43. fundur

03.09.2020 10:00

43. fundur í neyðarstjórn Reykjanesbæjar – fjarfundur haldinn þann 3. september 2020 kl. 10:00

Þátttakendur: Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs, Halldóra Guðrún Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Regína Fanný Guðmundsdóttir fjármálastjóri, Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, María Gunnarsdóttir forstöðumaður barnaverndar, Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufulltrúi, Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri, Þórdís Ósk Helgadóttir framkvæmdastjóri Súlunnar, Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir deildarstjóri þjónustu og þróunar, Kristinn Óskarsson mannauðsstjóri, Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri viðskiptaþróunar, Theodór Kjartansson vinnuverndar- og öryggisfulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Svæðaskipting og smitvarnir í ráðhúsinu

Núverandi fyrirkomulag á skiptingu og sóttvörnum í ráðhúsinu hefur gengið vel. Þó má gæta betur að því að utanaðkomandi gestir og þeir sem fara á milli svæða séu bæði með grímu og hanska.

Ekki er æskilegt að starfsmenn sem sinna nauðsynlegri og viðkvæmri þjónustu séu allir á sama svæði, sbr. barnavernd, fjárhagsaðstoð, þjónustuver, launadeild o.fl. og því á að vinna að því að skipta starfsmönnum þeirra deilda upp. Finna á aðstöðu sem hægt er að nýta til lengri tíma eða á meðan við þurfum að lifa með veirunni. Skoða á aðstöðu í Fjölskyldusetrinu að Skólavegi 1 fyrir nokkra starfsmenn velferðarsviðs og jafnvel af fleiri sviðum. Þá er einungis verið að hugsa um starfsemi sem ekki tekur á móti íbúum. Ef starfsmenn þar þurfa að taka á móti fólki þarf sú móttaka að fara fram í ráðhúsinu.

Mikilvægt er að sofna ekki á verðinum þó smitum fækki. Passa þarf upp á að svæðaskipting haldi og allir viðhafi smitvarnir. Hvetja til þess að fundir séu haldnir á Teams og tveggja metra reglan virt.

Velferðarsvið, fræðslusvið, þjónustuver og fjármálasvið ásamt lýðheilsu- og öryggisfulltrúa munu vinna að viðeigandi lausn fyrir viðkvæmar einingar og kynna fyrir nefndinni á næsta fundi.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:35.