53. fundur

06.11.2020 11:00

53. fundur neyðarstjórnar Reykjanesbæjar – fjarfundur haldinn þann 6. nóvember 2020 kl. 11:00

Viðstaddir: Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs, Regína Fanný Guðmundsdóttir fjármálastjóri, Unnar Steinn Bjarndal bæjarlögmaður, Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufulltrúi, Þórdís Ósk Helgadóttir framkvæmdastjóri Súlunnar, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir deildarstjóri þjónustu og þróunar, Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri, Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála, Kristinn Óskarsson mannauðsstjóri, Theodór Kjartansson vinnuverndar- og öryggisfulltrúi, Hafþór B. Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi, Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar. Fundargerð ritaði Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir.

1. Hertar sóttvarnaraðgerðir – staðan hjá Reykjanesbæ

Farið yfir stöðuna á smitum almennt og einnig hjá starfsmönnum Reykjanesbæjar. Smitum í samfélaginu hefur farið töluvert fækkandi og aðeins einn starfsmaður Reykjanesbæjar er smitaður.

2. Staðan á sviðum

Fræðslusvið:

Grunnskólar

Skólastarf í grunnskólunum hefur gengið vel eftir að það hófst aftur 3. nóvember m.t.t. breyttra og hertra sóttvarnarreglna. Reynt er að samræma skipulag milli skóla en mismunandi aðstæður kalla á mismunandi útfærslur.

Í grunninn byggist skipulagið á eftirfarandi þáttum með einstaka undantekningum:

Nemendur í 1.–4. bekk fá eins hefðbundið skólastarf og unnt er. En samkvæmt reglugerð eru þeir undanþegnir 2 metra nálægðartakmörkun sem og grímuskyldu. Ekki skulu vera fleiri en 50 nemendur í 1.–4. bekk í hverju rými.

Frístundaheimilin verða opin til kl. 15:30 og í boði fyrir eins marga nemendur og aðstæður leyfa í hverjum skóla en samkvæmt reglugerð skal halda sömu hópaskiptingu nemenda í grunnskólastarfi og á frístundaheimilum þannig að ekki verði blöndun milli nemendahópa.

Nemendur í 5. - 10. bekk fá að minnsta kosti 2 klukkustundir á dag í skólanum en samkvæmt reglugerð gildir 2 metra nálægðartakmörkun um nemendur í 5. - 10. bekk og ef víkja þarf frá henni ber nemendum að nota grímu. Ekki skulu vera fleiri en 25 nemendur í 5.–10. bekk í hverju rými.

Heitar skólamáltíðir eru afgreiddar til allra nemenda en samkvæmt reglugerð hafa mötuneyti heimild til að starfa samkvæmt gildandi ákvæðum um fjöldatakmarkanir og nálægðartakmarkanir. Nemendur í 1. - 4. bekk fá mat á skólatíma en nemendur í 5. - 10. bekk fá heitan mat í sérútbúnum boxum að loknum skóladegi sem þeir eru hvattir til að borða í skólanum.

Íþróttatímar eru annað hvort kenndir utandyra eða með öðrum hætti.

Sundtímar eru nýttir fyrir aðra kennslu.

Samkvæmt reglugerð er grímuskylda í sameiginlegum rýmum skólanna, svo sem við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, en þar er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að nemendur í 5.–10. bekk og starfsfólk notist við andlitsgrímu.

Foreldrar og aðstandendur skulu almennt ekki koma inn í skólabyggingar nema brýna nauðsyn beri til. Stjórnendum grunnskóla er heimilt að krefja foreldra, þurfi þeir að koma inn í skólabyggingu, um að nota andlitsgrímur.

Við biðjum foreldra um að sjá til þess að nemendur mæti með grímu í skólann á meðan þetta ástand varir.

Það er mikilvægt að forráðamenn barna dragi úr fjölda einstaklinga í tengslaneti barna sinna utan skólatíma til að vinna ekki gegn þessum hertu ráðstöfunum.

Leikskólar:

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á skólastarfi vegna hertra sóttvarnaraðgerða tók gildi þriðjudaginn 3. nóvember. Sett var það markmið að sem minnst röskun yrði á starfi leikskóla.

Eftirfarandi eru helstu atriði reglugerðarinnar varðandi leikskólastarf:

Ekki skulu vera fleiri en 50 leikskólabörn í hverju rými.

Leikskólabörn eru undanþegin 2 metra nálægðartakmörkun.

Ekki skulu vera fleiri en 10 fullorðnir einstaklingar í hverju rými.

Starfsfólk skal halda 2 metra nálægðartakmörkunum sín á milli og sé það ekki hægt skal starfsfólk nota andlitsgrímur.

Skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna á leikskólaaldri er óheimilt, jafnt innan og utan leikskóla.

Foreldrar skulu almennt ekki koma inn í skólabyggingar nema brýna nauðsyn beri til.

Foreldrar þurfa að bera andlitsgrímu þegar þeir koma með börnin á morgnana og sækja síðdegis.

Foreldrar eru beðnir um að lágmarka viðveru og stoppa ekki í fataklefa.

Haldið verður áfram að skila börnum á útisvæði, ýmist öllum hópnum eða hluta hans.

Foreldrar eru beðnir um að halda börnum sínum heima ef þau eru með flensulík einkenni.

Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við kennara í gegnum síma eða samskiptaforritið Karellen til að ræða hagi og líðan barna sinna. Einnig má benda foreldrum á að snúa sér til stjórnenda leikskólans hafi þeir spurningar varðandi útfærslu reglugerðarinnar í leikskólastarfinu.

Vel hefur gengið í leikskólunum að fylgja þessu eftir og ekki hefur þurft að skerða þjónustu. Það var mat leikskólastjórnenda að ekki væri þörf á skipulagsdegi mánudaginn 2. nóvember sl. og einnig að hægt væri að halda úti óskertum opnunartíma. Aðlögun nýrra barna stendur yfir í nokkrum leikskólum og hefur það gengið vel. Foreldrar hafa sýnt mikinn skilning og allt samstarf verið til fyrirmyndar. Leikskólastjórnendur ásamt sínu starfsfólki hafa staðið sig frábærlega og eiga hrós skilið fyrir að leggja allt kapp á að halda allri starfsemi leikskólanna gangandi með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.

Tónlistarskólinn

Hert hefur verið á grímuskyldu til samræmis við 5. gr. nýju reglugerðarinnar um aðgerðir í tónlistarskólum. Sömuleiðis hafa fjöldatakmarkanir verið hertar skv. reglugerðinni og er því að sjálfsögðu fylgt, en þær setja aðeins meiri skorður á starfsemi tónlistarskóla en áður var.

M.a. er ekki hægt að halda tónleika, en það var áður gert eingöngu með nemendum og þeim kennurum sem komu að viðkomandi tónleikum. Tónleikar hafa verið teknir upp á mynd og hljóð og nemendum/aðstandendum send klippa af þeirra atriði. Þar sem það er ekki hægt lengur þá taka kennarar myndir og/eða myndbönd í kennslustundum sem eru svo birtar á skjáum í skólanum og jafnvel á vefsíðunni og er geymt. Þetta er smá uppbót fyrir það að geta ekki haldið tónleika og tekið upp.

Hafin var fjarkennsla í tónfræðagreinum fyrir nokkru og gert hlé á samspilum og hljómsveitastarfi, en nýja reglugerðin kveður skýrt á um að ekki megi blanda saman nemendum í hóp nema hann sé alfarið úr sama grunnskóla og í sömu árgangaskiptingu og þar er viðhöfð. Það felur í sér að það er ekki hægt að halda úti staðkennslu í tónfræðagreinum né starfrækja samspil/hljómsveitir. Það var því þegar í gangi vel á undan þessari tilskipun.

Kennsla í forskóla og hljóðfærakennsla á skólatíma í 3. og 4. bekk er óbreytt og gengur sinn vanagang.

Hljóðfærakennslu í 5. – 7. bekk er haldið úti í öllum grunnskólum nema Stapaskóla óháð skólatíma og hópaskiptingum.

Varðandi nemendur á framhaldsskóla- og fullorðinsaldri var skólinn þegar með hertar reglur á gildistíma fyrri reglugerðar og þær samræmast alfarið tilskipun nýju reglugerðarinnar um sóttvarnir og sóttvarnarhegðun í tónlistarskólum.

Íþróttastarf

Starf íþrótta- og tómstundahreyfingarinnar í Reykjanesbæ er unnið með rafrænum hætti og fá allir sem að málum koma hrós fyrir vel unnin störf.

Í skoðun er að opna hluta af starfsemi Skjólsins og er það unnið í samstarfi við Almannavarnir.

Kjör á íþróttamanni ársins í Reykjanesbæ verður hugsanlega með öðrum hætti en vanalega en það fer eftir þeim fjöldatakmörkunum sem verða í gildi í lok ársins.

Velferðarsvið:

Starfsemin á velferðarsviði gengur vel og í samræmi við þær breytingar sem ákveðnar voru með tilkomu hertra sóttvarnaraðgerða 30. október sl. Stjórnendur og starfsmenn hafa mætt nýjum áskorunum lausnamiðaðir og sett þarfir notenda þjónustunnar og viðkvæmustu hópanna í forgrunn og leitað leiða til að skerðing á þjónustu verði sem minnst. Starfsmönnum og notendum er skipt upp í hópa þar sem þess er þörf, í samræmi við fjöldatakmarkanir og til að draga úr hættu á smitum. Mötuneytinu á Nesvöllum þurfti að loka og stendur notendum til boða að fá í staðinn heimsendan mat. Björgin geðræktarmiðstöð Suðurnesja lokaði og fá notendur þjónustu í gegnum síma og fjarfundi á meðan á lokuninni stendur. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag þjónustu stofnana sviðsins er að finna á heimasíðu Reykjanesbæjar.

Með því að smella hér má skoða fyrirkomulag þjónustu vegna COVID-19 hjá Reykjanesbæ

Súlan:

Menningarhús eru lokuð en starfsmenn vinna að undirbúningi opnunar þegar það verður hægt vegna sóttvarnarráðstafana.

Starfsmönnum bókasafns hefur verið skipt á fjögur sóttvarnarhólf. Aðeins einn starfsmaður er á efri hæð bókasafnsins og óskar forstöðumaður eftir að bæta einum starfsmanni við þar vegna álags. Vinnuverndar- og öryggisfulltrúa og lýðheilsufulltrúa er falið að skoða málið.

Vegna skjálftavirkni á Reykjanesi verða leiðbeiningar um viðbrögð við jarðskjálftum settar á vef Reykjanesbæjar.

Skrifstofa stjórnsýslu/T12:

Þjónustuverið er opið og hefur starfsmönnum þjónustuvers verið skipt á þrjú sóttvarnarhólf. Auk starfsmanna þjónustuvers eru þrír starfsmenn skrifstofu stjórnsýslu starfandi í ráðhúsinu en aðrir starfsmenn eru í fjarvinnu.

Umhverfissvið:

Umhverfismiðstöð hefur verið skipt í tvö hólf og gengur vel. Fimm starfsmenn umhverfissviðs eru í fjarvinnu.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11.30.