusta er skert þannig að hafnsögumenn séu ekki saman að störfum á sama tíma.

Hreinlæti

Skortur er á spritti í landinu en vonir standa til að hægt verði að fá meiri birgðir af spritti eftir helgi.

Starfsfólk verður hvatt til að þrífa vel sínar starfsstöðvar.

Viðburðum frestað

Ákvörðun hefur verið tekin um að fresta landsmóti Samtaka íslenskra skólalúðrarsveita sem áætlað var að færi fram í Reykjanesbæ 24. – 26. apríl nk. 


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.55.