07.10.2020 15:00

48. fundur í neyðarstjórn Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn þann 7. október 2020 kl. 15:00

Viðstaddir:  Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs, Jóhann Friðrik Friðriksson bæjarfulltrúi, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Regína Fanný Guðmundsdóttir fjármálastjóri, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Unnar Steinn Bjarndal bæjarlögmaður, Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufulltrúi, Þórdís Ósk Helgadóttir framkvæmdastjóri Súlunnar, Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir deildarstjóri þjónustu og þróunar, María Gunnarsdóttir forstöðumaður barnaverndar, Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála, Kristinn Óskarsson mannauðsstjóri, Theodór Kjartansson vinnuverndar- og öryggisfulltrúi, Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari. 

1. Hertar aðgerðir vegna COVID-19 

Vegna hertra aðgerða á höfuðborgarsvæðinu er ekki talin þörf á því að svo stöddu að herða aðgerðir hjá Reykjanesbæ frekar en neyðarstjórn hvetur til þess að ekki sé ferðast til og frá höfuðborgarsvæðinu að nauðsynjalausu.

Velferðarsvið

Í ljósi hertra aðgerða á höfuðborgarsvæðinu, m.a. tilmæla sóttvarnarlæknis um ferðatakmarkanir og fjarvinnu, verða þeir starfsmenn sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu og eru á velferðarsviði settir í fjarvinnu þar sem því verður við komið, annars í leyfi vegna Covid-19. Um er að ræða 5 starfsmenn og einn nema sem er í starfsnámi.

Fræðslusvið

Smit og sóttkví í starfsemi skóla:

Upp hefur komið smit hjá starfsmanni í mötuneyti Heiðarskóla. Það hefur það í för með sér að 6 starfsmenn sem sinntu verkefnum í matsalnum á föstudag fara í sóttkví auk nemenda í 1. og 2. bekk en starfsmaðurinn skammtaði þeim mat þennan dag. Þetta hefur ekki áhrif á aðra nemendur sem sóttu sér mat og borðuðu í matsalnum. Sóttkví telur frá 2. október og er skimun áætluð fimmtudaginn 8. október og föstudaginn 9. október.

2. Staðan á Suðurnesjum

Fundargerð aðgerðastjórnar Almannavarna á Suðurnesjum 5. október 2020 kynnt fyrir neyðarstjórn.

Staðfest smit á Suðurnesjum 7. október 2020 eru 22 og er sami fjöldi í einangrun. 183 eru í sóttkví.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:50.